Karlakór Iðnskólans (1937-50)

Karlakór Iðnskólans 1943

Karlakór Iðnskólans 1943

Erfitt er að tímasetja starfsemi Karlakórs Iðnskólans í Reykjavík með nákvæmum hætti þar sem heimildir um þennan kór eru af skornum skammti.

Elstu heimildir um Karlakór Iðnskólans er að finna frá 1937 en ekki kemur fram hver stjórnaði kórnum þá. Vitað er að Jón Ísleifsson kennari stjórnaði kórnum í ellefu ár eða allt þar til starfsemi hans lagðist af vorið 1950. Ekki er víst að kórinn hafi starfað samfleytt öll árin.

Vorið 1949 hafði kórinn sungið á Iðnskólaþingi Norðurlanda sem haldið var á Íslandi en að öðru leyti snerist kórsöngurinn mest um uppákomur innan veggja skólans þótt vissulega væru undantekningar þar á.

Einhverjir af meðlimum kórsins höfðu ætlað að halda starfseminni áfram eftir skólaárið 1949-50 en sú tilraun varð að engu, enginn hafði tíma að loknu iðnaðarnámi til að stunda svo tímafrekar tómstundir og því fór sem fór.