Ómar Ragnarsson (1940-)

Ómar í hlutverki sínu í Vesalingunum 1953

Það er óhætt að segja að Ómari (Þorfinni) Ragnarssyni verði ekki gerð skil í stuttu máli, svo víða kemur hann við í íslensku dægur- og menningarlífi. Ómar er kunnur fréttamaður, umhverfisverndarsinni, þáttagerðamaður, laga- og textahöfundur, rallökumaður, tónlistarmaður, flugmaður og sprellari svo nokkur dæmi séu hér nefnd en óneitanlega rís tónlistarferill hans hæst í þessari umfjöllun þótt öðru verði hér vissulega gert einhver skil.

Hversu ótrúlegt sem það hljómar poppar nafn Ómars fyrst upp í fjölmiðlum í leiklistagagnrýni á leikritinu Vesalingunum eftir Victor Hugo sem sýnt var við góðar undirtektir á vegum Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó vorið 1953 en hann var þar í smáhlutverki en hlaut fyrir það frábæra dóma, „besti barnaleikur, sem enn hefur sézt á sviði hér…” segir m.a. Ómar var þá á þrettánda ári en hann er fæddur 1940. Þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem Ómar sté á leiksvið því hann hafði þá þegar eitthvað leikið í skólaleikritum í Laugarnesskóla.

Á unglingsárum var Ómar þegar farinn að semja gamanvísur, hafði gert það þegar hann var í sveit fyrir norðan um tíu ára aldur en þar stytti drengurinn sér stundir með því að semja vísur um kerlingar í sveitinni. Ekki löngu síðar var flutt eftir hann leikrit í barnatíma útvarpsins.

Ómar var kominn í Menntaskólann í Reykjavík þegar hann fór að koma fram fyrir alvöru, hann flutti m.a. efni eftir sjálfan sig í formi ferskeytla á ljóðakvöldi í skólanum, var virkur í leiklistarlífinu og kom fram með frumsamið gamanefni. Sjálfur miðar hann við að hafa komið fyrst fram opinberlega með gamanvísnasöng um áramótin 1958-59 en hann var þá nýútskrifaður stúdent.

Í kjölfar stúdentsprófs fór Ómar að koma reglulegar fram sem skemmtikraftur og var söngur frumsamins gamanefnis einkenni hans, oftar en ekki stjórnmálatengt og með eftirhermuívafi, við undirleik Hafliða Jónssonar. Ómar varð fljótlega afar vinsæll skemmtikraftur og hóf að koma fram á blönduðum skemmtunum, árshátíðum, þorrablótum og jafnvel vor- og héraðsmótum stjórnmálaflokkanna við miklar og góðar undirtektir, og þá skipti engu þótt flokksmenn fengju á baukinn hjá honum en sjálfur var Ómar óflokksbundinn. Ómar var þannig um tvítugt orðinn áberandi í íslenskum fjölmiðlum sem skemmtikraftur, hann hafði einnig birst reglulega á íþróttasíðum blaðanna sem efnilegur hlaupari en hann átti Íslandsmeistaratitla í skemmri hlaupagreinum á þessum árum.

Á forsíðu Fálkans

Það var síðan haustið 1960 sem fyrsta tveggja laga platan leit dagsins ljós með Ómari, það var Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur sem gaf út plötuna Mér er skemmt / Botníuvísur en þau lög höfðu verið partur af skemmtidagskrá hans. Á plötunni lék hljómsveit Jan Morávak undir hjá honum en einnig bregður þeim Jónasi Jónassyni og Gunnari Eyjólfssyni fyrir í hlutverkum félaga sögumannsins í síðarnefnda laginu. Á plötuumslaginu stendur „Mér líður svo vel / Botnía” en þar er augljóslega um villur að ræða, textana samdi Ómar sjálfur eins og alla aðra texta sem hann söng síðar, lagið um Botníu samdi hann einnig sjálfur.

Fleiri útgáfu af lögunum tveimur komu síðar út, m.a. þar sem hann syngur fyrir áhorfendur í Útvarpssal. Lagið naut það mikilla vinsælda að Ómar sendi síðar frá sér annað lag um Botníu undir heitinu Framhald af Botníu, sú upptaka var úr útvarpsþætti Svavars Gests frá 1961 en kom ekki út fyrr en á safnplötum áratugum síðar.

Þar með var útgáfuferillinn hafinn og ekki aftur snúið, það einkenndi Ómar alla tíð var að hafa yfrið nóg að gera og þarna rétt um tvítugt vann hann við múrbrot og fleira, las lögfræði við Háskóla Íslands, samdi grínefni og lagatexta sem hann flutti svo á skemmtunum á kvöldin og um helgar, og var einnig farinn að syngja inn á plötur. Reyndar var hann einnig kominn í sambúð og var að stofna fjölskyldu sem þurfti þak yfir höfuðið þannig að hann var einnig að kaupa íbúð í blokk sem hann var að byggja ásamt fleirum. Ofan á allt annað var hann með bíladellu á háu stigi og rak bíla frá því hann hlaut ökuréttindi en það var ekki endilega sjálfgefið í kringum 1960 að svo ungir menn ættu bíla.

Næsta plata kom út 1961, einnig á vegum Sigríðar Helgadóttur og innihélt hún lögin Ást, ást, ást og Sveitaball en lögin voru flutt við undirleik KK-sextettsins. Fyrrnefnda lagið var tekið upp á skemmtistaðnum Þórscafé og á þeim tíma var upptökutæknin ekki lengra á veg komin en svo að tónlistin var tekin upp „læv“ (öll hljóðfæri og söngur í einu), í flautusólói Gunnars Ormslev þurfti hann því að standa uppi á stól aftan við Ómar því þeir þurftu að nota sama hljóðnemann. Þegar lagið kom út löngu síðar út í annarri útgáfu á styrktarsafnplötunni Maður lifandi (1998) söng Sigrún Hjálmtýsdóttir lagið með Ómari og þá hafði textanum verið breytt lítillega. Önnur útgáfa af laginu Sveitaball við undirleik Hljómsveitar Magnúsar Ingimarssonar, hafði verið gerð í þætti Jónasar Jónassonar í Ríkisútvarpinu, sú gerð lagsins var varðveitt og kom síðar út á safnplötunni Þegar Ómar hafði hár. Þannig áttu sum laga hans eftir að koma út í fleiri en einni útgáfu.

Ómar að skemmta ásamt Markúsi Á. Einarssyni 1958

Enn jókst hróður Ómars og svo fór að hann hafði ekki tíma fyrir lögfræðinám sitt og hætti, hann var umsetinn skemmtikraftur, skemmti margoft í viku hverri og svo fór að lokum að hann sinnti skemmtanabransanum nær eingöngu, hann lék einnig eitthvað í Þjóðleikhúsinu og þess má einnig geta að hann kom við sögu í litlu hlutverki í kvikmyndinni 79 á stöðinni, sem frumsýnd var 1962.

Næsta tveggja laga plata kom út fyrir jólin 1962, hún innihélt lögin Karlagrobb / Ó Vigga en hljómsveit Ólafs Gauks lék undir. Fyrrnefnda lagið hafi upphaflega gengið undir nafninu Elliheimilið en textinn var þá sunginn við lagið Ja fussum svei (úr Kardimommubænum). Karlagrobb varð þess heiðurs aðnjótandi að verða fyrsta lag Ómars sem bannað var í Útvarpinu en textinn þótti af einhverjum ástæðum fara yfir strikið. Fyrir vikið seldist platan enn betur en ella en bæði lögin nutu nokkurra vinsælda. Platan fékk ágæta dóma í tímaritinu Nýjum vikutíðindum.

Vinsældir Ómars jukust, þorrablót, árshátíðir og hvers kyns skemmtanahald skópu stærsta hluta tekna hans og vorið 1963 fór hann í fyrsta skipti utan til að skemmta en Íslendingafélag starfandi í London kostaði hann til þess í tilefni af tuttugu afmælis þess. Um þetta leyti kemur fyrst í ljós áhugi hans fyrir flugi og íslenskri náttúru en hann varð meðal þeirra er fyrst flugu norður að Öskju til að líta eldgos þar augum um haustið 1963. Það var síðan um þremur árum síðar sem hann hóf flugnám.

Það sama haust (1963) kom út fjórða tveggja laga platan úr ranni Ómars en í þetta skiptið var það Fálkinn sem gaf út lögin Limbó-rokk-twist / Ég hef aldrei nóg, bæði eftir Ómar sjálfan. Það var hljómsveit undir stjórn Ólafs Gauks annars vegar og Lúdó sextett hins vegar sem önnuðust undirleik á lögunum sem auðvitað slógu í gegn eins og önnur lög sem hann hafði sent frá sér. Það sama má segja um aðra plötu sem Fálkinn gaf einnig út skömmu síðar, með lögunum Mömmuleikur / Sjö litlar mýs við undirleik hljómsveitar Ólafs Gauks, í síðarnefnda laginu naut hann aðstoðar Önnu Vilhjálms og Berthu Biering en þær höfðu einnig raddað í laginu Ég hef aldrei nóg. Í Sjö litlar mýs söng Ómar í fyrsta sinn inn á plötu með sinni röddu ef svo má segja. Báðar hlutu plöturnar ágæta dóma í Lesbók Morgunblaðsins en það var Svavar Gests sem ritaði þá dóma, hann átti síðar eftir að gefa út fjölmargar plötur með Ómari.

Ómar Ragnarsson 1961

Ómar skemmti áfram grimmt og ýmsir komu við sögu sem aðstoðarmenn hans á sviði, fyrst skiptu þeir á milli sín hlutverkinu Markús Á. Einarsson (síðar veðurfræðingur), Hafliði Jónsson og Magnús Pétursson en síðar var það Grétar Ólafsson sem tók við um tíma áður en Haukur Heiðar Ingólfsson gerðist undirleikari Ómars snemma árs 1965 en þeir áttu eftir að starfa saman til 1973 og aftur frá 1983 en Magnús Ingimarsson gegndi starfinu í millitíðinni, í um áratug. Ómar sagði frá því í blaðaviðtali um þetta leyti að hann hefði skemmt allt upp í átta sinnum á kvöldi. Og þegar jólavertíðin gekk í garð bættust við barnaskemmtanir tengdar jólasveinauppákomum og þar átti hann einnig eftir að hasla sér völl.

Ómar fylgdist vel með þjóðmálunum og nýtti sér óspart eftirhermuhæfileika sína til að herma eftir stjórnmálamönnum en hann var einnig mjög meðvitaður um dægurmálin og á næstu plötu, sem kom út á vegum Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur haustið 1964 var að finna lagið Bítilæði en orðið „bítill / bítlar“ var þá mjög nýlegt og margir hafa tengt það beint við Ómar og kennt það honum. Þessi plata hafði að geyma fjögur lög og fékk mjög góða dóma í Lesbók Morgunblaðsins.

Og nú var komið að Svavars þætti Gests og útgáfufyrirtæki hans, SG-hljómplötum, sem hann var nýbúinn að stofna. Fyrsta platan sem hann gaf út með Ómari var smáskífan Ómar Ragnarsson syngur fjögur ný barnalög sem kom út snemma árs 1965 en öll lögin fjögur slógu í gegn og heyrast enn spiluð enda marg endurútgefin, Ég er að baka, Ligga ligga lá, Sumar og sól og Lok lok og læs. Ómar samdi tvö laganna en alla textana eins og áður. Þess má geta að platan fékk prýðilega dóma í Morgunblaðið en dóminn ritaði reyndar sjálfur – Svavar Gests.

Snemma sumars kom út önnur plata, Fjögur sumarlög og enn voru þar stórsmellir á ferð, Þrjú hjól undir bílnum, Óbyggðaferð, Svona er á síld og Dimm, dimma nótt, sem reyndar fór minnst fyrir en var úr kvikmyndinni Mary Poppins og kom þremur úr síðar út á smáskífu með Þorvaldi Halldórssyni og Helenu Eyjólfsdóttur undir nafninu Sótarasöngurinn.

Plöturnar komu nú út í röðum og tónlistin úr söngleiknum Járnhausnum eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni leit dagsins ljós á lítilli sex laga plötu þar sem þau Ómar, Ragnar Bjarnason og Elly Vilhjálms skiptu með sér söngnum. Á þeirri plötu er m.a. finna lögin Við heimtum aukavinnu og Sjómenn íslenzkir erum við sem þeir Ómar og Ragnar syngja saman en það ku hafa verið í fyrsta en alls ekki síðasta skipti sem þeir áttu eftir að vinna saman.

Reyndar lék Ómar fremur lítið hlutverk í Járnhausnum en síðar þetta sama ár lék hann hins vegar eitt stoðhlutverkanna í barnaleikritinu Ferðinni til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur en það var fyrsta leikritið eftir konu sem sett var á svið í Þjóðleikhúsinu.

Ómar í kunnuglegri stellingu

Fyrir jólin 1965 kom síðan út jólaplatan Krakkar mínir komið þið sæl: Ómar Ragnarsson syngur jólalög fyrir börnin en hún varð fyrsta af þremur jólaplötum Ómars sem allar voru marg endurútgefnar á næstu áratugum. Á plötunni naut Ómar aðstoðar tíu stúlkna úr Langholtsskóla sem sungu með honum jólalögin og má nefna hér að Þuríður Sigurðardóttir var ein þeirra, hún átti eftir að syngja með Ómari síðar meir og reyndar vera partur af Sumargleðinni um tíma. Magnús Ingimarsson útsetti og stjórnaði hljómsveit sem lék á plötunni en upptökurnar fóru fram í Ríkisútvarpinu eins og svo margar á þeim tíma.  Halldór Pétursson myndskreytti plötuumslagið sem og reyndar fleiri umslög með Ómari Ragnarssyni.

Þar með höfðu komið þrjár litlar plötur og ein stór með Ómari á því herrans ári 1965. Það var svo fyrir jólin 1966 að önnur stór plata með honum kom út, Gamanvísur og annað skemmtiefni hljóðritað að viðstöddum áheyrendum, gefin út af SG-hljómplötum að sjálfsögðu. Platan var tekin upp í Útvarpssal og voru áheyrendur hópur nemenda úr Menntaskólanum í Reykjavík annars vegar og Verzlunarskóla Íslands hins vegar, hún var tekin upp á tveim kvöldum. Þetta var fyrsta „live“ platan á Íslandi en öll lögin (sem alls voru þrettán) urðu þekkt í kjölfarið og hafa margsinnis verið endurútgefin í einni eða annarri mynd. Flest þeirra voru erlend að uppruna en Ómar samdi sjálfur sem fyrr alla texta og þrjú laganna.

Sagan segir að lagið Greyið Jón hafi einkum vakið kátínu meðal áhorfenda en svo vildi til að í salnum var par sem bar sömu nöfn og persónurnar í laginu, Jón og Magga, og að þau áttu von á barni eins og segir frá í textanum. Ómar og undirleikari hans, Haukur Heiðar Ingólfsson höfðu enga hugmynd um það. Reyndar hljóp Ómar óvart yfir seinni hluta erindis og skellti sér beint í seinni hluta næsta erindis á eftir án þess að það kæmi að sök, svo vel passaði textinn. Parturinn sem vantar í textann á plötunni fjallaði um þegar greyið Jón ók yfir belju á Bústaðaveginum. Reyndar stóð aldrei til að Greyið Jón kæmi út á plötunni, lagið átti að vera upphitunarlag fyrir skemmtunina en hlaut svo góðar viðtökur að upptakan var notuð á plötunni.

Það er líka gaman að segja frá því að í upphafslagi plötunnar, Kappakstur, gleymdist einnig eitt erindanna í öllum hamaganginum en það hljóðar svo:

Ég keyrði inn í Ísafold og alla leið í gegn
og hélt að þessi voðavegur væri‘ onum um megn
en alltaf var hann á eftir mér upp allan Laugaveg
þótt á hundrað kílómetra hraða hentist ég.

 

Lagið Ökuferðin sem einnig má heyra á plötunni kom löngu síðar út á safnplötunni Þegar Ómar hafði hár, en þar hét lagið reyndar Syrpa um allan fjandann og var töluvert lengri, það var upptaka úr útvarpsþætti Svavars Gests frá árinu 1961.

Platan seldist gríðarlega vel og aflaði SG-hljómplötum mikilla tekna, svo mikilla að platan var gefin út í að minnsta kosti þrjú skipti á næstu árum, alltaf með nýju plötuumslagi.

Vorið 1967 kominn tími á safnplötu, Í þá gömlu góðu daga en á henni var að finna lög sem áður höfðu komið út á litlum plötum og höfðu verið ófáanlegar um tíma. Platan fékk ágæta dóma í Tímanum og var endurútgefin síðar með öðru plötuumslagi.

Ómar í auglýsingaherferð fyrir hægri umferðina 1968

Á þessum tíma var Ómar kominn á kaf í flugnám samhliða skemmtanahaldi svo lítill tími gafst til plötugerðar um tíma. Það var því ekki fyrr en fyrir jólin 1968 sem næsta plata leit dagsins ljós en það var jólaplatan Gáttaþefur á jólaskemmtun með börnunum. Það var önnur jólaplata Ómars en fyrri platan, Krakkar mínir komið þið sæl, hafði notið mikilla vinsælda. Nýja platan var frábrugðin þeirri fyrri að því leytinu að hún var byggð upp sem jólatrésskemmtun, sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Sjálfur var Ómar í hlutverki Gáttaþefs og sá jólasveinn átti eftir að fylgja honum æ síðan. Að þessu sinni var kór telpna úr Álftamýrarskóla honum til aðstoðar auk hljómsveitar sem Magnús Ingimarsson stjórnaði og annaðist aukinheldur útsetningar. Platan hlaut frábæra dóma í Tímanum.

Árið 1969 gekk í garð og á því ári urðu mikil tímamót í lífi Ómars. Hann var tíður gestur í Sjónvarpinu sem hafði tekið til starfa haustið 1966 og einnig alloft komið fram í útvarpinu. Hann var því allvanur að koma fram í ljósvakafjölmiðlum og því lá beinast við að útvarpið leitaði til Ómars þegar Sigurður Sigurðsson íþróttafréttamaður veiktist vorið 1969, og óskaði eftir að hann leysti Sigurð af. Sumir vilja meina að leitað hefði verið til Ómars því hann hefði hermt svo oft eftir Sigurði á skemmtunum sínum ef svo var víst ekki. En þannig hófst íþróttafréttamannsferill Ómars og átti hann eftir að annast íþróttafréttir hjá Ríkisútvarpinu, og síðar starfaði hann við almennar fréttir á fréttastofunni.

Þetta sumar, 1969, var mikið að gera hjá Ómari þótt Sjónvarpið færi í sumarfrí í júlímánuði, hann skemmti víða ásamt Ragnari Bjarnasyni á Hótel Sögu og síðan á héraðsmótum um land allt, og má segja að þarna sé komið upphaf Sumargleðinnar sem þeir Ragnar áttu hlut að í mörg ár síðar meir. Ómar var á þessum tíma kominn með flugmannsréttindi og ferðaðist víða á leiguflugvélum milli skemmtana, hann skemmti t.a.m. um verslunarmannahelgina bæði í Húsafelli og í Vestmannaeyjum.

Með hljómsveit Ragnars Bjarnasonar

Hann gaf sér þó tíma til að senda frá sér tveggja laga plötu, Það gerir ekkert til / Jói útherji, en hluti ágóðans af sölu plötunnar rann til styrktar landsliðinu í knattspyrnu. Lögin voru áströlsk þjóðlög við texta Ómars og nutu eins og allt sem hann gerði á þessum tíma, mikilla vinsælda. Platan hlaut góða dóma í Tímanum og Morgunblaðinu.

Ómar var á þessum tíma orðinn afar afkastamikill og vinsæll textahöfundur, hann samdi sjálfur alla texta sem hann flutti en samdi einnig texta fyrir annað tónlistarfólk, þannig á Ómar fjölmarga þekkta texta og má hér nefna; Lax, lax, lax með Guðmundi Jónssyni, Árið 2012 með Vilhjálmi Vilhjálmssyni, Ertu með með og Sveitapiltsins draumur með Hljómum, Heimilisfriður með Önnu Vilhjálms og Berta Möller, Jólasveinninn minn með Ragnari Bjarnasyni og Elly Vilhjálms, Því ekki? með Lúdó og Stefáni og Hún er svo sæt með Þorvaldi Halldórssyni, svo einungis fáein dæmi séu hér nefnd.

Næsta plata kom út fyrir jólin 1970 og hafði að geyma fjögur barnalög, Minkurinn í hænsnakofanum, Hí á þig, Hláturinn lengir lífið og Bróðir minn. Öll lögin hafa síðar komið út í meðförum annarra tónlistarmanna og eru flestum kunn.

Ómar við myndatöku fyrir umslag jólaplötu

Fyrir jólin 1971 kom þriðja jólaplata Ómars út, Gáttaþefur í glöðum hóp. Hún varð feikilega vinsæl eins og hinar fyrri og hefur margoft verið endurútgefin, til eru þrjár tegundir plötuumslaga hennar – með mismunandi litum. Eins og á plötunni á undan var hópur stúlkna úr Álftamýrarskóla sem aðstoðaði við sönginn en útsetningar og hljómsveitarstjórn var í höndum Jóns Sigurðssonar. Sem fyrr segir var Ómar í hlutverki Gáttaþefs og hann kom fram í því gerfi um árabil (fyrir jólin að sjálfsögðu) eða allt til ársins 1980 þegar hann hætti því að mestu. Gáttaþefur birtist þó aftur síðar.

Frá haustinu 1971 hóf Ómar Ragnarsson að vinna mannlífsþætti í Ríkissjónvarpinu en fyrsti slíki þátturinn var að öllum líkindum frá Látrabjargi, þá var hann farinn að fljúga um allt land til að afla og viða að sér efni fyrir slíka þætti og fréttir en hann vann á fréttastofu Ríkisútvarpsins, samhliða íþróttafréttamennskunni, frá 1972. Það má því segja að útgefnum plötum Ómars hafi fækkað jafnt og þétt eftir því sem honum óx ásmegin sem fjölmiðlamaður, hann var þó áfram áberandi skemmtikraftur og þegar Sumargleðin hóf formlega starfsemi sína 1971 fylgdi hann henni. Þó mátti oft litlu muna þegar hann var á ferð og flugi sem fréttamaður og skemmtikraftur ásamt öðrum verkefnum, að hann næði á milli staða í tæka tíð.

Haustið 1973 kom út tveggja laga platan Úr þorskastríðinu / Landgrunnið allt, sem eins og titlarnir gefa til kynna báru keim af landhelgisdeilu Íslendinga við Breta. Platan hlaut varla nema þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Önnur plata kom hins vegar út snemma vors 1974 undir merkjum Handknattleikssambands Íslands en hún var gefin út til styrktar handboltalandsliðinu sem þá var að fara á HM í Austur-Þýskalandi. Um var að ræða tveggja laga plötu og hafði landsliðið verið kallað saman fyrir upptöku á hópsöng fyrir hana um miðjan janúar. Þetta var í fyrsta skipti sem slíkt var gert hérlendis og samdi Ómar lag og texta sem hlaut titilinn Áfram Ísland en hitt lagið, Lalli varamaður var eftir Gunnar Þórðarson við texta Ómars. Platan finnst einstöku sinnum á nytjamörkuðum enn í dag, en sjaldnast með plötuumslaginu sem var í formi plastpoka með HSÍ logoinu. Hljómsveitin Hljómar lék undir á plötunni, sem hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Fréttamaðurinn Ómar

Og enn bættist í áhugamál Ómars vorið 1975 þegar hann tók þátt í rallakstri ásamt Jóni bróður sínum, rallakstur varð þónokkuð vinsæl bílaíþrótt hérlendis um tíma á áttunda og fram á níunda áratuginn, og urðu þeir bræður sigursælir á þeim vettvangi, hömpuðu t.d. nokkrum Íslandsmeistaratitlum.

Á næstu árum festi Ómar sig í sessi sem fréttamaður og þáttastjórnandi af ýmsu tagi, hann hætti reyndar íþróttafréttamennskunni 1976 en hafði meira en nóg að gera á fréttastofunni og notaði flugvél sem hann hafði þá eignast til að heimsækja afdali og alfaraleiðir um land allt fyrir viðtalsþætti sína. Þar dró hann bæði fram skrautlega og áhugaverða viðmælendur og fagurt landslag Íslands sem margir Íslendingar höfðu í raun aldrei kynnst af eigin raun, má segja að þangað megi rekja upphaf umhverfisverndaráhuga Ómars. Frægt er auðvitað viðtal hans við bóndann Gísla á Uppsölum í Selárdal í Arnarfirði í þáttaröðinni Stiklum sem hann hafði umsjón með, en fáir ef engir þættir Ríkissjónvarpsins hafa vakið jafn mikla athygli og þegar hann var frumsýndur um jólin 1981 en hann þykir enn einstakt sjónvarpsefni, einnig má í þessu samhengi nefna viðtal hans og samband við Reyni Pétur Ingvarsson íbúa á Sólheimum í Grímsnesi sem lét sig ekki muna um að ganga hringinn í kringum landið snemmsumars 1985. Ómar starfaði ekki eingöngu hjá RÚV því hann annaðist einnig um tíma bílaþátt í Vísi.

Vegna mikilla anna var það því ekki fyrr en rétt fyrir jólin 1981 sem næsta plata Ómars kom út en það var tveggja laga smáskífan Fugladansinn / Ég á afmæli en fyrrnefnda lagið hafði þá slegið í gegn víða um Evrópu, Ómar samdi íslenskan texta við lagið sem naut töluverðra vinsælda. SG-hljómplötur sem gáfu plötuna út fóru í samstarf við kjúklingaframleiðandann Ísfugl sem lét prenta leiðbeiningar um fugladansinn og fylgdu þær plötunni, að sjálfsögðu vel merkt fyrirtækinu.

Rallökumaðurinn Ómar Ragnarsson

Um líkt leyti komu út tvær safnplötur á vegum Svavars Gests með Ómari, annars vegar um vorið 1981 þegar Ómar Ragnarsson syngur fyrir börnin kom út en hún hafði að geyma sextán barnalög sem áður höfðu aðallega komið út á smáskífum, hins vegar um haustið þegar jólasafnplatan Skemmtilegustu lög Gáttaþefs kom út, með úrvali fjórtán laga af jólaplötunum þremur. Til eru að minnsta kosti þrjár gerðir af umslagi þeirrar jólasafnplötu.

Og Ómar var reyndar töluvert áberandi á tónlistarsviðinu þetta ár (1981), hann starfaði með Sumargleðinni um sumarið eins og áður, en í þetta skiptið sendi Sumargleðin frá sér plötuna Sumargleðin syngur og þar var Ómar í nokkur stóru hlutverki því hann söng tvö laganna sem bæði fengu góða spilun í útvarpinu, annars vegar titillag plötunnar, Sumargleðin syngur og hins vegar bítlasyrpuna Ó manstu je je je. Reyndar starfaði Sumargleðin allt fram í desember þetta árið svo verkefnin voru ærin, þess má einnig geta að þeir bræður Ómar og Jón kepptu í rallakstri í Svíþjóð rétt fyrir jólin 1981.

Ennfremur sendi Þórhallur Sigurðsson (Laddi) frá sér plötuna Deió sumarið 1981 en á þeirri plötu má m.a. finna lagið Hann er þekktur fyrir sín þrumuskot, sem fjallar einmitt um Ómar Ragnarsson. Síðan þá hafa nokkrir sent frá sér lög sem fjalla um Ómar, m.a. má þar nefna XXX Rottweiler (sem Ómar rappaði eftirminnilega með á tónleikum í Leikhúskjallaranum) og Pollapönkararnir.

Árið 1984 kom út tvöföld safnplata á vegum SG-hljómplatna en um var að ræða eina af síðustu plötunum sem Svavar Gests gaf út. Platan, Ómar Ragnarsson – Fyrstu árin, var í raun endurútgáfa af safnplötunum Gamanvísur og annað skemmtiefni hljóðritað að viðstöddum áheyrendum og Í þá gömlu góðu daga, sem höfðu komið út 1966 og 67. Það sama ár gaf Sumargleðin út sína seinni plötu, Af einskærri sumargleði og á henni söng Ómar tvö vinsæl lög, Við getum rokkað því til (ásamt Þuríðu Sigurðardóttur) og Í þá gömlu góðu daga (ásamt Ragnari Bjarnasyni).

Ómar, Katla María og Graham Smith árita plötur

Níundi og tíundi áratugirnir var hjá Ómari fyrst og fremst helgaður vinnu fyrir sjónvarp, fréttastofan og mannlífsþættir blandaðir íslenskri náttúru voru áberandi og einnig annaðist Ómar spurninga- og skemmtiþætti. Vorið 1988 urðu nokkur þáttaskil á fjölmiðlaferli Ómars en hann gekk þá til liðs við Stöð 2, sem þá hafði starfað í um eitt og hálft ár. Þar gegndi hann sams konar eða svipuðu hlutverki og hjá Ríkissjónvarpinu, og starfaði þar allt til 1995 er hann sneri aftur „heim“ til RÚV. Ómar var ekki alveg hættur íþróttalýsingum því síðar (um aldamótin) átti hann eftir að vekja mikla eftirtekt þegar hann lýsti boxbardögum ásamt Bubba Morthens.

Hann hafði hætt endanlega keppnisralli og í Sumargleðinni 1985 en hann hafði þá fengist við bakmeiðsl um tíma sem rekja mátti til þess hve hann tók starf sitt alvarlega sem skemmtikraftur en hann átti til að fara hamförum í látum á sviðinu. Hlutverk Ómars sem skemmtikraftur breyttist ennfremur nokkuð á þessum tíma, fór að færast meira yfir í veislustjórn.

Á níunda áratugnum komu rokkshowin til sögunnar en þar var fremstur í flokki Ólafur Laufdal með tónlistarshow á Broadway. Ómar kom fram á einhverjum þeirra en var síðan sjálfur með eigin sýningu, Ómar í aldarfjórðug vorið 1984. Gert hafði verið ráð fyrir þremur til fjórum sýningum en þegar upp var staðið urðu sýningarnar hátt á þriðja tug og voru alls um fimmtán til tuttugu þúsund gestir sem sáu hana, fjöldi sýninga var líka settur upp í Sjallanum á Akureyri. Ómar kom einnig fram í Þórskabarett í Þórcafé 1987, Söguspaugi sem var sett á svið í tilefni af þrjátíu ára skemmtanaafmæli hans 1989 og ári síðar ásamt Ladda á sameiginlegri sýningu á Hótel Sögu sem bar yfirskriftina Ómladí ómlada.

Um miðjan níunda áratuginn fannst Ómari sjálfum að þetta færi að verða gott og hann lýsti því yfir í viðtölum að hann myndi hætta að skemmta eftir u.þ.b. fimm ár enda færi þetta að verða gott, það varð þó ekki raunin og hann hélt áfram í fjölmörg ár eftir það.

Ómar og Hemmi Gunn

1993 kom næsta plata Ómars út en hún hafði að mestu leyti að geyma jólalög, platan var fyrsta stóra plata hans í rúmlega tvo áratugi sem ekki var safnplata og komu ýmsir við sögu á henni, þeirra á meðal má nefna Sigurð Johnny en það var aðeins í annað skiptið sem hann söng inn á plötu. Einnig er að finna á þessari plötu lagið Íslenska konan í flutningi Pálma Gunnarssonar en það heyrist reglulega leikið í útvarpi.

Ári síðar eða sumarið 1994 fór óvenjuleg hersing af stað með skemmtidagskrá fyrir börn um land allt undir heitinu Fjörkálfar, en þar voru á ferðinni Ómar, Hermann Gunnarsson, Vilhjálmur Guðjónsson og Pétur Kristjánsson. Þeir félagar fóru hringinn í kringum landið með skemmtun sína og þar var m.a. boðið upp á söngvakeppni fyrir börnin. Samhliða þessu ævintýri kom út sex laga plata undir titlinum Fjörkálfar á ferð um landið á ári fjölskyldunnar en hún innihélt blöndu nýrra og gamalla laga flutt af þeim félögum, m.a. má þar heyra lagið Mér er skemmt, upptöku frá skemmtun á Broadway en hún hafði ekki komið út áður.

1995 var safnplatan Ómar Ragnarsson syngur fyrir börnin endurútgefin og nú í fyrsta skipti á geislaplötu en þessi útgáfa var með þremur aukalögum frá fyrri útgáfu.

Fyrsta alvöru safnplatan á geisladiskaformi leit dagins ljós 1998 þegar Þegar Ómar hafði hár kom út, á þeirri plötu voru tuttugu og fjögur lög frá blómaskeiði Ómars á sjöunda áratugnum og upphafi þess áttunda, þrjú laganna höfðu ekki komið út áður, Framhaldið af Botníu og Syrpa um allan fjandann sem þegar hafa verið nefnd hér að ofan, auk upptöku frá Ríkisútvarpinu frá frumflutningi á laginu Sveitaball. Ómar valdi lögin sjálfur á safnplötuna en Spor gaf út.

Um aldamótin kom síðan út plata með lögum við texta Ómars undir titlinum Árþúsundajól: ellefu áramóta- og jólalög með textum eftir Ómar Ragnarsson. Ýmsir tónlistarmenn og hljómsveitir komu að flutningi tónlistarinnar en platan vakti litla athygli nema fyrir það eitt að innihalda svokölluð áramótalög.

Í kringum aldamótin var sett á svið dagskrá sem hlaut nafnið Óskalög landans og voru nokkrir íslenskir lagahöfundar heiðraðir með slíkum tónleikadagskrá sem Bjargræðistríóið (Anna Sigríður Helgadóttir, Aðalheiður Þorsteinsdóttir og Örn Arnarsson) flutti, Ómar varð einn þeirra en dagskrá tengd lögum hans var flutt vorið 2000.

Fyrir jólin 2003 kom út plata með lögum tengdum sjónvarpsþáttum Ómars frá árunum 1996 til 2000 en flytjendur komu úr ýmsum áttum, mestmegnis þekktir dægurlagasöngvarar. Ómar samdi flest laganna og alla textana utan einn (sem var eftir Gísla á Uppsölum) á plötunni, sem ber heitið Ómar lands og þjóðar: Kóróna landsins. Platan var einnig DVD diskur með myndböndum við lögin en útgáfan fékk fremur neikvæða dóma.

Tólf lag safnplata með lögum Ómars kom út á vegum Íslenskra tóna í útgáfuröðinni Brot af því besta árið 2005 og ári síðar kom út önnur plata undir heitinu Ómar lands og þjóðar, undirtitill hennar var Sumarfrí og var forskriftin að mestu sú sama og á plötunni sem hafði komið út þremur árum áður, flutningurinn í höndum þekktar dægurlagasöngvara en nokkur laganna voru þó gömul úr ranni Ómars sjálfs.

Það var svo árið 2010 sem Sena gaf út veglegan safnplötupakka með lögum Ómars en hún kom út í tilefni af fimmtíu ára starfsafmælis hans, og hét Ómar í hálfa öld: Lög og textar Ómars Ragnarssonar, Ómar ásamt landsliðinu, 50 söngvurum og sönghópum með 30 hljómsveitum. Eins og undirtitillinn hefur til kynna er ekki um eiginlega safnplötu með söng Ómars eingöngu að ræða heldur einnig lög hans og textar sem aðrir hafa flutt en í blaðaviðtali við Ómar sagðist hann hafa samið um tvö þúsund texta, milli fjögur og fimm hundruð þeirra höfðu komið út á plötum. Safnplatan var þreföld, með 72 lögum.

Þetta sama ár heiðruðu félagarnir og fyrrum Stundarinnar okkar – liðarnir Gunnar Helgason og Felix Bergsson barnalagahöfundinn Ómar Ragnarsson með plötunni Ligga ligga lá: Gunni og Felix flytja lög Ómars Ragnarssonar. Sjálfur hélt Ómar upp á hálfrar aldar starfsafmæli sitt  með því að koma fram í Menntaskólanum í Reykjavík og flytja sama prógramm og hann hafði flutt þar fimmtíu árum áður.

Ómar Ragnarsson

Enn ein birtingarmynd kamelljónsins Ómars Ragnarssonar hafði litið dagsins ljós þegar hann byrjaði að skrifa bækur um og upp úr 1990 og á næstu árum og áratugum kom út fjöldi bóka eftir hann í formi viðtalsbóka, skáldsagna, bernskuminninga og unglingabókar svo dæmi séu tekin, þekktust þeirra er þó líklega bókin Kárahnjúkar – með og á móti sem kom út 2004 en hún tekur á málum varðandi Kárahnjúkavirkun sem þá var í brennidepli í íslensku þjóðlífi. Ómar hafði mjög sterkar skoðanir á verndun náttúrunnar en leyfði öllun sjónarmiðum að koma fram í bók sinni og skoðaði málum frá öllum hliðum. Segja má að hann hafi að miklu leyti verið frumkvöðull og í forsvari fyrir umhverfissinna hérlendis og verið ötull talsmaður þeirra en skapað sér einnig óvinsældir og andúð fyrir vikið, og þurft að þola beinar og óbeinar hótanir.

Þegar Ómar varð sjötugur hlaut hann þá viðurkenningu af hálfu hinu opinbera að afmælisdagurinn hans, 16. september var gerður að Degi íslenskrar náttúru fyrir framlag hans til náttúruverndar og almenningsfræðslu. Hann hefur einnig hlotið ýmsar viðurkenningar í gegnum tíðina, flestar tengdar umhverfismálum og fjölmiðlum, s.s. kjörinn maður ársins á Rás 2 tvívegis (2003 og 2006), maður ársins á Stöð 2 og tímaritinu Mannlífi árið 2006, hann hlaut heiðursviðurkenningu fyrir 20 ára starfsafmælið á Stjörnumessu 1979 og kjörinn sjónvarpsmaður ársins á Eddunni 2001 og 2004, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Það þarf varla að taka fram að lög og textar Ómars, hvort heldur sem er í hans flutningi eða annarra, hafa komið út á hundruðum safnplatna í gegnum tíðina. Hér eru aðeins fáeinar safnplötuseríur nefndar: Aftur til fortíðar-serían, Svona er sumarið-serían,  Óskalögin-serían, Svona var það-serían, Stóra bílakassettu-serían, auk ótal stakra safn- og jólaplatna.

Ennfremur hefur Ómar komið fram sem gestur í stökum lögum  á plötum annars tónlistarfólks, Farmalls, Haukur Heiðar Ingólfsson og HLH-flokkurinn eru dæmi um slíkt en einnig syngur hann á plötu sem Bifhjólasamtök lýðveldisins gaf út sínum tíma sem og á stuðningsmannaplötunni Framlögunum. Svo má nefna að Ómar þykir liðtækur blístrari og hefur verið fenginn til að blístra á plötum Valgeirs Guðjónssonar, Eddu Heiðrúnar Backman, Lands og sona og Péturs Kristjánssonar, þekktast þeirra laga er án efa lagið Ekki segja góða nótt með Valgeiri.

Þótt Ómar hafi sjálfur gefið út nokkrar jólaplötur hefur öðru tónlistarfólki þótt sjálfsagt að hann komi við sögu á þeirra plötum, þannig syngur hann á jólaplötunum Jólasveinarnir okkar: allir sem einn, Jól í Latabæ og Í hátíðarskapi en sú síðast talda er sprottin frá rótum Gunnars Þórðarsonar frá árinu 1980 og hefur margoft verið endurútgefin, á henni syngur Ómar Segðu okkur eitthvað sniðugt sem öll jólabörn þekkja.

Eins og sjá má af ofangreindu hefur Ómar Ragnarsson komið vægast sagt víða við á sinni viðburðaríku ævi og það eru engar ýkjur þegar mat er á lagt, að hann sé einn af merkustu og áhrifaríkustu Íslendingum sem uppi hafa verið. Áhrif hans eru víðtæk og myndi duga að nefna þó ekki væri nema framlag hans til umhverfismála með baráttunni gegn virkjanaframkvæmdum og verndun náttúrunnar, þar spilar inn í sjónvarpsþáttagerð hans og fréttamennska tengd náttúru landsins og mannlífi.

Náttúruverndarsinninn Ómar

Þá hefur Ómar ennfremur haft heilmikil áhrif á dægurmenningu Íslendinga, hann hefur sjálfur sagt að hann hafi komið inn í ákveðið tómarúm sem myndast hafði í grínhefðinni hérlendis, revíurnar voru þá á útleið og hann kom inn með nýja tegundir gamanvísna og eftirherma sem komu út á plötum, ólíkt því sem fyrirrennarar hans höfðu haft kost á. Þetta voru aðstæður ekki ólíkar þeim sem Spaugstofan og síðar Fóstbræður (og Limbó) komu inn í síðar, og því virkaði hann ferskur og nýr í fábreyttri og einhæfri skemmtanaflóru Íslendinga.

Ómar mótaði líka að vissu leyti jólahefðina eins og við þekkjum hana í dag, kannski ásamt Jóhannesi úr Kötlum sem hafði neglt jólasveinana niður í þrettán með margfrægu kvæði sínu, en Ómar hjálpaði þar til með jólaplötum sínum þar sem Gáttaþefur var í aðal hlutverki. Þær mynduðu ennfremur heild sem römmuð var inn með heimsókn jólasveinsins og þar komu jólalagasyrpur einnig við sögu, en margar slíkar plötur hafa síðan komið út með sama uppleggi hér á landi.

Auðvitað á Svavar Gests einnig stóran þátt í þessari mótun hefða (með því að gefa efnið út) en Ómar var aukinheldur frumkvöðull að vissu leyti í útgáfu og flutningi á barnatónlist, fram að þeim tíma höfðu komið út nokkur lög fyrir börn (flutt af Ingibjörg Þorbergs og Soffíu og Önnu Siggu) en Ómar ruddi brautina fyrir tónlist fyrir börn og kom henni í ákveðinn farveg, og í dag er tónlist fyrir börn viðurkennd og sjálfsögð tegund tónlistar.

Sem laga- og textahöfundur liggja sem fyrr segir mikill fjöldi, einkum texta – nafn Ómars hefur þannig einnig í nokkur skipti poppað upp meðal laga sem keppt hafa í undankeppnum Eurovision keppninnar og Landslagskeppninni sem haldin var í nokkur skipti hér fyrir fáeinum áratugum en textar Ómars eru líklega mun útbreiddari en fólki grunar, og margar af þekktustu dægurlagaperlum tuttugustu aldarinnar skarta textum hans.

Hér verður ekki hjá því komist í niðurlagi að nefna einnig áhrif Ómars á íslenska tungu og málvitund Íslendinga en hann hefur alltaf talað fyrir mikilvægi íslenskrar tungu, í því samhengi má nefna eins og segir hér að ofan að hugtakið bítlar og bítlatónlist hefur verið rakið til hans en hann söng m.a. um bítilæði á plötu sem hafði verið tekin upp í upphafi árs 1964. Og í framhaldi sakar ekki að geta annarra bítlatenginga Ómars en hann er mikill aðdáandi The Beatles, sem hér er vísað til. Lögin Karlarnir heyrnarlausu (Twist and shout), Ó manstu je je je og Gamli kagginn (Yellow submarine) eru bítlalög og sýningin Ómladí ómlada er ennfremur skírskotun til bítlalagsins Obladi-oblada.

Ómar hefur allt sitt líf verið önnum kafinn maður og afkastamikill og er því með ólíkindum að hann hefur alla tíð verið mikill fjölskyldumaður og er sjö barna faðir sem sum hver hafa fetað fjölmiðlaveginn, þannig hafa þrjú þeirra, Þorfinnur, Lára og Alma öll starfað við fjölmiðla en minna hefur farið fyrir tónlistarhlið þeirra, Ragnar sonur Ómar lék þó á trommur í hljómsveitum hér áður.

Af framangreindu má sjá hversu víðtæk áhrif Ómar Ragnarsson hefur haft á íslenska tónlistarsögu og samfélag, fjöldi útgefinna plata beintengdar Ómari bera þess einnig vitni en eftir hann liggja fjórtán smáskífur og átján breiðskífur hafa komið út með honum, þá eru óupptalin útgefnir þættir hans úr sjónvarpi.

Efni á plötum