Karakter (1988-98)

Karakter1

Karakter

Akureyska hljómsveitin Karakter starfaði um árabil og skemmti Norðlendingum og öðrum skemmtanaþyrstum Íslendingum með ballprógrammi sínu.

Sveitin átti rætur sínar að rekja að hluta til til Stuðkompanísins sem hafði sigrað Músíktilraunir vorið 1987 og keyrt sig út á sveitaböllunum áður en hún hætti sumarið 1988, í kjölfarið var Karakter stofnuð.

Meðlimir sveitarinnar í upphafi voru allavega Trausti Már Ingólfsson trommuleikari úr Stuðkompaníinu og Ingvar Grétarsson söngvari og gítarleikari sem hafði starfað sem hljóðmaður með sömu sveit, ekki er ljóst hverjir aðrir skipuðu sveitina í byrjun en Ármann Gylfason bassaleikari og Níels Ragnarsson hljómborðsleikari voru í henni 1990. Þeir gætu því hafa verið í Karakter frá upphafi.

Haustið 1988 spilaði Karakter mikið sunnanlands en Ingvar var þá að syngja í rokksýningunni Rokkskór og bítlahár á Hótel Íslandi, og sveitin lék þá í kjölfarið í Hollywood eftir sýningar. Eftir að sýningum lauk á Hótel Íslandi lék sveitin mestmegnis norðan heiða.

Einhver meðlimaskipti urðu í sveitinni, til að mynda komu hljómborðsleikararnir Ásgrímur Angantýsson og Friðrik Jónsson við sögu hennar 1990. Linda Mjöll Gunnarsdóttir var um tíma söngkona í Karakter og einnig sungu nokkrir gestasöngvarar með sveitinni en þar má nefna Einar Júlíusson og einnig söng Erna Gunnarsdóttir í nokkur skipti með henni síðar.

Karakter 1990

Karakter 1990

Karakter starfaði ekki samfleytt þann tíma sem saga sveitarinnar spannar og oft virðist sem nokkrir mánuðir hafi liðið milli þess sem hún kom fram. Eftir eina slíka pásu sem reyndar var nokkuð löng, birtist sveitin sumarið 1992 og var þá nokkuð breytt. Þá var Ingvar einn eftir af upprunalegu útgáfunni en Finnur Finnsson bassaleikari, Haukur Pálmason trommuleikari og Baldvin Ringsted gítarleikari voru aðrir meðlimir Karakters.

1993 kom Eggert Benjamínsson trommuleikari inn í sveitina í stað Hauks og þannig starfaði sveitin með hléum þó, næstu tvö árin að minnsta kosti.

Eftir 1995 er erfitt að átta sig á mannaskipan sveitarinnar enda var spilamennskan mun stopulli en árin á undan og er því engar upplýsingar að finna um hana. Karakter mun þó hafa verið starfandi allt til 1998 þegar hún hætti loks alveg.