Brimkló (1972-)

Brimkló í upphafi

Saga hljómsveitarinnar Brimkló er fyrir margra hluta sakir mjög merkileg í íslenskri tónlistarsögu, sveitin var fyrst íslenskra sveita til að leika amerískt kántrý og breiða þá tónlist út meðal almennings hér á landi, herjaði á sveitaballamarkaðinn um og eftir miðjan áttunda áratuginn sem átti heldur betur undir högg að sækja mitt í miðri diskó- og plötusnúðamenningunni en lifði af og varð aldrei vinsælli en þá. Þá barðist sveitin fyrir tilverurétti sínum þegar ný kynslóð reiðra pönkara og rokkara tók yfir tónlistina hér heima  en hélt sínu nokkurn veginn.

Brimkló á í raun að rekja upphaf sitt óbeint til þess tíma er súpergrúppan Trúbrot varð til upp úr Hljómum og Flowers vorið 1969 en þá varð hljómsveitin Ævintýri til úr „leifum“ sveitanna tveggja. Ævintýri starfaði til ársins 1972, nánar tiltekið febrúar, en þá ákváðu tveir meðlima þeirrar sveitar, Sigurður Karlsson trommuleikari og Birgir Hrafnsson að stofna nýja sveit (Svanfríði) og við það sátu þrír Ævintýra-liðar eftir, þeir Arnar Sigurbjörnsson gítarleikari, Sigurjón Sighvatsson bassaleikari og Björgvin Halldórsson söngvari og gítarleikari sem allir höfðu verið í Flowers áður.

Nokkrir mánuðir liðu uns þremenningarnir Arnar, Sigurjón og Björgvin birtust í nýrri sveit um haustið undir nafninu Brimkló en nafnið kom úr ranni Árna Johnsen sem einnig hafði lagt Trúbrot til nafn þremur árum fyrr. Aðrir meðlimir hinnar nýju sveitar voru Hannes Jón Hannesson gítarleikari sem þá hafði m.a. starfað með þjóðlagatríóinu Fiðrildum og trommuleikarinn Ragnar Sigurjónsson en hann hafði t.d. lamið trommusettið hjá Dúmbó sextett á Akranesi og Mánum á Selfossi. Þess má geta að bæði Hannes Jón og Björgvin höfðu á þeim tímapunkti nýverið sent frá sér breiðskífur.

Brimkló 1972

Í upphafi vildu blaðamenn gjarnan meina að Ævintýri og hin nýja Brimkló væru ein og sama sveitin en það átti eftir að breytast enda var tónlistin gjörólík, fyrstu vikurnar á meðan sveitarmeðlimir voru að marka sér einhverja stefnu í tónlistinni var prógram þeirra úr ýmsum áttum en fljótlega var mörkuð sú leið að spila mestmegnis „western country“ eins og það var  orðað í fjölmiðlum en sú tegund tónlistar sem við köllum gjarnan kántrý í dag þekktist þá vart hér á landi. Segja má því að Brimkló hafi orðið fyrst sveita til að leika slíka tónlist hérlendis og breiddi þar með út þá tónlist með spilamennsku á böllum og tónleikum.

Í fyrstu voru engin plön uppi um að gefa út plötu en leika þeim mun meira á dansleikjum, sveitin lék til að mynda á risaáramótadansleik í Laugardalshöllinni og ásamt fleiri hljómsveitum á styrktartónleikum sem haldnir voru í Háskólabíói fyrir Vestmannaeyinga en eldgos hófst þar 23. janúar 1973. Brimkló lék ennfremur sitt ameríska kántrý á almennum dansleikjum og nutu fljótlega mikilla vinsælda enda náðu þeir góðum tökum á ballgestum, með margra ára reynslu í þeim efnum þótt þeir væru ekki gamlir. Þá naut sveitin mikilla vinsælda meðal amerískra hermanna á Vellinum þegar hún spilaði þar sitt kántrý.

Um sumarið 1973 lék Brimkló á fjölsóttum útitónleikum í skrúðgarðinum (Grasagarðinum) í Laugardal en þar mættu á áttunda þúsund manns á öllum aldri í blíðskaparveðri, um svipað leyti leysti Rúnar Júlíusson bassaleikari Sigurjón af um tíma á meðan sá síðarnefndi var í fríi. Á haustdögum var síðan sýndur sjónvarpsþáttur með sveitinni í Ríkissjónvarpinu en hann hafði að einhverju leyti verið tekinn upp í Mosfellssveit. Þátturinn hét Jóreykur úr vestri og voru meðlimir Brimklóar uppáklæddir í kúrekafatnað í honum, þátturinn vakti feikimikla athygli og var síðar endursýndur. Sveitin  naut því töluverðra vinsælda og var kjörin hljómsveit ársins 1973 af tímaritinu Vikunni í ársuppgjöri þess.

Brimkló 1973

Brimkló lék öðru sinni á áramótadansleik í Laugardalshöll rétt eins og ári fyrr en fljótlega eftir áramótin 1973-74 bárust þær fréttir að Björgvin söngvari væri að hætta í sveitinni en hann væri þá að ganga til liðs við nýja ónafngreinda hljómsveit. Sú sveit reyndist síðan vera Hljómar sem síðan hefur verið kölluð Hljómar 74 en sú sveit hafði legið í salti síðan Trúbrot var stofnuð 1969, Trúbrot hafði hætt störfum vorið 1973. Í raun og veru var Björgvin látinn taka pokann sinn í Brimkló en þá hafði verið nokkur togstreita innan sveitarinnar, Björgvin hafði viljað gera hana að atvinnuhljómsveit en hinir vildu sinna öðru samhliða Brimkló.

Þótt Björgvin hyrfi á brott héldu hinir fjórir samstarfinu ótrauðir áfram og Hannes Jón tók nú að sér aðalsönginn en einnig söng Arnar eitthvað. Ýmsum þótti sveitin missa mikið þegar Björgvin hætti og fljótlega eða í maí 1974 gekk Jónas R. Jónsson til liðs við Brimkló. Hann hafði einmitt verið söngvari í Flowers með Arnari og Sigurjóni nokkrum árum fyrr og Björgvin hafði tekið við söngnum þegar Jónas hætti þar. Jónas hafði þá lítið verið viðloðandi tónlistarbransann um fimm ára skeið en hann var þá orðinn kunnur sjónvarpsþáttastjórnandi. Á sama tíma og Jónas gekk í Flowers hætti Hannes Jón en Pétur Pétursson hljómborðsleikari kom í hans stað. Sveitin var þá orðin allbreytt en meðlimir hennar voru þá Arnar, Ragnar, Sigurjón, Jónas og Pétur. Þannig skipuð kom Brimkló fram í fyrsta skipti um mánaðamótin maí júní 1974.

Brimkló í lit

Miklu minna fór fyrir Brimkló eftir að Björgvin yfirgaf sveitina, hún fór t.d. í smá pásu í júlí en lék á dansleikjum að Arnarstapa um verslunarmannahelgina 1974, meðlimir sveitarinnar voru aukinheldur bundnir annarri vinnu eins og fram hefur komið. Þar að auki voru tveir meðlimir sveitarinnar, Sigurjón og Jónas meðal eigenda að nýju og reyndar fyrsta alvöru hljóðveri sem hér var sett á laggirnar, Hljóðrita í Hafnarfirði en það tók síðan til starfa vorið 1975.

Eins og reikna mátti með varð Brimkló meðal þeirra fyrstu sem tóku upp efni í nýja hljóðverinu og fljótlega eftir að Hljóðriti tók til starfa kom út tveggja laga plata með sveitinni. Á henni er að finna lögin Kysstu kellu að morgni / Jón og Gunna sem voru erlend lög við texta Þorsteins Eggertssonar. Smáskífan varð sú fyrsta sem hljómplötuútgáfan Hljómar gaf út en hún fékk misjafna dóma, fremur slaka í Vísi, sæmilega í Tímanum og Þjóðviljanum en ágæta í Morgunblaðinu. Lögin tvö komu einnig út á safnplötunni Eitthvað sætt nokkru síðar en vöktu fremur litla athygli, Kysstu kellu að morgni heyrðist þó nokkuð spilað í útvarpi og heyrist reyndar stöku sinnum ennþá.

Brimkló lék um verslunarmannahelgina 1975 á Arnarstapa á Snæfellsnesi eins og ári fyrr en blikur voru á lofti síðla sumar, þá var ljóst að miklar breytingar yrðu á sveitinni, Sigurjón bassaleikari var á leið í nám og ætlaði sér að kenna einnig um veturinn og hefði því ekki tíma fyrir spilamennsku, Jónas söngvari var kominn á fullt í hljóðritunarbransann og Pétur hljómborðsleikari var á leið til Bandaríkjanna í tónlistarnám. Þeir Arnar og Ragnar voru því einungis tveir eftir í sveitinni og voru fjölmiðlamenn ekki seinir á sér að geta í eyðurnar, talað var um að Bjarki Tryggvason kæmi inn í sveitina sem söngvari og bassaleikari en hann hafði þá gert garðinn frægan með Hljómsveit Ingimars Eydal og sungið þar lagið Í sól og sumaryl við miklar vinsældir, en einnig var Rúnar Júlíusson nefndur sem gítarleikari sveitarinnar. Þá voru nöfn Ara Jónssonar söngvara og trommuleikara (hugmyndin var að hafa tvo trommuleikara) úr Roof tops og fleiri sveitum, Þórðar Árnasonar gítarleikara úr Rifsberju og Guðmundar Benediktssonar hljómborðsleikara úr Mánum einnig nefnd.

Brimkló – Jóreykur úr vestri

Ekkert varð úr þessum áformum og Brimkló hætti störfum um haustið en Ragnar, Arnar, Þórður, Bjarki og Guðmundur stofnuðu hins vegar nýja sveit upp úr þessum hugleiðingum, Mexíkó sem starfaði í um eitt ár.

Þessu fyrsta skeiði hljómsveitarinnar Brimkló lauk haustið 1975 en sveitin hafði þá starfað í rétt tæplega þrjú ár, ekkert benti til annars en að sveitin væri alveg hætt og reyndar var ekki annað að sjá í fjölmiðlum en að fólk saknaði hennar lítið. Það kom því nokkuð á óvart þegar fréttir tóku að berast vorið 1976 af því að Brimkló væri langt kominn með að vinna efni á breiðskífu en eins og fyrr en nefnt höfðu þeir nokkuð greiðan aðgang að Hljóðrita og nokkrir grunnar höfðu verið teknir upp árið áður, um svipað leyti og smáskífulögin tvö höfðu verið hljóðrituð. Að plötunni unnu þá fyrrum meðlimir sveitarinnar utan Péturs sem var við nám í Bandaríkjunum en auk þess Björgvin Halldórsson og Hannes Jón Hannesson sem höfðu yfirgefið sveitina, einnig komu við sögu þeir Magnús Kjartansson hljómborðsleikari og Gordon Huntley fetilgítarleikari á upptökunum.

Platan kom út um sumarið 1976 á vegum Geimsteins, nýs útgáfufyrirtækis sem Rúnar Júl. hafði stofnað eftir að útgáfufyrirtækið Hljómar (sem þeir Rúnar og Gunnar Þórðarson ráku í sameiningu) hafði hætt störfum. Reyndar mun Rúnar hafa átt sinn þátt í að koma Brimkló á laggirnar aftur og Björgvini í hana, en hann stjórnaði jafnfram upptökum á plötunni sem hlaut nafnið Rock‘n roll öll mín bestu ár.

Brimkló í Vikunni

Á plötunni voru níu erlend lög og tvö eftir Arnar gítarleikara, en með íslenskum textum sem flestir voru eftir Þorstein Eggertsson en lögin voru öll í kántrýstíl þeim sem sveitin hafði tileinkað sér. Platan seldist vel og fékk mjög góða dóma í Vísi, ágæta í Þjóðviljanum og þokkalega í Morgunblaðinu, Dagblaðinu og Tímanum en slaka í Poppbók Jens Guðmundssonar. Mörg laganna slógu samstundis í gegn, og eru reyndar löngu orðin órjúfanlegur hluti af sígildu poppi áttunda áratugarins, þeirra á meðal má nefna titillagið Rock‘n roll öll mín bestu ár, Síðasta sjóferðin og Stjúpi. Björgvin söng flest laganna en einnig komu Jónas og Arnar við söngsögu hennar.

Flestir bjuggust við að Brimkló myndi fylgja plötunni og vinsældum hennar eftir með dansleikjahaldi um sumarið en úr því varð ekki, talað var um í því samhengi að Bjarki Tryggvason bassaleikari og Magnús Kjartansson hljómborðsleikari myndu fylla upp í sveitina en ekkert varð úr þeim fyrirætlunum og sveitin var því ekki endurreist – að sinni.

Stærsta ástæðan var auðvitað sú að Björgvin var orðinn stórstjarna í íslensku tónlistarlífi, önnum kafinn verkefnum. Þegar Hljómar 74 lögðu upp laupana haustið 1974 fór sami mannskapur af stað með Ðe Lónlí blú bojs og herjaði á ballmarkaðinn við miklar vinsældir þar til sú sveit hætti haustið 76. Þá var Björgvin mikið erlendis, hann hafði gengið til liðs við hljómsveitina Change en sú sveit gerði út frá Bretlandi, hann var auk þess á kafi í vísnaplötunum tveimur með Gunnari Þórðarsyni og Tómasi Tómassyni, Út um græna grundu og Einu sinni var en þær voru hljóðritaðar í Bretlandi. Þá hafði hann einnig komið við sögu Stuðmanna og fyrstu breiðskífu þeirra, Sumar á Sýrlandi, en hann söng þar lagið Tætum og tryllum, og svo mætti lengi áfram telja.

Brimkló og Halli og Laddi 1977

Það var svo í byrjun árs 1977 sem enn bárust fréttir af hljóðversvinnu Brimklóar, þá voru þeir Arnar, Ragnar Sigurjón og Hannes Jón byrjaðir að vinna í Hljóðrita og Björgvin kom síðar og söng. Ný plata var því í burðarliðnum og að þessu sinni var um helmingur laganna eftir þá félaga en hinn helmingurinn erlend lög við íslenska texta Þorsteins Eggertssonar og Jónasar Friðriks, sama forskrift og áður nema að vægi frumsömdu laganna var nú orðið meira. Breiðskífan kom út á vegum fataverslunarinnar Faco um vorið undir nafninu Undir nálinni og hún fékk ekkert síðri viðtökur en sú fyrri enda virtist allt sem Björgvin kom að, verða að gulli. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu, Dagblaðinu, Þjóðviljanum og Vísi, og jafnvel enn betri í Tímanum. Jens Guðmundsson var þó fremur neikvæður í bók sinni, Poppbókinni.

Að þessu sinni þótti ekki stætt á öðru en að leggja í hringför um landið og það var gert undir yfirskriftinni Brimkló á faraldsfæti ´77 ásamt Halla og Ladda. Þetta var fyrsta sumarið sem þeir bræður Halli og Laddi fóru með sveitinni en það áttu þeir eftir að gera oftar, þeir voru um þetta leyti að senda frá sér sína aðra grínplötu, Fyrr má nú aldeilis fyrrvera, og fluttu efni af henni á Brimklóarskemmtununum við miklar vinsældir um land allt.

Brimkló var þarna skipuð þeim Björgvini, Hannesi Jóni, Ragnari, Sigurjóni og Arnari en einnig bættist í hópinn aukamaðurinn Guðmundur Benediktsson hljómborðsleikari sem hafði m.a. verið með Ragnari í Mánum, hann gat jafnframt sungið og hafði m.a. verið í hlutverki Jesú í söngleiknum Jesus Christ superstar. Ómissandi partur af Brimklóar-genginu var svo rótarinn Ágúst Ágústsson (Gústi rót) sem var allt að því goðsagnarpersóna á þessum árum.

Mörg lög af plötunni Undir nálinni náðu vinsældum og voru kyrjuð af dansleikjagestum á sveitaböllum um land allt þetta sumar undir spili sveitarinnar, ætlað var að um tíu þúsund manns hefðu sótt nítján dansleiki sveitarinnar. Lög eins og Ég las það í Samúel, Mannelska Maja og Síðan eru liðin mörg ár nutu gríðarlegra vinsælda og voru meðal mest umbeðnu óskalaga í þess konar útvarpsþáttum 1977 og mörg ár á eftir. Þessi sveitaballarúntur Brimklóar er merkilegur að því leyti að líklega var þarna keyrt á „eigin efni“ eingöngu en það var þá í fyrsta skipti sem slíkt var gert. Eftir sumarvertíðina fór sveitin í pásu en hugmynd sem kom upp um að gera jólaplötu og fara á jóladansleikjarúnt varð ekki að veruleika.

Brimkló

Fljótlega eftir áramótin 1977-78 birtist Brimkló eftir pásu og þá höfðu orðið nokkrar breytingar á sveitinni. Þeir Hannes Jón og Sigurjón voru þá horfnir á brott en í þeirra stað komu Pétur Hjaltested hljómborðsleikari (Pelican, Paradís o.fl.) og Haraldur Þorsteinsson bassaleikari úr Eik en sú sveit var þá nýhætt. Pétur staldraði stutt í sveitinni og Guðmundur Benediktsson leysti hann af og varð þar með fastur liðsmaður sveitarinnar. Ragnar, Arnar og Björgvin voru sem fyrr í sveitinni.

Fram eftir ári 1978 var Brimkló húshljómsveit í Sigtúni en lék einnig þess á milli á annars konar samkomum svosem skólaböllum. Um vorið kom sveitin við sögu á kosningasamkomum hjá sjálfstæðisflokknum í aðdraganda borgar- og sveitastjórnakosninga sem haldnar voru í maí, þar lék þáverandi borgarstjóri, Birgir Ísleifur Gunnarsson með sveitinni á hljómborð. Um svipað leyti var sveitin að leggja lokahönd nýja plötu í Hljóðrita en hún kom síðan út um mánaðamótin júlí ágúst og bar titilinn …eitt lag enn, það voru Steinar sem gáfu plötuna út.

Sem fyrr var forskriftin blanda frumsaminna og erlendra laga, helmings blanda beggja. Platan hlaut heilt yfir fremur jákvæða gagnrýni blaðamanna, hún fékk ágæta dóma í Tímanum og Morgunblaðinu en Poppbók Jens Guðmundssonar var eins og venjulega fremur neikvæð í garð sveitarinnar. Titillagið Eitt lag enn varð vinsælast laga á plötunni og í því lagi naut sveitin falsettusöngs Guðmundar hljómborðsleikara en sonur hans, Pétur Örn Guðmundsson, hefur í seinni tíð verið þekktur fyrir svipað raddsviðs. Önnur lög af plötunni heyrðust einnig af og til s.s. Færeyjar og Stuðöldin: allir á ball með Brimkló en síðarnefnda lagið var syrpa nokkurra þekktra slagara, slíkar syrpur nutu nokkurra vinsælda um þetta leyti. Nokkrir gestir komu við sögu á plötunni, fjölmiðlamaðurinn Þorgeir Ástvaldsson var meðal þeirra en hann lék á harmonikku í einu laganna, einnig má nefna Gunnar Þórðarson á gítar, Gunnar Ormslev saxófónleikara og Bjarna Guðmundsson túbuleikara.

Eins og ætla mætti fór sveitin á túr eftir útgáfu plötunnar, segja má að Brimkló og Brunaliðið hafi nokkurn veginn skipt á milli sín stærstu bitunum á ballmarkaðnum þetta sumarið, Brunaliðið fór mikinn fyrri hluta sumars en Brimkló í ágúst og september undir heitinu Á faraldsfæti ´78. Sem fyrr voru þeir bræður, Halli og Laddi með í för og með nýja plötu, Hlúnkur er þetta, og plöturnar tvær áttu eftir að raða sér í tvö efstu sæti plötusölulistans næstu vikurnar um haustið eða þar til sólóplata Björgvins Halldórssonar kom út um jólin, það var platan Ég syng fyrir þig en hann var að vinna að henni samhliða Brimklóar-vinnunni.

Brimkló

Þess má geta að HLH flokkurinn varð til í þessum túr þegar þremenningarnir Halli, Laddi og Helgi (Björgvin) tóku nokkur lög saman í anda sjötta áratugarins á sviðinu og áttu síðar eftir að hefja formlegra samstarf. Töframaðurinn Baldur Brjánsson var einnig með í för hluta túrsins sem tók alls sex vikur og endaði á Laugardalsvellinum um miðjan september þar sem sveitin hitaði upp fyrir leik Vals og austurþýska knattspyrnuliðsins Magdeburg í Evrópukeppni bikarhafa. Leikurinn fór 1-1.

Eftir nokkurra vikna pásu um haustið fór Brimkló aftur af stað um miðjan nóvember og var sveitin þá ráðin sem húshljómsveit öðru sinni í Sigtúni fram að áramótum 1978-79, ætlunin var að ráðast í gerð nýrrar plötu strax eftir áramótin en þau plön áttu eftir að breytast. Björgvin var á fullu um haustið að kynna sólóplötu sína, Ég syng fyrir þig, og komu Brimklóar-liðar hvergi nærri þeirri útgáfu. Sveitin lék hins vegar undir í sjónvarpsþætti hjá HLH-flokknum sem birtist nú landsmönnum skömmu eftir áramótin, þátturinn bar heitið Hefur snjóað nýlega?

Sveitin kom vissulega við sögu á plötu sem gefin var út snemma um vorið 1979 en það var undir merkjum HLH flokksins og hét platan Í góðu lagi. Brimkló var því á fullu allt sumarið við ballspilamennsku þótt það væri í nafni HLH flokksins en sveitin lék víða um sumarið, m.a. á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Sveitin lék reyndar eitthvað einnig undir Brimklóarnafninu og síðla sumars fór sveitin gamalkunnan hring í kringum landið – ásamt Halla og Ladda.

Um haustið 1979 fóru þeir Brimklóar-liðar að huga að nýrri plötu og var hún tekin upp í október í Hljóðrita samkvæmt venju. Á henni var mestmegnis að finna frumsamið efni en hún kom út fyrir jólin undir merkjum Hljómplötuútgáfunnar og hét Sannar dægurvísur. Þessi breiðskífa var sú fyrsta sem sveitin sendi frá sér fyrir jólaplötuvertíð en hinar plöturnar þrjár höfðu allar komið út um sumarleyti. Sagan af Nínu og Geira varð stórsmellur haustsins en í því lagi söng Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) dúett á móti Björgvini en meðal annarra liða sem voru mikið spiluð má nefna Ég mun aldrei gleyma þér og Herbergið mitt, síðarnefnda lagið söng Guðmundur hljómborðsleikari.

Brimkló og Halli og Laddi 1980

Sannar dægurvísur fékk alls konar dóma í blöðunum, þokkalega í Framsóknarblaðinu, ágæta í Helgarpóstinum, enn betri í Tímanum og frábæra í Morgunblaðinu, og svo slaka í Poppbók Jens. Á plötunni hafði tónlistin þróast nokkuð frá kántrýinu sem sveitin hafði verið nokkuð föst á á fyrri plötum og var nú orðin mun poppaðri, jafnvel rokkaðri en sú á undan. Líkt og fyrri breiðskífur naut platan mikilla vinsælda og seldist vel þótt hún þyrfti í jólaplötuflóðinu m.a. að kljást við diskódúettinn Þú og ég. Sveitin var svo verðlaunuð á Stjörnumessu í febrúar 1980 og hlaut þar titilinn hljómsveit ársins.

Lítið fór fyrir Brimkló framan af árinu 1980 enda var þá ljóst að hræringar voru framundan í sveitinni. Guðmundur hljómborðsleikari hætti og þrír nýir meðlimir, Kristinn Svavarsson saxófónleikari, Magnús Kjartansson söngvari, trompet- og hljómborðsleikari og Ragnhildur Gísladóttir (Ragga Gísla) söngkona og hljómborðsleikari bættust í hópinn, þar með var Brimkló orðin sjö manna sveit. Þau Magnús og Ragnhildur komu úr Brunaliðinu sem þarna var hætt störfum en Kristinn hafði þá vakið nokkra athygli með nýrri sveit, Mezzoforte. Með komu þeirra fjarlægðist Brimkló enn kántrýið.

Brimkló hafði fremur hægt um sig á meðan nýju meðlimirnir spiluðu sig inn í sveitina og svo var ætlunin að keyra á balltúr síðsumars líkt og svo oft áður. Sveitin spilaði m.a. nokkuð í Þórscafé og á kosningahátíðum tengdum Albert Guðmundssyni sem var í framboði til forseta Íslands vorið 1980. Miklar hræringar voru þarna í íslensku tónlistarlífi sem segja má að hafi hafist fyrir alvöru þegar Bubbi Morthens og Utangarðsmenn réðust fram á sjónarsviðið um vorið með látum með sitt gúanórokk en auk þess hafði pönkbylgjan borist loks til landsins, löngu síðar en í nágrannalöndunum. Segja má að þarna hafi orðið nokkur kynslóðaskipti í íslenskri tónlist og margir hinna yngri tónlistaráhugamanna fylgdu nýju bylgjunni fremur en gömlu mönnunum. Stóra sprengjan féll síðan síðsumars þegar hinir nýju Utangarðsmenn gáfu út smáskífu með laginu Rækjureggae (ha ha ha) sem innihélt textalínuna „Ég er löggiltur hálfviti / hlusta á HLH og Brimkló“. Að sjálfsögðu var sneiðinni beint fyrst og fremst til þeirra sem hlustuðu á tónlist HLH flokksins og Brimklóar en sveitin fékk engu að síðar á baukinn þarna þar sem fæstir könnuðust nú við að hlusta á HLH og Brimkló.

Brimkló 1982

Hvort sem það var þessu að kenna eða einhverju öðru þá kom engin plata út með sveitinni þetta árið en flestir meðlima hennar komu reyndar að sólóplötu Pálma Gunnarssonar, Hvers vegna varst‘ekki kyrr? sem kom út um sumarið en Pálmi kom stundum fram með Brimkló af sama tilefni þetta sumar. Halli og Laddi voru líka með í för þegar Brimkló fór í sinn árlega síðsumarrúnt Á faraldsfæti ´80 og lék sveitin þá undir í lögum þeirra bræðra sem þá voru að senda frá sér plötuna Umhverfis jörðina á 45 mínútum. Sem svar við skoti Bubba Morthens höfðu Halli og Laddi ennfremur þróað skemmtiatriði í kringum pönkarann Subba Skorsteins. Þá gáfu Björgvin og Ragnhildur út dúettaplötuna Björgvin & Ragnhildur sem hluti sveitarinnar lék inn á. Brimkló lék á þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina og kom einnig fram í nokkur skipti á SATT kvöldum um sumarið og haustið 1980.

Eftir áramótin 1980-81 spilaði sveitin enn í Sigtúni og notaði þau kvöld til að prófa sig áfram með nýtt efni sem átti að koma út á næstu plötu, þetta höfðu þeir gert fyrir plötuna á undan og hafði sú aðferð gefist vel. Í febrúar byrjun bárust hins vegar þær óvæntu fréttir að Ragnhildur væri búin að yfirgefa sveitina eftir ársdvöl í henni. Það er ótrúleg tilviljun að sama dag og fréttirnar bárust birtist lesendabréf í Dagblaðinu þar sem bréfritari benti á að rödd hennar ætti miklu fremur heima í rokksveit í anda nýbylgju og pönksins sem þá var í hámarki, fremur en hljómsveit a borð við Brimkló. Ekki leið langur tími uns hún hafði auglýst eftir meðspilurum í kvennahljómsveit sem síðan varð að veruleika og hlaut nafnið Grýlurnar. Reyndar vandaði hún fyrrum félögum sínum ekkert sérlega kveðjurnar og sagðist hún hafa verið hálfgerður sessionleikari sem ekkert hefði haft til málanna að leggja.

Þeir Brimklóar-menn hljóðrituðu nýja plötu í Hljóðrita um vorið 1981 og sögðust í blaðaviðtali vera fullmeðvitaðir um það sem var að gerast í íslenskri tónlist og að þeir þyrftu að koma með sterka plötu, þá hafði hugtakið „skallapoppari“ tekið sér nokkurn sess í tungumálinu og átti við um poppara sem voru komnir á miðjan aldur og jafnvel teknir að staðna, að mati þeirra sem notuðu hugtakið. Rétt er þó að benda á að Björgvin er aðeins fimm árum eldri en Bubbi Morthens. Reyndar voru bæði Björgvin og Brimkló og Bubbi og Utangarðsmenn vinsælt umræðuefni í lesendabréfum dagblaðanna á þessum árum og er ekki hægt að segja annað en að umræðan hafi verið lífleg svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Nýja breiðskífa Brimkló sem var sú fimmta í röðinni, kom út um mitt sumar og hlaut titilinn Glímt við þjóðveginn,  hún kom út á vegum Hljómplötuútgáfunnar. Lögin voru að þessu sinni flest frumsamin og hlaut ágætar viðtökur, platan fékk t.a.m. góða dóma í Morgunblapinu og þokkalega í Dagblaðinu en slaka í Poppbók Jens. Þrjú laganna urðu mjög vinsæl, Upp í sveit, Þjóðvegurinn og Skólaball, sem öll þykja enn ómissandi á safnplötum tengdum Björgvini Halldórssyni og Brimkló. Um líkt leyti og Glímt við þjóðveginn kom út, var einnig gefin út kassetta (af Skífunni) sem hafði að geyma síðustu tvo titla sveitarinnar, Sannar dægurvísur og Glímt við þjóðveginn.

Brimkló fylgdi plötunni eftir með sama hætti og fyrri sumur, með dansleikjaröð síðsumars, að þessu sinni undir heitinu Brimkló og Jack Elton á faraldsfæti ´81. Jack þessi Elton var bandarísk Elvis eftirherma sem hingað til lands kom, skemmti og dvaldi í nokkrar vikur.

Eftir þessa síðsumartörn var Brimkló fremur lítið á ferðinni um haustið og veturinn 1981-82. Snemma árs 1982 birtust þær undarlegu fréttir að Magnús Stefánsson trommuleikari væri í þann mund að ganga til liðs við sveitina en hann var þá trommuleikari Bodies og fyrrum trommari Utangarðsmanna en sú sveit hafði sprungið í loft upp um sumarið. Magnús bar þær fréttir til baka en hið rétta var að honum hafði verið boðin trommuleikarastaðan í Brimkló en hann ekki þegið hana. Ragnar trommuleikari og Haraldur bassaleikari voru þá að íhuga að hætta í sveitinni en hún kom þó fram á afmælishátíð FÍH á Broadway í febrúar 1982 og flutti þar m.a. syrpu sem rataði á plötu sem gefin var út í tilefni af afmælinu.

Þótt lífdagar Brimklóar væru ekki taldir að sinni átti hún þó ekki langt eftir, Björgvin var þá að stofna sveit undir eigin nafni, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar og ljóst var að Magnús hljómborðsleikari myndi fylgja honum en Arnar, Haraldur, Ragnar og Guðmundur héldu samstarfinu áfram fjórir, Kristinn saxófónleikari var þá hættur. Sveitin spilaði eitthvað áfram á böllum um sumarið 1982 og fram eftir haustinu en lognaðist þá útaf og fóru menn í sína áttina hver.

Glímt við þjóðveginn

Kynslóðaskipti höfðu orðið í íslensku tónlistarlífi upp úr 1980 með pönkinu og kvikmyndinni Rokk í Reykjavík og gömlu popparar áttunda áratugarins héldu sig til hlés um skeið, margir þeirra hættu jafnvel.

Það var svo um og eftir miðjan níunda áratuginn sem blásið var til sóknar á nýjan leik þegar söngskemmtanir til heiðurs „týndu kynslóðunum“ spruttu upp á stöðum eins og Broadway og Hótel Íslandi, og fólk á þeim aldri flykktist aftur á djammið.

Brimkló var ein þeirra sveita sem lifnaði við á nýjan leik en það mun hafa verið sumarið 1987, þá starfaði hún fram yfir áramótin 1987-88 og innihélt Björgvin, Arnar, Ragnar, Harald og Hannes Jón. Þegar sveitin kom aftur fram á sjónarsviðið í lok árs 1988 hafði Gunnlaugur Briem tekið sæti Ragnars sem átti þá ekki heimangengt. Brimkló lék þá á Broadway framundir miðjan mars 1989 en lagðist þá aftur í dvala enda sinntu meðlimir sveitarinnar ýmsum öðrum verkefnum, Björgvin var þá t.d. í Sléttuúlfunum og HLH flokknum sem fóru mikinn á þessum árum.

Og svona var það næstu árin, Brimkló hætti aldrei en minnti reglulega á sig með einum eða öðrum hætti, fyrsta platan Rock‘n roll öll mín bestu ár var til að mynda endurútgefin á geislaplötuformi á fimmtán ára útgáfuafmæli hennar 1991 en mörg ár liðu þar til hinar plötur voru gefnar út aftur.

Sveitin var endurreist 1994 og byrjaði þá á að leika fyrir sjö hundruð manns á Broadway. Björgvin, Arnar, Haraldur og Ragnar skipuðu þá Brimkló sem fór í einhvers konar samstarf við hljómsveitina Fána sem þeir Haraldur og Ragnar voru þá meðlimir í. Sveitirnar tvær spiluðu nokkuð saman það árið (1994) og þá kom út safnplata Björgvins sem hafði að geyma nýja útgáfu af laginu Ég las það í Samúel, sem Brimkló hafði gert ódauðlegt löngu fyrr en var nú sungið af Björgvini og Stefáni Hilmarssyni.

Sveitin spilaði nú nokkuð samfleytt þó ekki færi mjög mikið henni, safnplatan Sígildar sögur með Brimkló kom út árið 1996 og var eitt nýtt lag að finna á þeirri plötu, Ef rótararnir kjafta nú frá. Jónatan Garðarsson ritaði ágrip af sögu sveitarinnar í bæklingnum sem fylgdi plötunni. Platan hafði selst í um þrjú þúsund eintökum í lok ársins 1996 enda voru þá mörg laganna að koma út í fyrsta skipti á geisladisksformi, Sígildar sögur fékk ágæta dóma í Alþýðublaðinu og þokkalega í DV. Þá voru í bandinu þeir Björgvin, Arnar, Ragnar og Haraldur en auk þess höfðu þeir Magnús Einarsson gítar- og mandólínleikari og Þórir Baldursson hljómborðsleikari bæst í hópinn.

Brimkló 1994

Nokkur ár liðu þar til Brimkló birtist næst á sjónarsviðinu sumarið 2003 en þá voru um sjö ár síðan síðast hafði heyrst til sveitarinnar. Það mun hafa verið útvarpsmaðurinn Ólafur Páll Gunnarsson sem átti hugmyndina og frumkvæðið að endurkomunni en sú útgáfa samanstóð af Björgvini, Arnari, Ragnari, Haraldi og Guðmundi, sú samsetning sveitarinnar hafði einmitt gefið út tvær breiðskífur af þeim fimm sem hún hafði sent frá sér. Þórir Baldursson bættist svo í hópinn sem og Magnús Einarsson að einhverju leyti, og sveitin lék á Kántrýhátíð á Skagaströnd áður en sex vikna balltúr um landið var tekinn með trompi. Þá kom Sigurjón Sighvatsson fyrsti bassaleikari sveitarinnar fram með sveitinni sem sérstakur gestur á nokkrum giggum en hann hafði þá búið og starfað í Bandaríkjunum um árabil, auk þess sem Jónas R. Jónsson, Magnús Kjartansson og Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) tóku lagið með sveitinni. Viðtökurnar urðu mjög góðar og þurfti að bæta við fjölmörgum dansleikjum til að anna eftirspurninni. Um haustið 2003 kom upp sú hugmynd að taka upp breiðskífu með nýju efni, sömu forskrift þó og áður – blöndu íslenskra og erlendra laga.

Brimkló lék heilmikið á dansleikjum framan af árinu 2004 og þar af í nokkur skipti með Pöpum. Ekki gekk þó allt á afallalaust og t.d. fékk Björgvin míkrafón í andlitið á balli Klúbbnum í Grafarvogi með þeim afleiðingum að það stórsá á andlitinu á honum. Sveitin spilaði heilmikið á dansleikjum um sumarið og forsmekkurinn fyrir breiðskífuna sem áætlað var að kæmi um haustið kom út á safnplötunni Svona er sumarið 2004, það var lagið Bolur inn við bein og varð nokkuð vinsælt um sumarið. Sveitin var sjö manna um þetta leyti en þeir Þórir Baldursson og Magnús Einarsson voru báðir með. Í úttekt sem DV gerði um þetta leyti kom m.a. í ljós að Brimkló hefði spilað u.þ.b. tvö þúsund sinnum opinberlega síðan hún var stofnuð.

Breiðskífan hafði ýmist gengið undir vinnuheitunum Við heygarðshornið eða Í landi bolanna, en endanlegur titill hennar varð Smásögur, fyrsta plata Brimklóar síðan 1981. Hún hlaut góðar viðtökur þegar hún kom út og sveitin þótti aftur hafa nálgast kántrýið sem hún hafði fjarlægst með tímanum. Smásögur fékk frábæra dóma í Morgunblaðinu. Endurkoman þótti vel heppnuð og Brimkló hlaut tvær tilnefningar fyrir Íslensku tónlistarverðlaunin, sem plata ársins og Björgvin sem söngvari ársins í flokki dægurtónlistar.

Brimkló hélt áfram að spila og ballstaðir á höfuðborgarsvæðinu, Players, Broadway og þess konar staðir urðu aðalvettvangur sveitarinnar. Það var þó ekki um neina samfellda spilamennsku að ræða heldur einungis með reglulegu millibilli. Sveitin fór aukinheldur í hljóðver vorið 2005 og sendi frá sér lagið Dansinn á safnplötunni Svona er sumarið 2005, en það ár lék sveitin mestmegnis í Reykjavík og nágrenni.

Árið 2006 var sveitin enn starfandi þótt lengra liði á milli gigga og enn lengra á árinu 2007. Fimm ár liðu svo áður en safnplata var gefin út í tilefni af fjörutíu ára afmælis sveitarinnar, árið 2012. Hún fékk titilinn Brimkló 40 ára: síðan eru liðin mörg ár (1972-2012) og var tvöföld með alls fjörutíu og fjórum lögum.

Síðan 2012 hefur lítið heyrst til sveitarinnar en þó skyldu menn aldrei segja aldrei, dánarvottorð hefur alltént aldrei verið gefið út.

Eins og gefur að skilja er lög Brimklóar að finna á mörgum tugum safnplatna en einnig hafa nokkur lög sveitarinnar gengið í endurnýjun lífdaga, þegar hefur verið nefnt þegar þeir Björgvin og Stefán Hilmarsson endurgerðu Síðan eru liðin mörg ár en lög eins og Sagan af Nínu og Geira og Eitt lag hafa komið út í meðförum Á móti sól, Þjóðvegurinn með Elínu Ey og Pétri Ben o.s.frv.

Það er því ljóst að þrátt fyrir skot Bubba og fleiri á Björgvin og Brimkló, að þá er sveitin klárlega meðal stærstu hljómsveita íslenskrar tónlistarsögu, mörg laga sveitarinnar voru erlendir slagarar með þýddum textum og þóttu ekki merkilegir á sama tíma og flytjendur eins og Stuðmenn, Spilverk þjóðanna, Bubbi, Megas og margir aðrir gáfu eingöngu út frumsamið efni en vinsældir laganna og líftími þeirra segja mikið um lög sveitarinnar. Enn í dag má heyra lög eins og Ég las það í Samúel, Eitt lag enn, Stjúpi, Rock‘n roll öll mín bestu ár, Þjóðvegurinn, Síðasta sjóferðin og Síðan eru liðin mörg ár, og engum dettur í hug að þar sé á ferð eitthvert drasl.

Efni á plötum