Kargó (1986-89)

Kargó

Kargó

Kargó (Cargo) frá Siglufirði var unglingasveit og fór nokkuð víða sem slík, hún starfaði í um þrjú ár og hefur komið saman í nokkur skipti hin síðari ár.

Hljómsveitin var stofnuð í ársbyrjun 1986 og voru stofnmeðlimir hennar Örn Arnarsson trommuleikari, Þorsteinn Sveinsson söngvari (Miðaldamenn o.fl.), Jón Ómar Erlingsson bassaleikari (Sóldögg o.fl.), Leifur Elíasson [?] og Siggi Ingi [?].

Kolbeinn Óttarsson Proppé hljómborðsleikari (Synir Raspútíns o.fl.) og Jóhann Sigurðsson gítarleikari komu síðan í stað þeirra tveggja síðast töldu og þannig skipuð tók Kargó þátt í Músíktilraunum vorið 1987. Sveitin lék einhvers konar gleðipopp að hætti fleiri sveita það árið en komst ekki áfram í úrslit keppninnar.

Um verslunarmannahelgina 1987 tók Kargó einnig þátt í hljómsveitakeppni sem haldin var á Skeljavíkurhátíðinni við Hólmavík, og sigraði þá keppni. Þá mun Magnús Benónýsson hafa verið í sveitinni en óljóst er hvort hann leysti einhvern af þessa helgi eða hvort hann var einn meðlima Kargós. Þá var Sigurður Már Gunnarsson hljómborðsleikari sveitarinnar sumarið 1988.

Sveitin starfaði líkast til með óbreytta skipan þar til hún hætti störfum 1989, þá hafði hún spilað víða um land, m.a. á Músíktilraunum, Vestfjörðum, Höfn í Hornafirði og auðvitað á heimaslóðum.

Sveitin hefur í nokkur skipti verið endurvakin síðustu árin og hafa ýmsir komið við sögu þeirra viðburða, auk fyrri meðlima hafa t.d. Kristinn Kristjánsson bassaleikari (Spútnik), Þröstur Þórhallsson gítarleikari (Saga Class o.fl.), Ingunn [?] hljómborðsleikari og Cecilía Magnúsdóttir söngkona (Áttavillt o.fl.) fyllt skörð þeirra sem þá hefur vantað.