Karmelsystur í Hafnarfirði (1939-)

Karmelklaustrið í Hafnarfirði

Karmelklaustrið í Hafnarfirði

Það kann að hljóma undarlega að Karmelsystur, nunnur úr Karmelklaustrinu í Hafnarfirði skulu vera meðal tónlistarflytjenda á Íslandi en að minnsta kosti ein útgáfa liggur þó eftir þær.

Upphaf sögu Karmelsystra í Hafnarfirði má rekja til ársins 1939 en þá hófst undirbúningur fyrir byggingu klausturs þeirra í Hafnarfirði, og komu þrjár systur hingað til lands frá Hollandi til þess verks.

Þær þurftu hins vegar frá að hverfa þegar styrjöld braust út í Evrópu haustið 1939 og breskir hermenn lögðu undir sig bygginguna sem ætluð var undir starfsemina vorið 1940. Nunnurnar komu hins vegar aftur til landsins eftir lok styrjaldarinnar  (1946) en þá þurfti að byrja á því að koma heimilislausu fólki, sem lagt hafði húsnæðið undir sig, á annan stað. Síðan þá hafa Karmelsystur verið í Hafnarfirði en 1983 fóru þær hollensku til síns heima en pólskar nunnur komu í þeirra stað ári síðar.

Lengi hafa þær Karmelsystur selt ýmsan varning sem þær hafa sjálfar unnið, þar á meðal plötuna Söngvar Karmelsystra: bænir fyrir Ísland, Pólland og heiminn, sem kom út 1994. Sú plata hlaut prýðilega gagnrýni í Morgunblaðinu.

1997 kom svo út snælda með söng þeirra en erfitt er að finna heimildir um þá útgáfu, sem og aðrar hugsanlegar tónlistarafurðir sem kunn að liggja eftir þær Karmelsystur.

Efni á plötum