Óskalög sjúklinga [annað] (1951-87)

Löng hefð var fyrir óskalagaþáttum í Ríkisútvarpinu hér á árum áður og var einn þeirra kallaður Óskalög sjúklinga en í þeim þætti voru lesnar kveðjur fyrir og frá sjúklingum, og óskalög þeirra leikin í kjölfarið. Meirihluti óskalaganna sem spiluð voru í þættinum, var íslenskur.

Þátturinn fór fyrst í loftið haustið 1951 og annaðist Björn R. Einarsson tónlistarmaður dagskrárgerðina en hann var sendur út á mánudögum eftir hádegið. Fjölmargir aðrir sáu um þáttinn eftir Björn og má m.a. nefna Ingibjörgu Þorbergs, Kristínu Sveinbjörnsdóttur, Ásu Finnsdóttur, Bryndísi Sigurjónsdóttur, Lóu Guðjónsdóttur og Helgu Þ. Stephensen.

Óskalög sjúklinga voru fljótlega færð yfir á laugardagsmorgna og var þátturinn á þeim tíma þar til yfir lauk haustið 1987 en hann hafði þá verið á dagskrá útvarpsins í hátt á fjórða áratug.

Ekki voru allir á eitt sáttir þegar útvarpsráð ákvað að Óskalög sjúklinga yrðu lögð niður og fjölmörg lesendabréf birtust í dagblöðum þess tíma enda hafði þátturinn notið gríðarlegra vinsælda.

Löngu síðar var rappþáttur á Rás 2 undir sama nafni en hann varð hvergi nærri jafn langlífur.