Kargó (1986-89)

Kargó

Kargó

Kargó (Cargo) frá Siglufirði var unglingasveit og fór nokkuð víða sem slík, hún starfaði í um þrjú ár og hefur komið saman í nokkur skipti hin síðari ár.

Hljómsveitin var stofnuð í ársbyrjun 1986 og voru stofnmeðlimir hennar Örn Arnarsson trommuleikari, Þorsteinn Sveinsson söngvari (Miðaldamenn o.fl.), Jón Ómar Erlingsson bassaleikari (Sóldögg o.fl.), Leifur Elíasson [?] og Sigurður Ingi Þorleifsson [?]. Sveitin gekk í fyrstu undir nafninu Cargo en því var breytt í Kargó þegar misritun varð á nafnspjöldum sem sveitin lét prenta.

Kolbeinn Óttarsson Proppé hljómborðsleikari (Synir Raspútíns o.fl.) og Jóhann Sigurðsson gítarleikari komu síðan í stað þeirra tveggja síðast töldu og þannig skipuð tók Kargó þátt í Músíktilraunum vorið 1987. Sveitin lék einhvers konar gleðipopp að hætti fleiri sveita það árið en komst ekki áfram í úrslit keppninnar.

Um verslunarmannahelgina 1987 tók Kargó einnig þátt í hljómsveitakeppni sem haldin var á Skeljavíkurhátíðinni við Hólmavík, og sigraði þá keppni. Þá mun Magnús Benónýsson bassaleikari hafa verið í sveitinni en óljóst er hvort hann leysti einhvern af þessa helgi eða hvort hann var einn meðlima Kargós. Þá var Sigurður Már Gunnarsson hljómborðsleikari sveitarinnar sumarið 1988.

Kargó í Skeljavík 1987

Kargó starfaði líkast til með óbreytta skipan þar til hún hætti störfum 1989, þá hafði hún spilað víða um land, m.a. á Músíktilraunum, Vestfjörðum, Höfn í Hornafirði, jafnvel Grímsey og auðvitað á heimaslóðum. Þeir félagar munu hafa fjárfest í hljómsveitarbíl til að koma sveitinni milli staða.

Sveitin hefur í nokkur skipti verið endurvakin síðustu árin og hafa ýmsir komið við sögu þeirra viðburða, auk fyrri meðlima hafa t.d. Kristinn Kristjánsson bassaleikari (Spútnik), Þröstur Þórhallsson gítarleikari (Saga Class o.fl.), Ingunn [?] hljómborðsleikari og Cecilía Magnúsdóttir söngkona (Áttavillt o.fl.) fyllt skörð þeirra sem þá hefur vantað.