Trúbrot [1] (1969-73)

Trúbrot

Hljómsveitin Trúbrot er án nokkurs vafa ein allra þekktasta og áhrifamesta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu, hún var aukinheldur fyrsta alvöru súpergrúppa Íslands í anda Blind faith, Bad company, ASIA o.fl. og skildi eftir sig fjölda platna og laga sem sömuleiðis teljast með þeim merkustu hér á landi, platan …lifun hefur t.a.m. oftsinnis skipað sér meðal efstu sæta í hvers konar uppgjörum á íslenskri tónlist í gegnum tíðina.

Trúbrot var sem fyrr segir súpergrúppa og átti stofnun hennar sér nokkurn aðdraganda. Hljómar frá Keflavík hafði um nokkurra ára skeið verið lang vinsælasta hljómsveit landsins og fremst í flokki bítlasveita, þeir félagar höfðu m.a. reynt fyrir sér erlendis (1965-68) undir nafninu Thor‘s hammer með litlum árangri og höfðu aftur tekið upp Hljómanafnið, endurheimt fyrri vinsældir og gefið út plötuna Hljómar II árið 1968 (og aðra breiðskífu áður sem og nokkrar smáskífur). Aðalsprautur sveitarinnar, Gunnar Þórðarson gítarleikari og aðal lagahöfundur hennar og Rúnar Júlíusson bassaleikari vildu takast á við stærri áskoranir og á vormánuðum 1969 kom upp sú hugmynd meðal þeirra tveggja og Karls J. Sighvatssonar orgelleikara og Gunnars Jökuls Hákonarsonar trommuleikara og aðalmanna hljómsveitarinnar Flowers, sem þá höfðu nýverið gefið út fjögurra laga smáskífu og slegið í gegn með lögum eins og Slappaðu af og Glugginn, að stofna nýja sveit upp úr sveitunum tveimur.

Það varð úr að sveitin var stofnuð formlega í maí-mánuði 1969 og að auki fengu þeir til liðs við sig söngkonu Hljóma, Shady Owens, Erlingur Björnsson gítarleikari úr Hljómum var hins vegar ráðinn sem umboðsmaður sveitarinnar. Blásið var í lúðra og var Trúbrot kynnt með látum og biðu flestir spenntir eftir að heyra í hinni nýju sveit en þó voru margir sem tóku afstöðu með þeim meðlimum úr hljómsveitunum tveimur sem voru hunsaðir, þ.e. þeim sem fengu ekki pláss í súpergrúppunni. Svo fór reyndar að önnur sveit var stofnuð upp úr „leifunum“, hún hlaut nafnið Ævintýri og naut reyndar lengst af mikilla vinsælda einnig en það er önnur saga.

Fyrsta útgáfa sveitarinnar

Þegar finna þurfti viðeigandi nafn á hljómsveitina kom ungur blaðamaður á Morgunblaðinu, Árni Johnsen til skjalanna með uppástunguna Trúbrot, sem var þegar samþykkt enda hæfilega dulúðlegt og viðeigandi á þeim hippatímum sem þá voru uppi.

Hin nýja sveit, Trúbrot hóf æfingar og í byrjun júlí 1969 kom sveitin í fyrsta skipti fram opinberlega í Sigtúni við Austurvöll (síðar NASA) en þess hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu og var mikið fjölmenni mætt til að líta hina nýju sveit augum. Ekki þótti sveitin neitt sérstaklega frambærileg það kvöldið og ekki fengu landsmenn að njóta tónlistar hennar lengi því strax að þessari samkomu lokinni flaug Trúbrot til New York í Bandaríkjunum til að leika á nokkrum tónleikum, síðar að sögn fjölmiðla hérlendis við góðan orðstír, undir nafninu Midnight sun.

Þau Trúbrotsfólk komu aftur heim til Íslands fyrir verslunarmannahelgina en þá helgi lék sveitin á stórri útihátíð í Húsafelli í miklu fjölmenni og þótti nú strax mun betri. Í framhaldi af því spilaði hún heilmikið síðsumars og var þá gerður sjónvarpsþáttur um hana sem sýndur var um haustið. Þá lék sveitin m.a. fyrir hermenn á Keflavíkurflugvelli en fór þar í stutt bann eftir að hafa leikið lagið Give peace a change í tuttugu mínútna útgáfu þar sem hermennirnir sungu hástöfum með friðarboðskapnum.

Í október hleypti Trúbrot aftur heimdraganum og hélt nú til plötuupptöku í Trident studios í London. Tólf lög voru tekin upp í Bretlandi og ellefu þeirra rötuðu á plötuna sem hlaut nafn sveitarinnar og kom út fyrir jólin 1969. Um helmingur laganna á plötunni var eftir Gunnar Þórðarson en afgangurinn var erlendis frá. Þorsteinn Eggertsson samdi hins vegar flesta textana og Rúnar Júlíusson átti einn þeirra.

Trúbrot kynna fyrstu plötu sína

Sveitin átti enn einu sinni eftir að fara erlendis til spilamennsku fyrir jólin en þá lék sveitin á fullveldishátíð Íslendinga í Kaupmannahöfn. Trúbrot hafði því lítið leikið opinberlega hér heima enda á kafi í upptökum og öðrum verkefnum, e.t.v. var það þess vegna sem sveitin tapaði í vinsældakosningu fyrir Ævintýri um haustið en sú sveit hafði verið stofnuð úr „afgangsmönnunum“ þegar Trúbrot var stofnuð, sem fyrr segir. Málið vakti í það minnsta mikla athygli.

Um það leyti og þegar platan var að koma út birtust fréttir í fjölmiðlum um að meðlimir sveitarinnar (utan Gunnars Jökuls) hefðu verið gripnir með lítilræði af hassi en slík fíkniefnaneysla meðal ungs fólks var þá nýkomin til sögunnar og ekki var búið að smíða lagaramma utan um varðveislu eða neyslu slíkra efna. Málið vakti mikla athygli og þótti meðlimum sveitarinnar með ólíkindum að þeir skyldu nafngreindir enda ekki ljóst hvort þau hefðu gerst brotleg við lög, slík lög voru síðan sett 1972. Í kjölfarið fór sveitin í spilabann á nokkrum stöðum, m.a. í Tónabæ og Stapanum í Keflavík en að öðru leyti hafði málið lítil áhrif önnur en neikvæða athygli um nokkurra vikna skeið.

Annað umdeilt mál kom upp í kringum Trúbrot um þetta leyti, á plötunni var að finna lag sem bar heitið Elskaðu náungann og var byggt á Pílagrímakórnum úr Tannhauser eftir Richard Wagner. Ríkisútvarpinu þótti ekki tilhlýðilegt að popphljómsveit tæki klassískt verk í sínar hendur og gerði að sínu, og bannaði allan flutning sveitarinnar á laginu með því að rispa plötuna þar sem lagið var. Hljómsveitin Ævintýri var að gera svipaðar tilraunir með sama lag (undir heitinu Frelsarinn) á tveggja laga plötu sem hún var að gefa út um sama leyti, og lenti í því sama að lagið var bannað.

Annað lag af plötunni var reyndar einnig bannað, það var lagið Afgangar en í því var að finna málvilluna „kallinn, hann átti eina kýr“, sem forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins hugnaðist ekki.

Trúbrot 1969

Platan, sem Fálkinn gaf út undir Parlophone merkinu seldist mjög vel, í um þrjú þúsund eintökum og var valin plata ársins af Morgunblaðinu og Tímanum. Hún hlaut ennfremur mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Tímanum, og frábæra dóma í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar.

Þessi fyrsta plata Trúbrots var lengi ófáanleg, hún seldist upp á sínum tíma og var ekki endurútgefin fyrr en Steinar gaf hana út á geislaplötu árið 1992, í þeirri endurútgáfu var einnig að finna tólfta lagið (Breyttu bara sjálfum þér) sem hafði ekki verið valið á plötuna á sínum tíma en ennfremur var þar að finna fimm lög sem síðar komu út á smáskífum (1970). Sú útgáfa hafði því að geyma sautján lög sem og flestar endurútgáfur eftir það. Platan hefur m.a. verið gefin út í Suður Kóreu (með enskum lagatitlum að mestu) og í Þýskalandi (þarlendis bæði á vínyl og geislplötu) en einnig hefur verið í umferð ólögleg útgáfa í Evrópu undir merkjum Walhalla.

Trúbrot fylgdi plötunni nokkuð eftir og festi sig nú betur í sessi með þéttari spilamennsku, m.a. lék sveitin á þjóðlagahátíð í upphafi árs 1970 þar sem helst bar til tíðinda að Árni Johnsen söng Bad moon rising með sveitinni.

Sveitin fór enn utan um vorið en þá var haldið til Danmerkur til að spila (undir nafninu Breach of faith) á þarlendum dansstöðum í Kaupmannahöfn og einnig til að taka upp nýtt efni en sveitin dvaldi ytra í þrjár vikur, fimm lög voru hljóðrituð í Metronome hljóðverinu og voru þau öll eftir Gunnar Þórðarson. Í þessum lögum, sem ráðgert var að kæmu út á tveimur smáskífum var þegar farið að gæta breytinga í tónlist sveitarinnar, tvö þeirra voru á ensku og tónlistin á breiðskífunni sem hafði verið nokkuð í ætt við þá sem Hljómar höfðu verið að gera hafði þarna þróast yfir í meira hipparokk og átti síðar eftir að verða nokkuð þyngri og tormeltari.

Kvintettinn Trúbrot

Um þetta leyti kvisaðist út sá orðrómur að Shady söngkona væri að yfirgefa Trúbrot og hygðist flytja til Bandaríkjanna en hún var hálfur Ameríkani og hafði komið til Íslands á unglingsárum sínum. Söngkonan bar þessar sögusagnir að einhverju leyti til baka, sagðist myndu syngja með sveitinni eitthvað áfram en myndi líklega fara utan um sumarið. Fleiri sögusagnir rötuðu í blöðin sem reyndist nokkur fótur fyrir, annars vegar að Gunnar Jökull trommari væri að hætta í sveitinni sem og Karl orgelleikari en sá síðarnefndi hygðist fara í tónlistarnám.

Það fór því svo að Karl og Shady hættu um mitt sumar 1970 í Trúbrot en áður en til þess kom skuldbatt sveitin sig til að flytja tónverk eftir tónskáldið Leif Þórarinsson á Listahátíð í Reykjavík ásamt blásarasveit Tónlistarskólans í Reykjavík undir stjórn tónskáldsins. Verkið bar heitið Brot-trú-brot en af flutningi þess varð þó aldrei þar sem Leifur veiktist skömmu fyrir tónleikana.

Þeir Trúbrots-félagar reyndu eins og þeir gátu til að fá Björgvin Halldórsson söngvara Ævintýris til liðs við sig í stað Shadyar en án árangurs, hins vegar var Magnús Kjartansson orgelleikari fenginn í sveitina í stað Karls en hann hafði þá getið sér gott orð í sveitum eins og Júdas. Vegna þessa fór Trúbrot í stutta pásu um sumarið meðan verið var að æfa Magnús inn í sveitina en fyrst afrekaði sveitin að leika í Glaumbæ þar sem m.a. meðlimir bresku hljómsveitarinnar Led Zeppelin fylgdust með þeim félögum en sú sveit var þá stödd hérlendis við tónleikahald.

Á meðan sveitin var í pásunni kom fyrri smáskífan af skífunum tveimur út á vegum Fálkans, hún hafði að geyma lögin Ég sé það og Ég veit að þú kemur (sem í raun hefði átt að vera Ég vil að þú komir), lögin hlutu ágætar viðtökur og sérstaklega þó síðarnefnda lagið en það nýtur ennþá töluverðar hylli. Platan fékk aukinheldur góða dóma í Vikunni, Morgunblaðinu og Tímanum.

Þrátt fyrir að Gunnar Jökull hætti ekki í sveitinni um vorið eins og sögusagnirnar kváðu um var ljóst að hann væri ekki ánægður í sveitinni, honum fannst metnaðurinn orðinn minni og sveitin vera að festast í balltónlist sem gjarnan gekk undir nafninu „brennivínstónlist“ á þeim tíma. Þetta endaði með ósætti við aðra meðlimi sveitarinnar, einkum Gunnar Þórðar og svo fór að hann gekk úr Trúbrot í byrjun ágúst, sjálfur sagðist hann hafa verið rekinn úr sveitinni en aðrir meðlimir hennar vildu ekki kannast við það.

Kvartettinn Trúbrot

Heilmiklar breytingar urðu því á skipan sveitarinnar þarna um það leyti sem hún átti árs afmæli, Shady, Karl og Gunnar Jökull voru hætt en í stað þeirra komu Magnús Kjartansson sem fyrr segir og trommuleikarinn Ólafur Garðarsson (Óðmenn, Tilvera o.fl.). Reyndar höfðu Magnús Magnússon (Dátar, Tatarar o.fl.) og Ari Jónsson (Roof tops) skamma viðdvöl í sveitinni áður en Ólafur gekk í hana um haustið, Ari lék m.a. með sveitinni í sjónvarpsþætti í september. Við allar þessar mannabreytingar var Trúbrot orðin að kvartett.

Um miðjan október kom síðari smáskífan út en hún hafði m.a. að geyma stórsmellinn Starlight, tvö laganna voru á ensku (Starlight og A little song of love) en hið þriðja (Hr. hvít skyrta og bindi) á íslensku. Þessi plata fékk ágæta dóma í Vikunni og sæmilega í Morgunblaðinu en sú stefnubreyting að gefa út lög á ensku var afar umdeild á Íslandi á þessum tíma. Öll lög sveitarinnar upp frá þessu voru þó á ensku.

Hlutirnir gerðust hratt og Ólafur fékk ekki langan tíma til að aðlagast því Trúbrot hélt fljótlega aftur til Danmerkur til að taka upp plötu sem síðan fékk titilinn Undir áhrifum en tvíræðnin sem fólst í honum var án nokkurs vafa skot á þá sem mest höfðu sig frammi í gagnrýninni á þá félaga í „stóra hassmálinu“.

Forsíða Vikunnar

Trúbrot dvaldist í Danmörku í um mánaðartíma, tók upp átta laga plötu í Vifoss hljóðverinu en spilaði einnig á nokkrum tónleikum ytra. Tónlistin þyngdist töluvert frá því sem áður var og þótt Rúnar væri þarna orðinn aðal söngvari sveitarinnar sungu þeir Magnús og Gunnar einnig heilmikið, ennfremur var mikið lagt upp úr röddun og hafa margir líkt Trúbrot við Crosby, Stills, Nash & Young á þessu tímaskeiði.

Þegar sveitin kom aftur heim til Íslands spurðist út að hún myndi taka þátt í uppfærslu Þjóðleikhússins á leikritinu Fást (Faust) eftir Goethe sem frumsýnt yrði annan dag jóla undir leikstjórn Þjóðverjans Karls Vibach.

Platan Undir áhrifum kom út rétt fyrir jólin 1970 á vegum Fálkans eins og fyrri plötur sveitarinnar og var auglýst réttilega sem fyrsta íslenska breiðskífan með frumsömdu efni eingöngu – reyndar á ensku (utan eitt lag), Gunnar og Magnús sömdu lögin að mestu en aðrir meðlimir sveitarinnar komu einnig að því. Platan féll hún nokkuð í skuggann af tvöfaldri plötu Óðmanna sem einnig kom út fyrir jólin og má að einhverju leyti kenna því hversu seint Trúbrotsplatan barst til landsins, allavega naut hún ekki sömu velgengni og fyrsta breiðskífan. Dómar um hana voru nokkuð misjafnir, þannig fékk platan sæmilega dóma í Vikunni, ágæta í Vísi en frábæra í Morgunblaðinu, þokkalega einnig í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar.

Ekkert laganna á Undir áhrifum, nema e.t.v. Relax, naut mikilla vinsælda enda þótt platan nokkuð sterk sem heild en hún þótti sérstæð að því leyti að B-hliðin hafði aðeins að geyma tvö lög, hið fyrra var tíu og hálf mínúta en síðara lagið sjö og hálf, sem var svosem í anda þess tíma. Trúbrot var þó kjörin hljómsveit ársins í uppgjöri fjölmiðla, og Rúnar Júlíusson poppstjarna ársins en það mátti að einhverju leyti þakka smáskífunum tveimur. Eins og fyrsta breiðskífan seldist platan fljótlega upp og varð ekki aðgengileg aftur fyrr en hún var gefin út á geislaplötu 1992, hún hefur á síðari árum verið gefin einnig út í Suður-Kóreu og Þýskalandi að minnsta kosti.

Meðlimir Trúbrots, einkum Gunnar Þórðar, voru ekki alls kostar ánægðir með sveitina, fannst einhvern neista vanta og jafnvel stóð til að leggja hana niður, Gunnar hafði jafnvel hug á að ganga til liðs við hljómsveitina Ævintýri en hann var þá að starfa með Björgvini Halldórssyni sem var að vinna að sinni fyrstu sólóplötu. Áður en til þess kæmi að Trúbrot hætti birtust gamlir félagar aftur og vildu ganga í sveitina á nýjan leik, Gunnar Jökull og Karl Sighvatsson. Það varð því úr að Ólafur trommari var látinn hætta og tók Jökullinn hans sæti, Karl varð hrein viðbót við sveitina sem orgelleikari en Magnús færði sig meira yfir á píanó. Þetta breytti öllu innan hópsins og nýr drifkraftur og sköpunargleði réði nú ríkjum. Samhliða þessum breytingum hætti Erlingur Björnsson sem umboðsmaður Trúbrots og tók Björn G. Björnsson sæti hans en Erlingur hafði sett sig upp á móti yfirvofandi mannabreytingum.

Á tónleikum 1971

Í framhaldi af þessu lagðist sveitin í stífa sköpunarvinnu og æfingar í bakhúsi við Laugaveg og hóf þar að vinna að sínu stærsta verki sem hugsað var sem heild, það fjallaði um persónu sem fylgt er frá vöggu til grafar og fékk síðan titilinn …lifun, meðlimir sveitarinnar voru allir höfundar að verkinu en Jökullinn mun hafa komið með grunnhugmyndina að því. Um nokkurra vikna skeið kom Trúbrot ekkert fram opinberlega utan sýninga á Fást í Þjóðleikhúsinu sem frumsýnt hafði verið milli jóla og nýárs og voru tvær sýningar á viku.

Það var svo 13. mars 1971 sem kom að því að …lifun yrði frumflutt en beðið hafði verið eftir þeirri stund með eftirvæntingu, það var gert á tónleikum í Háskólabíói fyrir troðfullu húsi og strax í kjölfarið var ráðgert að fara til London til að festa verkið á plast. Á tónleikunum birtist Shady Owens sem heiðursgestur en hún kom gagngert til Íslands til að taka þátt í tónleikunum en fyrri hluta þeirra helgaði sveitin eldra efni.

Trúbrot fór síðan til London og var platan tekin upp í Morgan studios og Sound Techniques af Gerry Boys en hljómsveitin Tilvera hljóp í skarðið fyrir sveitina í Þjóðleikhúsinu. …lifun var upphaflega um fjörutíu mínútur að lengd og var í þeirri lengd við frumflutninginn en verkið var síðan skorið niður um tíu mínútur fyrir plötuupptökuna þar sem það myndi annars koma niður á hljómgæðum plötunnar.

Trúbrot kom aftur heim eftir upptökurnar í London og hóf þegar að leika …lifun í bland við eldra efni á tónleikum og böllum, og um hvítasunnuna stóð sveitin fyrir frægustu útihátíð Íslandssögunnar, Saltvíkurhátíðinni ´71, ásamt æskulýðsráði Reykjavíkur þar sem fjölmenni veltist um í bleytu og rigningu við undirleik þekktustu hljómsveita samtímans.

Ekki löngu síðar hætti Karl orgelleikari skyndilega öllum að óvörum í Trúbrot, reyndar svo mjög að Gunnari Þórðar var það ekki ljóst fyrr en Karl var farinn úr landi. Sveitin var því hálf vængbrotin um sumarið en skarðið var að einhverju leyti fyllt af Magnúsi sem færði sig í kjölfarið aftur yfir á orgelið.

Þegar …lifun kom út í júlí-mánuði var Fálkinn hvergi nálægur heldur hafði Tónaútgáfan tryggt sér útgáfu plötunnar og var án nokkurs vafa lang viðamesta útgáfa þeirrar annars ágætu útgáfu sem síðar hélt sig mestmegnis við norðlenskar hljómsveitir og flytjendur. Plötuumslagið, hannað af Baldvini Halldórssyni bróður Björgvins Halldórssonar, þótti framúrstefnulegt, fyrsta upplagið var átthyrnt og er í dag sjaldséð vara.

…lifun fékk frábæra dóma í Vikunni og góða í Morgunblaðinu, einnig frábæra í áðurnefndri Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar. Platan seldist þokkalega (hafði selst í um þrjú þúsund eintökum vorið 1972) en varð ekki endilega sú sprengja í samtímanum sem búist hafði verið við, e.t.v. voru væntingar fólks hreinlega of miklar því það varð ekki fyrr en síðar sem platan fékk hinn goðsagnalega stimpil sem á henni er. Hún hlaut t.a.m. titilinn Plata aldarinnar á hátíð sem bar yfirskriftina Tónlistarverðlaun aldarinnar, þá varð hún í öðru sæti yfir bestu plötur Íslandssögunnar í tveimur könnunum sem Morgunblaðið stóð fyrir á Degi íslenskrar tónlistar árin 2007 og 2009, og þannig mætti áfram telja.

Trúbrot 1972

Platan hefur margoft verið endurútgefin og jafnvel aftur á vínyl (2015), þá hefur hún einnig verið gefin út í Suður-Kóreu (2001) og Liechenstein (2015), auk bootleg-útgáfu í Rússlandi (2014). Þess má einnig geta að Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti …lifun árið 1992 ásamt þekktum poppsöngvurum og gáfu þá útgáfu út á plötu tveimur árum síðar.

Trúbrot lét nokkuð að sér kveða um sumarið þrátt fyrir brottför Karls úr sveitinni, sveitin lék m.a. í Húsafelli um verslunarmannahelgina og næstu vikurnar á eftir var hún meira á ferð á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu enda sumarið tími sveitaballanna. Um haustið stóð til að Trúbrot færi utan til Svíþjóðar og Danmerkur, m.a. til að leika í sjónvarpsþætti í sænska ríkissjónvarpinu en þegar Svíarnir hættu við það vegna kostnaðar féll ferðin um sjálfa sig.

Snemma árs 1972 fóru þeir Trúbrots-liðar að huga að næstu plötu og stóð til að taka mun lengri tíma í hana en fyrri plötur sveitarinnar, slíkur var metnaðurinn. Sveitin hætti að spila opinberlega til að einbeita sér að því að semja efni á hana og þegar ljóst varð að upptöku- og útgáfukostnaður færi fram úr öllu hófi höfðu hvorki Tónaútgáfan né Fálkinn áhuga á að gefa plötuna út, og enn síður aðrar plötuútgáfur. Það varð því úr að Trúbrot stofnaði eigið útgáfufyrirtæki samnefnt sveitinni og gáfu þeir félagar plötuna út sjálfir, og urðu um leið fyrst hljómsveita til að gera slíkt hérlendis. Fleiri fylgdu í kjölfarið

Um þetta leyti var hljómsveitin Ævintýri að hætta störfum og því fóru af stað sögusagnir þess efnis að Björgvin Halldórsson söngvari þeirrar sveitar væri genginn í Trúbrot, þær fréttir voru þegar bornar til baka.

Sveitin hélt til Danmerkur að lokinni æfingatörn, til að taka upp plötuna sem þá þegar hafði fengið titilinn Mandala. Trúbrot var á þessum tímapunkti kvartett Gunnars, Rúnars, Gunnars Jökuls og Magnúsar en þeir fengu sér til fulltingis nokkra þarlenda spilara til að spila strengi og brass. Einnig var gamall félagi úr Hljómum, Engilbert Jensen með í för til að syngja með þeim raddir.

En sveitin lék inn á fleiri plötur um þetta leyti, það hefur ekki farið hátt en þeir félagar léku inn á tvær tveggja laga plötur með ungum Skagfirðingi, Geirmundi Valtýssyni, sem Tónaútgáfan gaf út skömmu síðar, m.a. með lögunum Bíddu við og Nú er ég léttur, sem allir kannast við. Einnig lék sveitin inn á plötu hjónakornanna Þuríðar Sigurðardóttur og Pálma Gunnarssonar, Þuríður & Pálmi syngja lög Gunnars Þórðarsonar. Á þeirri plötu var að finna nokkur lög sem Trúbrot hafði gert vinsæl.

Opnumynd úr Vikunni 1972

Þegar sveitin kom heim til Íslands eftir plötuupptökurnar hófu þeir félagar að spila efni af plötunni og gekk efnið ágætlega í landann. Þá fékk sveitin einnig ágæta kynningu á lögunum í sjónvarpsþætti sem sýndur var um sumarið 1972 um það leyti sem platan kom út. Mandala kom út í júlí og seldist vel (í um fjögur þúsund eintökum) en gagnrýnendur voru mishrifnir, platan hlaut ágæta dóma í Tímanum, Morgunblaðinu og Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar og sæmilega í Þjóðviljanum. Titillagið Mandala og My friend & I báru af í vinsældum og heyrast einstöku sinnum enn spiluð á útvarpsstöðvum.

Útgáfa plötunnar átti eftir að hafa eftirmála ef svo mætti segja því ljóðskáldið Jóhann Hjálmarsson fór fram á nokkru síðar að Rúnar Júlíusson greiddi sér skaðabætur fyrir óleyfilega notkun á ljóði sínu Skugginn úr bókinni Malbikuð hjörtu sem sá síðarnefndi hafði þýtt yfir á ensku lítt breytt og notað í laginu My friend & I, málinu lyktaði með því að Rúnar þurfti að reiða af hendi áttatíu þúsund krónur sem var þónokkur upphæð á þeim tíma.

Undir niðri voru sem fyrr væringar innan Trúbrots og svo fór að Jökullinn hætti aftur í sveitinni fljótlega eftir útgáfu Mandala. Sæti hans tók Engilbert Jensen, þá bæði sem trommuleikari og söngvari en hann hafði þá verið í Haukum um tíma, Ari Jónsson sem fyrr hafði leyst Gunnar af tók við trommukjuðunum í september og stuttu síðar bættist við gítarleikarinn Vignir Bergmann en hann hafði áður verið með Magnúsi Kjartanssyni í Júdasi. Þetta varð síðasta útgáfa sveitarinnar en einhvern veginn höfðu endalok hennar verið fyrirséð um langan tíma þótt þeim hefðu stöðugt verið slegið á frest. Þeir félagar höfðu gefið plötuna út með það í huga að dreifa henni einnig erlendis og voru í því skyni í sambandi við bandaríska útgáfufyrirtækið Fantasy records en þeim viðræðum var vitanlega slitið þegar sveitin hætti störfum.

Trúbrot lifði þó fram yfir áramótin 1972-73 en hætti störfum snemma vors, þá höfðu félagarnir og fóstbræðurnir Magnús Þór Sigmundsson og Jóhann Helgason komið fram í nokkur skipti með sveitinni án þess þó nokkurn tímann að ná að verða fullgildir meðlimir í henni.

Þeir Magnús og Jóhann voru um þetta leyti að hefja ævintýri sitt sem dúett og síðan hljómsveitin Change og um tíma stóð jafnvel til að Trúbrot eða að minnsta kosti hluti sveitarinnar myndi fylgja þeim til Bretlands. Af því varð þó aldrei, Gunnar Þórðar hafði þá skuldbundið sig til að fylgja Ríó tríóinu til Bandaríkjanna í tónleikaför og ljóst að meðlimir Trúbrots væru á leið í sína hverja áttina, Rúnar fór einnig til Bandaríkjanna um tíma en það liðu ekki margir mánuðir áður en þeir fóstbræður Gunnar og Rúnar, ásamt Engilbert og Björgvini Halldórssyni mynduðu nýja útgáfu af hljómsveitinni Hljómum, gjarnan nefnda Hljóma ´74. Reyndar stóð til í upphafi að nota Trúbrots nafnið en það reyndist ekki unnt þar eð Gunnar Jökull hafði þá tryggt sér einkaleyfi á nafninu. Af Magnúsi Kjartanssyni og Vigni Bergmann er að frétta að þeir fóru ásamt fyrrum félögum sínum úr Júdasi til Bretlands til að vinna sólóplötu þess fyrrnefnda og að því loknu var sú sveit endurvakin. Ari Jónsson trommari gekk aftur til liðs við sína gömlu sveit, Roof tops.

Trúbrot

Það þótti hins vegar kyndugt að um einu og hálfu ári síðar voru þeir Gunnar og Rúnar (auk Engilberts og Björgvins) orðnir meðlimir nýrrar sveitar, Ðe lónlí blúbojs, sem lék einfalda sveitaballatónlist og var eins langt frá hinu metnaðarfulla rokki sem Trúbrot spilaði, og frekast var hægt.

Síðari tíma poppfræðingar hafa verið nokkuð sammála um vægi Trúbrots í íslenskri tónlistarsögu, sveitin var sem fyrr segir fyrsta súpergrúppa Íslands og platan …lifun er almennt viðurkennd sem hápunktur bítla- og hippatónlistarinnar hér á landi í þeirri miklu grósku sem átti sér stað á þeim árum.

Trúbrot átti eftir að koma margsinnis fram síðar, hún kom m.a. fram á afmælishátíð FÍH vorið 1982 og þegar fortíðarþráin eftir rokk-, bítla- og hipparokki náði hámarki sínu á níunda áratugnum á vinsælum sýningum á Broadway og víðar, mætti sveitin á svið – t.a.m. á Söngbók Gunnars Þórðarsonar 1986 og Leitinni að týndu kynslóðinni 1987, þá kom sveitin einnig saman  þegar Karls J. Sighvatssonar var minnst með tónleikum 1991 og á styrktartónleikum fyrir Rúnar Júlíusson þegar hann fór í hjartaaðgerð 1996.

Lög sveitarinnar hafa ratað inn á ógrynni safnplatna í gegnum tíðina en einnig hafa komið út nokkrar safnplötur tileinkaðar sveitinni einni, þannig kom út ein slík þegar árið 1978 sem bar heitið Brot af því besta en hún var tvöföld, fyrri platan hafði að geyma safn laga frá ýmsum tímum en sú síðari plötuna …lifun í heild sinni. Hún var síðan endurútgefin á snælduformi árið 1982 með undirtitilinn „2 plötur á einni kassettu“. Árið 2002 kom út önnur safnplata undir sama titli á vegum Íslenskra tóna. Það var svo sama útgáfa sem sendi frá sér fjögurra platna safnplötu árið 2009 en þá voru fjörutíu ár frá stofnun sveitarinn. Veglegur ríflega fimmtíu blaðsíðna bæklingur fylgdi þeirri útgáfu sem hafði að geyma allt útgefið efni með sveitinni en safnpakkinn bar heitið Trúbrot 1969-1972.

Efni á plötum