Sólskinsdeildin (1938-46 / 1951-52)

Sólskinsdeildin

Barnakórinn Sólskinsdeildin er langt frá því að teljast fyrsti barnakór sem starfaði á Íslandi en hann var klárlega sá fyrsti sem eitthvað kvað að, en hann varð landsfrægur og söng marg oft í barnatíma Útvarpsins auk þess sem hann fór í söngferðalög um land allt við fádæma vinsældir.

Það var Guðjón Bjarnason sem setti kórinn á stofn í byrjun árs 1938 og stjórnaði honum alla tíð, Guðjón var múrari að mennt og var ekki tónlistarmenntaður en hafði áhuga á tónlist og samdi t.d. nokkur þekkt barnalög. Hann sinnti þessu hlutverki sínu af miklum áhuga og smitaði honum út frá sér svo úr varð öflugur barnakór. Sólskinsdeildin var fyrst og fremst stofnuð til að syngja fyrir sjúklinga á sjúkrahúsum höfuðborgarsvæðisins og mun hafa sungið á vel á annað hundrað slíkum uppákomum á þeim átta árum sem kórinn starfaði. Fljótlega söng hann einnig í Útvarpinu og kom reyndar oft fram í barnatíma Útvarpsins, og svo á skemmtunum tengdum sumardeginum fyrsta og barnadeginum svokallaða, fyrir eldri borgara og slíkt.

Það var svo sumarið 1941 sem Sólskinsdeildin fór í sitt fyrsta söngferðalag en þá var sungið víða um Suðurlandið. Ferðin þótti heppnast býsna vel því alls staðar var fullt hús og svo fór að sumarið eftir var farið í þriggja vikna langt tónleikaferðalag um norðan- og austanvert landið þar sem kórinn söng sautján sinnum á þrettán stöðum. Næsta sumar, 1943 var farið í söngferð til Vestmannaeyja og það sama sumar hélt Sólskinsdeildin sína fyrstu sjálfstæðu og opinberu tónleika í Reykjavík (Nýja bíói) – í tilefni af fimm ára afmæli kórsins. Sumarið 1944 var komið að Vesturlandi og Ströndum, 1945 aftur um Norður- og Austurland með meiri áherslu þó á austurhlutann að þessu sinni og sumarið 1946 var komið að Vestfjörðum en það var síðasta árið sem Sólskinsdeildin starfaði – að sinni.

Sólskinsdeildin 1945

Sólskinsdeildin varð afar vinsæll kór en hann skipuðu yfirleitt börn á aldrinum 8-16 ára, að langmestu leyti stúlkur en fáeinir drengir framan af, undir lokin var hann einvörðungu skipaður stúlkum. Nokkrar síðar þekktar söngkonur stigu sín fyrstu spor í Sólskinsdeildinni og þeirra á meðal má nefna Ingibjörgu Þorbergs, Ingveldi Hjaltested, Guðrúnu Jacobsen, Lýdíu Guðjónsdóttur og Svölu Nielsen sem áttu eftir að hasla sér völl bæði á dægurlaga- og klassíska sviðinu. Yfirleitt voru um þrjátíu börn í Sólskinsdeildinni en sá fjöldi fór líklega hæst nálægt fjörutíu, eins konar þak hafði verið sett á fjölda meðlima hans og eitt sinn þegar auglýst var eftir þremur söngröddum í kórinn mættu sextíu og átta stúlkur í prufu, slík var ásóknin í hann. Á tónleikum Sólskinsdeildarinnar var mest líklega sungið einraddað en eitthvað var einnig um að litlir hópar innan kórsins kæmu fram s.s. kvartettar og slíkt, og þá voru fjölmargir sem fengu að spreyta sig við einsöng á tónleikum kórsins. Meðlimir hans komu víðs vegar af höfuðborgarsvæðinu en einnig voru nokkrar stúlkur úr Hafnarfirði í honum og m.a.s. voru um tíma tvær systur ofan af Vatnsenda sem þá var taldist vera töluverða vegalengd frá Reykjavík.

Sólskinsdeildin naut engra styrkja og allt starf í kringum kórinn var unnið í sjálfboðavinnu, þegar hann hafði starfað um hríð var stofnaður sjóður til að kaupa hljóðfæri en sá háttur var hafður á að þeir sem höfðu verið þrjú ár í kórnum fengu að gjöf strengjahljóðfæri og lærðu á það, því bættist gítarsláttur smám saman við kórsönginn og sáu börnin sjálf um hann.

Sem fyrr segir hætti kórinn störfum eftir ferðina um Vestfirði sumarið 1946 en síðar voru gerðar tilraunir til að endurvekja hann, árið 1948 var t.a.m. auglýst eftir röddum í kórinn en það gekk líklega ekki eftir, þremur árum síðar (1951) var það aftur gert og um veturinn 1951-52 æfði hann á nýjan leik undir stjórn Guðjóns og kom svo fram á tónleikum vorið 1952 en að þeim loknum hætti kórinn aftur störfum þrátt fyrir að auglýst væri eftir börnum í hann um haustið. Þá var líklega ekki áhugi til staðar lengur hjá æsku landsins og þannig lauk sögu Sólskinsdeildarinnar.