Guðni S. Guðnason (1926-93)

Guðni S. Guðnason

Harmonikkuleikarinn Guðni S. Guðnason lék með fjölmörgum hljómsveitum á blómaskeiði danshljómsveita á fimmta og sjötta áratugnum, hann varð síðar kunnur hljóðfæraviðgerðamaður.

Guðni Sigþór Guðnason var fæddur á Eskifirði árið 1926 og fluttist þaðan til Reykjavíkur á stríðsárunum, 1943. Þá þegar var hann kominn með nokkra reynslu í dansleikjaspilamennsku en hann hafði þá leikið á harmonikku á böllum eystra, ýmist einn eða í félagi við aðra harmonikkuleikara.

Guðni fór í nám í orgelleik og tónfræði þegar suður var komið og spilaði nokkuð á nikkuna samhliða því í veislum og þess konar samkomum, og hafði ágætar tekjur af þeirri spilamennsku. Svo fór að hann gekk til liðs við Jóhann Gunnar Halldórsson og hljómsveitar hans í Gúttó árið 1946 og lék með þeirri sveit og síðan Hljómsveit Jan Morávek á sama stað til 1950. Guðni lék með Þ.Ó. kvintettnum í skamman tíma áður en hann gekk í Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar (1952-54), og síðan Hljómsveit Svavars Gests (1952-54), þá lék hann með hljómsveit á Keflavíkurflugvelli um fjögurra ára skeið en ekki liggur fyrir hvaða sveit það var. Um 1960 starfaði hann með Hljómsveit Jose Riba og síðan Hljómsveit Þorsteins Eiríkssonar en eftir það með gömlu dansa-sveitum eins og hljómsveitum Ásgeirs Sverrissonar og Garðars Jóhannessonar á meðan vinsælasta tónlistin var að þróast frá bítli til pönks (með ýmsum viðkomustöðum) á árunum 1964 til 1980. Guðni lék á einhverjum tíma með Hljómsveit Árna Ísleifs en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær það var.

Guðni með nikkuna á lofti

Aðal starf Guðna frá því á sjötta áratugnum og æ síðan voru hljóðfæraviðgerðir og -stillingar, fyrst um sinn tengt píanó-hljóðfærinu en síðar einnig og svo aðallega harmonikkum. Hann rak til fjölda ára viðgerðarverkstæði og seldi hljóðfæri (einkum harmonikkur) ný og notuð á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, allt til ársins 1987.

Um það leyti var Guðni aðeins farinn að leika á dansleikjum aftur orðinn sextugur að aldri, bæði með eigin sveit sem gekk undir nafninu Kvartett Guðna S. Guðnasonar, og svo Danssporinu sem lék á skemmtistöðum eins og Sigtúni og Ártúni á árunum 1986 til 90, þær sveitir voru eingöngu í gömlu dönsunum.

Svo virðist sem Guðni hafi leikið inn á tvær plötur á ferli sínum, annars vegar á litla plötu (frá 1963) með söng Sverris Guðjónssonar söngvara sem þá var einungis þrettán ára gamall en þar leikur hljómsveit undir stjórn Guðna á plötunni, hins vegar leikur hann eitt lag eftir Guðjón Matthíasson (föður Sverris) á safnplötunni Harmonikutónar sem kom út 1991.

Guðni S. Guðnason lést 1993.

Efni á plötum