Trómet blásarasveitin (1979-85)

Trómet blásarasveitin

Trómet blásarasveitin var skipuð ungum hljóðfæraleikurum, starfaði um og upp úr 1980 og vakti heilmikla athygli.

Sveitin var stofnuð haustið 1979 og starfaði allt til vorsins 1985, alla tíð undir stjórn Þóris Þórissonar. Á þeim tíma hélt hún fjölda tónleika bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og á landsbyggðinni og vakti athygli fyrir framlag sitt, tónskáld eins og Jónas Tómasson og Áskell Másson sömdu tónverk sérstaklega fyrir hópinn, sem hann flutti á tónleikum. Til stóð að verk Jónasar, Trómetasinfóní yrði hljóðritað og gefið út á hljómplötu, og fékk Trómet m.a. styrk frá menntamálaráði til þess, en úr þeirri útgáfu varð þó aldrei. Það hefur þó oftsinnis verið flutt í útvarpi ásamt verki Áskels. Verkefnaval sveitarinnar kom þó úr ýmsum áttum, bæði erlendis frá og innanlands.

Trómet árið 1984

Trómet var ekki eiginleg lúðrasveit heldur tólf manna kammer blásarasveit, skipuð í upphafi tónlistarfólki úr tónlistardeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti og gekk því einnig undir nafninu Blásarasveit Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Fljótlega var ljóst að ekki yrði hægt að manna sveitina einvörðungu úr nemum úr þeim skóla og fljótlega bættust hljóðfæraleikarar úr öðrum framhaldsskólum í hópinn, þá fékk Trómet undirtitilinn „blásarasveit framhaldsskólanna“.

Nokkrir kunnir hljóðfæraleikarar stigu sín fyrstu skref í Trómet og m.a. nefna þá Brján Ingason fagottleikara og Birgi Baldursson slagverksleikara í því samhengi.