Karlakór iðnaðarmanna [2] (1929-48)

Karlakór iðnaðarmanna 1939

Karlakór iðnaðarmanna 1939

Karlakór iðnaðarmanna hinn síðari á sér næstum tveggja áratuga sögu á fyrri hluta síðustu aldar. Sú saga hófst með söng nokkurra nemenda við Iðnskólann í Reykjavík í frímínútum og við önnur slík tækifæri í skólanum en lauk með því að kórinn var kominn í fremstu röð kóra á landinu öllu.

Upphaf Karlakórs iðnaðarmanna (oft einnig kallaður Iðnaðarmannakórinn) má rekja til þess að nokkrir áhugasamir nemendur Iðnskólans í Reykjavík um söng, tóku sig saman og æfðu kórsöng veturinn 1929-30 en þess má geta að þann vetur var iðnskólanámið í fyrsta sinn kennt í dagskóla en kennslan fór fram í húsnæði skólans við Vonarstræti (sem hýsir nú Tjarnarskóla).

Fyrst um sinn fóru æfingar nemendanna fram án stjórnanda en Helgi H. Eiríksson skólastjóri Iðnskólans kunni vel að meta þetta framtak nemenda sinna og útvegaði þeim stjórnanda, fyrst Sigurð Þórðarson (síðar stjórnanda Karlakórs Reykjavíkur o.fl.) veturinn 1929-30 og síðan Benedikt Elfar söngvara sem stjórnaði kórnum 1930-31.

Þriðji stjórnandinn, Páll Halldórsson stjórnaði kórnum veturinn 1931-32 en svo fór að vorið 1932 kom að því að megnið af söngmönnunum skyldu útskrifast og fyrir lá að kórastarfið innan skólans myndi leggjast af. Þá voru um fjörutíu manns í kórnum en tuttugu og einn þeirra átti að útskrifast.

Í kjölfarið var sú ákvörðun tekin að kórinn yrði formlega stofnaður sem eining utan skólans, og var það gert um haustið 1932, er það oftar en ekki talið marka upphaf sögu kórsins sem hafði þá í raun starfað í þrjú ár.

Starfsemin fór á fullan skrið og Páll varð fyrsti opinberi stjórnandi kórsins og stýrði honum reyndar allt til 1942. Á þessum fyrstu árum æfði kórinn mest en söng lítið opinberlega, það var ekki fyrr en 1933 sem hann söng fyrst opinberlega en það var á Akranesi, það sama haust gekk kórinn í Samband íslenskra karlakóra (SÍK).

Ári síðar (1934) söng Kór iðnaðarmanna á kóramóti sambandsins sem haldið var í Reykjavík, við góðan orðstír og vorið 1935 hélt kórinn sína fyrstu sjálfstæðu tónleika, sem haldnir voru í Gamla bíói.

Kórinn fór tvívegis í söngferðalög út á land, um Vestur- og Norðurland í bæði skiptin en hann söng mestmegnis þó á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring þann tíma sem hann starfaði.

Hæst reis söngstarf kórsins þó þegar hann flutti lög hins sænska Bellmanns við tveggja alda afmæli söngvaskáldsins á eftirminnilegum tónleikum í Gamla bíói 1940, og svo á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944 þegar Samband íslenskra karlakóra setti saman Þjóðhátíðarkórinn svonefnda úr fimm karlakórum, þ.á.m. Karlakór iðnaðarmanna.

Páll Halldórsson stýrði Karlakórs iðnaðarmanna sem fyrr segir til ársins 1942 en þá tók Róbert A. Ottósson (Robert Abraham) við honum, nokkuð hafði fækkað í kórnum undir lokin hjá Páli en með tilkomu Róberts fjölgaði aftur í honum og taldi hann nú um fjörutíu manns aftur.

Áherslur breyttust einnig með veru Róbert, kórinn varð nú agaðri og söngskrá hans varð nú einnig þyngri en um leið varð kórinn betri og skipaði sér nú að sögn gagnrýnenda, meðal bestu karlakóra landsins þótt hann hefði alls ekki verið slæmur fyrir.

Róbert stjórnaði Karlakór iðnaðaramanna til vorsins 1948 þegar honum bauðst að taka við Útvarpskórnum sem þá starfaði við Ríkisútvarpið, hann hafði fyrstu ár sín á Íslandi búið á Akureyri og eftir að hann flutti suður 1940 fóru menn smám saman að átta sig á hvers konar hvalreki hann var fyrir íslenskt tónlistarlíf, og því var erfitt fyrir kórinn að halda honum.

Í kjölfarið lagðist söngstarf Karlakórs iðnaðarmanna niður og lauk sögu hans þar með 1948. Meðlimir kórsins áttu þó eftir að syngja saman að minnsta kosti einu sinni enn en það var við útför Gísla Þorleifssonar fyrsta formanns kórsins, árið 1954.