Dansbandið [1] (1981-)

Dansbandið[1] 1982

Dansbandið 1982

Hljómsveitin Dansbandið (sú fyrsta með þessu nafni) á sér langa og viðburðaríka sögu, sem enn sér líklega ekki fyrir endann á.

Dansbandið var stofnað í Hafnarfirði í upphafi ársins 1981, stofnmeðlimir voru líklegast þeir Sveinn Guðjónsson söngvari og hljómborðsleikari, Kristján Hermannsson trompetleikari og söngvari, Gunnar Ársælsson gítarleikari, Svavar Ellertsson trommuleikari og Ágúst Ragnarsson bassaleikari.

Mannabreytingar voru tíðar í sveitinni, sumarið 1981 var Torfi Ólafsson til dæmis kominn í sveitina, hugsanlega í stað Ágústs og á einhverjum tímapunkti var Gunnar Guðjónsson bróðir Sveins einnig orðinn meðlimur Dansbandsins.

Dansbandið lék framan af mestmegnis í Hafnarfirði en síðar á skemmtistöðum Reykjavíkur. Sveitin var til að mynda fastráðin í Þórscafé, fyrst söng Sólveig Birgisdóttir með henni en síðar Anna Vilhjálms sem gekk til liðs við hana um haustið 1982. Þar lék sveitin undir skemmtanahaldi Þórskabaretts og síðan á dansleik á eftir, þá með Árna Scheving og Þorleifi Gíslasyni saxófónleikara sem aukamenn.

Næsta vetur höfðu orðið þær breytingar á Dansbandinu að Ragnar Sigurjónsson trommuleikari og Vignir Bergmann gítarleikari höfðu bæst í hópinn. Þá lék bandið aftur í Þórscafé ásamt Önnu söngkonu og Þorleifi, Rúnar Georgsson saxófónleikari lék einnig með því um veturinn. All lék sveitin þrjá vetur í Þórscafé.

Á sumrin var dagskráin ekki bundin við Þórscafé og fór Dansbandið sveitaballarúntinn sumarið 1984, ásamt grínhópnum Stjúpsystrum.

Dansbandið[1] 1986

Dansbandið 1986

Vorið 1985 fór Dansbandið hins vegar í sína fyrstu pásu og lék nú ekkert fyrr en í ársbyrjun 1986. Þá voru í sveitinni bræðurnir Sveinn og Gunnar, Gunnar Ársæls, Kristján og nýr trymbill, Halldór Olgeirsson. Þannig starfaði hún til vors  þegar hún hætti störfum, af því er virtist endanlega.

En hljómsveitir hætta ekki, og Dansbandið birtist aftur nokkrum árum síðar (1993) og lék þá mest á heimaslóðum í Hafnarfirði þótt ekki væru allir þáverandi meðlimir sveitarinnar þaðan. Gunnar Þór Jónsson ungur gítarleikari og Páll E. Pálsson bassaleikari voru þá komnir í stað Gunnars Guðjóns og Gunnars Ársæls en Sveinn, Kristján og Halldór voru fulltrúar gamla hópsins.

Erfitt er að finna samfellu í sögu Dansbandsins eftir þetta og svo virðist sem hljómsveitin hafi starfað með hléum allt til þessa dags. Ljóst er að hún starfaði 1997, 2002 og 2004 og einnig síðar þó ekki sé það samfellt. 2014 virðist Dansbandið til dæmis vera tríó Pálmars [?], Kristjáns [?] og Gríms [?]. Það gæti þó verið allt önnur hljómsveit og allar ábendingar varðandi það eru vel þegnar.