Enginn vafi – þriðja plata Bjarna Ómars

Bjarni Ómar – Enginn vafi

Út er komin ný plata með tónlistarmanninum Bjarna Ómari en hún ber titilinn Enginn vafi. Um er að ræða þrettán laga plötu en flest þeirra eru eftir Bjarna Ómar sjálfan, hann hefur að auki ort fimm texta plötunnar en meðal annarra textahöfunda má nefna Jónas Friðrik og Hemúlinn (Arnar S. Jónsson).

Bjarni hefur síðan á unglingsárum komið fram sem trúbador og söngvari, og gítarleikari hljómsveita eins og Kokkteil, Antik, Sífrera og Nostal, auk þess að taka þátt í ýmis konar tónlistarverkefnum. Hann starfar sem sérfræðingur á kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga og á meðal annars sæti í samninganefnd sveitarfélaga.

Bjarni Ómar Haraldsson á rætur sínar að rekja til Raufarhafnar og er Enginn vafi þriðja plata hans. Fyrir um þrjátíu árum setti hann sér það markmið að gefa út plötu með frumsömdu efni á tíu ára fresti og kom fyrsta plata hans, Annað líf út árið 1998. Fyrirheit hét næsta breiðskífa og kom út 2008 og nú er komið að þeirri þriðju en hún er gefin út á geisladiska- og vínylplötuformi.

Bjarni hóf að vinna að plötunni snemma hausts og fóru upptökur fram í Reykjavík en einnig að hluta til í New York og Nashville, Vignir Snær Vigfússon annaðist upptökustjórn. Auk Bjarna og Vignis leika á henni Þorvaldur Þór Þorvaldsson á trommur, Helgi Reynir Jónsson á hljómborð, Róbert Þórhallsson á bassa, Troy Engle á ýmis strengjahljóðfæri, Daniel Flam á blásturshljóðfæri og strengjasveit á vegum Supreme Tracks. Þá koma við sögu söngkonurnar Anna Sigríður Snorradóttir og Ragna Björg Ársælsdóttir.

Bjarni Ómar Haraldsson

Fyrsta lag plötunnar, Þegar draumarnir svíkja, er þegar komið í spilun og má heyra það hér en það fjallar um vonbrigðin þegar draumar verða ekki uppfylltir, og um mikilvægi þess að vera raunsær og að lifa í núinu. Segja má að efni lagsins vísi nokkuð til þema plötunnar sem er eins konar uppgjör við síðustu ár þar sem skipst hafa á skin og skúrir í lífi Bjarna.

Eitt laga plötunnar hefur nokkra sérstöðu en flestir þekkja það undir titlinum Kvöld í Moskvu (Moscow night e. Wassili Soloview), flutt af Ragnari Bjarnasyni. Hér heitir það Rennur sól en rétt nafn textahöfundar er ekki þekkt, það mun hafa verið verkamaður sem starfaði á síldarplani á Raufarhöfn árið 1968. Textinn birtist í Sjómannablaðinu Víkingi á því sama ári og hefur verið eins konar einkennislag Raufarhafnar og er sunginn þar við hátíðleg tækifæri, með útgáfunni vill Bjarni festa hann í sessi meðal komandi kynslóða.

Hægt er að kaupa plötuna í gegnum Facebook-síðu Bjarna (í einkaskilaboðum), í gegnum tölvupóstfangið bjarniomar1969@gmail.com eða í síma 892 4666 (eftir kl. 16).

Tónlist Bjarna má jafnframt nálgast á slóðinni:

 https://open.spotify.com/artist/30NBEBMzDmnnw5lvs5yE90?si=hqaDFsfMQDyoqc97qkPPKQ