Karl Guðnason (1960-)

engin mynd tiltækKarl Guðnason var áberandi í tónlist í trúarlega geiranum um tíma, sendi frá sér plötur en minna hefur farið fyrir honum síðan.

(Guðmundur) Karl Guðnason er fæddur 1960, hann var snemma máttarstólpi í tónlistarlífi Krossins ásamt sex systkinum sínum og foreldrum, og gáfu þau systkini út plötuna Á krossgötum árið 1987. Tónlistin hafði að geyma kristilegan boðskap en systkinin höfðu með textasmíðarnar að gera. Áður höfðu einhver systkinanna komið við sögu á plötunni Gleðifregn sem komið hafði út tíu árum áður.

Á næstu árum komu út nokkrar plötur á vegum Krossins þar sem heyra mátti söng Karls, og má þar nefna plöturnar Regn (1998), Rjóminn af trúartónlist 9. áratugarins (1997), Vísa mér þinn veg (1991), Afi og Klemmi (1995) og Froskar og fiðrildi (?) en tvær síðast nefndu plöturnar innihéldu efni einkum ætlað börnum.

1994 gaf Karl hins vegar út sólóplötu á vegum Krossgatna, sem hlaut nafnið Trúðurinn. Á þeirri plötu flutti hann efni eftir sjálfan sig og Loft yngri bróður sinn.

Þeir bræður gáfu síðar saman út plötuna Spinnigal: Til styrktar ABC hjálparstarfs en litlar sem engar upplýsingar er að finna um þá útgáfu. Einnig kom Karl við sögu annarrar plötu Lofts, Þú lifir, sem kom út 1996.

Karl virðist lítið hafa fengist við tónlist undanfarin ár.

Efni á plötum