Kátir piltar [4] (1983-94)

Kátir piltar [4]

Kátir piltar

Kátir piltar úr Hafnarfirði (hinir síðari) komu fram á sjónarsviðið á níunda áratug síðustu aldar og vakti verulega athygli, sérstaklega fyrir lagið Feitar konur en sveitin var í raun fjöllistahópur einstaklinga sem síðar hefur orðið þekktur í íslensku lista- og menningarlífi.

Kátir piltar eiga uppruna sinn að rekja til Flensborgarskóla í Hafnarfirði en þar voru þeir félagar í námi á fyrri hluta níunda áratugarins. 1983 hefur verið nefnt sem upprunaár sveitarinnar en hópurinn var þá áberandi í félagslífi skólans og e.t.v. ekki alveg með hugann við námið, alltént sumir. Sveitin var þá sett saman í því skyni að skemmta sér og öðrum, og kom fram á einhverjum skólaskemmtunum.

Hópurinn, sem gjarnan hefur gengið undir nafninu Hafnarfjarðarklíkan var líklega mun stærri en hljómsveitin og kom að leiklist og stuttmyndagerð innan skólans en einnig voru þarna hagmælt skáld sem gátu skrifað handrit í formi leikrita og ljóða.

Hljómsveitin starfaði ekki samfleytt á þessum árum fremur en á öðrum tímum og mun hafa verið hálfgerður saumaklúbbur á köflum enda voru þeir félagar að útskrifast smám saman úr skólanum og því ekki samtíða að öllu leyti í náminu. Sveitin var þó líklega starfandi 1986 en um það leyti voru þeir síðustu að útskrifast úr Flensborgarskóla.

Það var síðan vorið 1988 sem hlutirnir fóru að gerast fyrir alvöru en um það leyti fóru Kátir piltar í hljóðver. Hallur Helgason einn af félögunum fór þá á fund þeirra Skífu-manna með hljóðupptökur sem þá höfðu verið gerðar með frumsömdu efni sveitarinnar, og sannfærði Jón Ólafsson í Skífunni að gefa út plötu. Eitthvað mun hafa verið um að aðrir „merkilegri“ tónlistarmenn í bransanum fóru í fýlu enda þótti þeim Kátir piltar ekki merkilegt fyrirbæri og fannst þeir hafa ruðst fram fyrir sig í útgáfuröðinni.

Kátir piltar [4] 1

Við tökur á Hinum ómótstæðilegu

En það varð úr að tólf laga plata var tekin upp og hlaut nafnið Einstæðar mæður. Samhliða því voru tekin upp myndbönd við einhver laganna og reyndar var sett saman stuttmynd einnig (Hinir ómótstæðilegu, sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu) en eins og fyrr sagði voru Kátir piltar jafnmikill fjöllistahópur eins og hljómsveit, og þarna voru meðlimir sem miklu fremur hafa tengingu við kvikmyndir en nokkurn tímann tónlist. Þar má nefna fyrrgreindan Hall Helgason trommuleikara (sem leikið hafði lykilhlutverkið í kvikmyndinni Punktur punktur komma strik og gerðist síðar kvikmyndagerðamaður), og Ásgrím Sverrisson (einnig síðar kvikmyndagerðarmaður). Aðrir Kátir piltar voru Steinn Ármann Magnússon bassaleikari (leikari) og Davíð Þór Jónsson (guðfræðingur o.m.fl.) sem síðar mynduðu Radíus bræður og fleira, bræðurnir Atli Geir Grétarsson aðalsöngvari sveitarinnar og Jakob Bjarnar Grétarsson (fjölmiðlamaður) gítarleikari og Örn Almarsson gítarleikari en fleiri komu einnig við sögu sveitarinnar. Davíð Þór var eins konar hirðskáld sveitarinnar en var ekki hljóðfæraleikari, flestir sungu þeir félagarnir. Auk þeirra Kátra pilta fór Hjörtur Howser mikinn við gerð plötunnar og lék á ýmis hljóðfæri auk þess að annast upptökustjórn, hann var þó aldrei hluti af sveitinni.

Og þarna voru hlutirnir fljótir að gerast sumarið 1988. Sveitin fór á sveitaballarúntinn og fylgdi Einstæðum mæðrum eftir, sveitin lék einnig á tónlistarhluta Listahátíðar, Listapoppi ´88 og var þar á meðal sveita eins og Christians og Blow Monkeys.

Lögin (Are you) bitter (in my garden), Feisaðu fram á við og ekki síst Feitar konur nutu öll vinsælda, síðast nefnda lagið var óhjákvæmilega umdeilt vegna umfjöllunarefnisins en flestum þótti lagið fremur fyndið en að það hneykslaði. Í laginu má heyra eftirtaldar línur: Ég ætlaði ekki að særa þig en þú ert bæði feit og ljót, og síðar í sama texta: Svo gekkstu til mín og spurðir: „Hef ég ekki grennst?“ / „Getur verið en þú ert akfeit fyrir því“.

Kátir piltar [4] 3

Kátir piltar úr Hafnarfirði

Auglýsingaherferð Kátra pilta var ekki síður umdeild en myndbirtingar með þeim þóttu bæði óviðeigandi og smekklausar að matri margra. Platan sjálf hlaut þó ágæta dóma, til dæmis í DV.

Kátir piltar léku eitthvað áfram, voru t.d. á ferðinni aftur sumarið 1989 með lagið 800.000.000 manns (sem kom út á snældu- og geislaplötuútgáfu safnplötunnar Bjartar nætur) en síðan lagðist sveitin aftur í dvala og birtist ekki aftur fyrr en 1992 þegar ný plata leit dagsins ljós. Hjörtur Howser og Sigurður Bjóla unnu þá plötu með sveitinni í Hljóðrita sem var nokkurn veginn skipuð sömu meðlimum og á fyrri plötunni.

Á plötuumslaginu má finna nokkur orð sem varla verða túlkuð öðruvísi en sem kalt háð í garð þeirra sem gagnrýndu sveitina sem mest fyrir feitu konurnar en þar segir: Kátir piltar hamra á því enn og aftur að þegar upp er staðið er það sem skiptir máli að hafa komið göfugmannlega fram og látið gott af sér leiða.

Platan fékk nafnið Blái höfrungurinn og hlaut ekki jafn mikla athygli og frumburðurinn Einstæðar mæður en hún hlaut þokkalega dóma í Vikunni en slakari í Pressunni og DV. Lagið Sætar eru systur heyrðist einna helst í útvarpi.

Eftir þetta heyrðist lítið sem ekkert frá Kátum piltum sem störfuðu þó eitthvað til 1994 en eftir það hefur lítið farið fyrir sveitinni. Hún hefur þó birst reglulega og spilað opinberlega, mest þó í tengslum við stórafmæli meðlima hennar. Þó er hér vert að minnast tveggja skipta sem sveitin hefur komið saman, annars vegar í tengslum við geislaplötuútgáfu þeirra á Einstæðum mæðrum árið 2002 en sú plata hafði einungis komið út á vínyl 1988, þegar geislaplötur voru að ryðja sér til rúms en höfðu ekki hlotið þá almennu útbreiðslu sem síðar varð. Seinna skiptið var á afmælistónleikum sem haldnir voru Herði Torfa söngvaskáldi til heiðurs sextugum haustið 2005 en þar komu Kátir piltar fram og fluttu lagið Kossinn. Lagið og önnur lög tónleikanna komu út á plötu árið eftir.

2006 var eitthvað minnst á samstarf hafnfirsku hljómsveitanna Kátra pilta og Botnleðju í fjölmiðlum undir vinnuheitinu „Kátir í botni“ en svo virðist sem sú hugmynd hafi að engu orðið.

Kátir piltar hafa í raun aldrei hætt þótt hér sé miðað við 1994. Sveitarmeðlimir eru og hafa verið áberandi í hvers kyns verkefnum á tónlistar-, leiklistar- og fjölmiðlasviðinu og eru t.d. King Kong, Radíus-bræður, Limbó og Górillan allt dæmi um afurðir Hafnarfjarðarklíkunnar svokölluðu.

Efni á plötum