Frk. Júlía (1989-91)

Frk. Júlía

Frk. Júlía

Frk. Júlía var rangæsk hljómsveit (frá Hvolsvelli) sem var nokkuð öflug á sveitaböllum í heimahéraði, og starfaði á árunum 1989-91.

Sveitin hafði reyndar verið starfandi frá 1987 undir nafninu Durex en breytti nafninu í Frk. Júlía sumarið 1989, þá voru meðlimir hennar Snæbjörn Reynir Rafnsson gítarleikari, Jón Guðfinnsson bassaleikari (Land og synir o.fl.), Lárus Ingi Magnússon söngvari (Nonni og mannarnir), Helgi Jónsson hljómborðsleikari (Írafár, Kokkteill o.fl.) og Þorsteinn Aðalbjörnsson trommuleikari (Írafár, Rekkverk o.fl.).

Frk. Júlía keppti í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1990 en komst ekki í úrslit, Lárus Ingi söngvari sveitarinnar sigraði hins vegar um sama leyti Söngkeppni framhaldsskólanna sem þá var haldin í fyrsta skipti, og skaut þar aftur fyrir sig Páli Óskari Hjálmtýssyni og Móeiði Júníusdóttur sem höfnuðu í öðru og þriðja sæti keppninnar.

Frk. Júlía starfaði þannig skipuð til sumarsins 1991 þegar hún birtist með örlítið breyttri liðsskipan og nýtt nafn í farteskinu, Munkar í meirihluta.
Sveitin kom saman á nýjan leik 2009 en starfaði stutt.