Karl Einarsson (1935-76)

Karl Einarsson

Karl Einarsson

Karl Einarsson var um árabil einn þekktasti skemmtikraftur landsins, hans sérsvið voru eftirhermur og komu út tvær plötur þar sem gamanefni hans er að finna.

Karl (fæddur 1935) fór snemma á sjóinn, starfaði m.a. sem bryti á Herjólfi og á varðskipi í þorskastríðinu við Breta og þar hóf hann tilraunir sínar með eftirhermur.

Hann kom fyrst fram opinberlega á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sumarið 1964 og ári síðar heyrðist í honum fyrst í útvarpi. Þar sló Karl í gegn og var ekki aftur snúið.

Næstu árin tróð hann upp á ýmiskonar skemmtunum um land allt, frá héraðsmótum til sautjánda júní-skemmtana og naut mikilla vinsælda sem slíkur, einnig var hann vinsæll kynnir. Karl starfaði ýmist einn eða í félagi við aðra, til að mynda Ómar Ragnarsson, Alla Rúts og Jón B. Gunnlaugsson, hann skemmti einnig fyrir Íslendinga á sólarströndum (Costa del sol) þegar þær ferðir komust á og einnig á skemmtiferðaskipum sem flutti Íslendinga á hlýrri slóðir.

Þar kom að að Svavar Gests hljómplötuútgefandi sá sér leik á borði og fékk Karl til að herma eftir á lítilli hljómplötu þegar sem hann lýsti heimsmeistaraeinvígi Bobby Fischer og Boris Spassky í skák sem haldið var hér á landi 1972 og gekk undir nafninu „Einvígi aldarinnar“.

Á þeirri plötu, sem hafði að geyma efni eftir Svavar sjálfan (sem kallaði sig Spóa) hermdi Karl m.a. eftir Helga Sæmundssyni, Árna Tryggvasyni leikara, Guðmundi Jónssyni söngvara, Gunnari Thoroddsen forsætisráðherra og sr. Árilíusi Níelssyni. Skemmst er frá því að segja að platan sló samstundis í gegn og hafði selst í yfir þrjú þúsund eintökum innan fjögurra vikna, platan hlaut líka góða dóma í Morgunblaðinu.

Einn þeirra sem Karl starfaði með var Hrafn Pálsson og ári síðar (1973) sendu þeir frá sér plötuna Skaup ´73 með frumsömdu skemmtiefni og átti hún að verða fyrsta í röðinni slíkra platna. Á þessari „partíplötu“ eins og hún var kölluð, var hlutverk Karls eftirhermur en Hrafn söng ásamt Guðrúnu Á. Símonar þekkt erlend lög við undirleik hljómsveitar undir stjórn Árna Elfar. Þótt platan fengi þokkalegar viðtökur varð ekki framhald á útgáfu Skaup-platnanna.

Karl hélt áfram að skemmta en 1975 varð fyrst vart heilsubrests í formi hjartabilunar hjá honum, hann hélt eitthvað áfram að skemmta en haustið 1976 lést hann af völdum hjartaáfalls aðeins fjörutíu og eins árs gamall.

Karl var án efa þekktasti eftirhermuskemmtikraftur landsins í þessari þjóðaríþrótt hér á árum áður og var sjálfsagt mönnum eins og Jörundi Guðmundssyni og fleirum sem á eftir komu, fyrirmynd í þeirri íþrótt.

Efni á plötum