Vísnavinir [félagsskapur / útgáfufyrirtæki] (1976-97)

Forsvarsmenn Vísnavina 1981

Vísnavinir var öflugur félagsskapur tónlistarfólks á síðasta fjórðungi tuttugustu aldarinnar, hélt uppi öflugri tónleikahefð og útgáfu auk þess að ala af sér fjöldann allan af tónlistarfólki sem síðar varð í fremstu röð íslenskrar tónlistarsögu, meðal þeirra má nefna hér örfáa s.s. Bubba Morthens, Eyjólf Kristjánsson, Önnu Pálínu og Aðalstein Ásberg og Inga Gunnar Jóhannsson. Félagið hafði allt í senn, félagsstarf, tónleikaröð og -hátíðir og plötu- og kassettuútgáfu á sínum snærum auk þess að kynda og ýta undir þjóðlagahefðina hérlendis.

Vísnavinir voru stofnaðir að fyrirmynd norrænna félaga af sömu tegund þótt um eiginlega vísnasöngvahefð væri ekki að ræða hérlendis líkt og í Skandinavíu. Norrænir gestir höfðu stöku sinnum komið hingað til lands til tónleikahalds og eftir eina slíka tónleika í Norræna húsinu í nóvember 1976 var stofnaður félagsskapur í anda systurfélaganna. Hugmyndin hafði komið upp um sumarið og voru þau Hanne Juul (frá Danmörku) og Hjalti Jón Sveinsson þar fremst í flokki ásamt Gísla Helgasyni og Stefáni Andréssyni en um tuttugu manns komu að stofnun félagsins sem hlaut nafnið Vísnavinir, Bryndís Júlíusdóttir var fyrsti formaður félagsins. Markmið Vísnavina var fyrst og fremst að efla áhuga almennings á vísna- og þjóðlagaflutningi.

Strax í kjölfarið fóru Vísnakvöld Vísnavina af stað en þau voru lengst af haldin mánaðarlega, fyrst um sinn í kjallara Tónabæjar en síðan á Hótel Borg og Þjóðleikhúskjallaranum og víðar s.s. á sjúkrastofnunum og fangelsum – jafnvel úti í Viðey. Borgin og Þjóðleikhúskjallarinn voru þó yfirleitt höfuðvígi Vísnakvöldanna og var mætingin yfirleitt mjög góð, allt að þrjú hundruð manns. Fljótlega fyllti fjöldi félagsmanna hundraðið og lengst af voru þeir reyndar nær öðru hundraðinu næstu árin.

Á Vísnakvöldunum kenndi ýmissa grasa, tónlistaratriðin voru lang fyrirferðamest þótt einnig kæmu fram ljóðskáld og lásu ljóð sín auk þess sem kvæðamenn kváðu stöku sinnum rímur á þessum kvöldum. Reyndar mun sá misskilningur hafa verið uppi í byrjun að Vísnavinir væri einhvers konar rímnafélag í anda Kvæðamannafélagsins Iðunnar en því fór fjarri, þarna var mestmegnis um tónlistarfólk að ræða.

Flestir fluttu frumsamið efni á Vísnakvöldunum og komu sér þannig á framfæri sem þau hefðu kannski ekki gert með öðrum hætti, þannig kom Bubbi Morthens stundum fram á Vísnakvöldum á þessum upphafsárum félagsskaparins en einnig má nefna nöfn eins og Gísla Helgason, Önnu Pálínu Árnadóttur, Aðalstein Ásberg Sigurðsson, Arnald Arnarson, Hjördísi Bergsdóttur, Bergþóru Ingólfsdóttur, Gísla Þór Gunnarsson (G.G. Gunn), Helgu Möller, Bergþóru Árnadóttur, Stein Kárason, Inga Gunnar Jóhannsson, Eyjólf Kristjánsson og Huldu Runólfsdóttur. Sum þeirra sjóuðust þarna á sviði Vísnakvöldanna og urðu stærri nöfn en einnig kom fram tónlistarfólk sem var þekkt fyrir s.s. Ási í Bæ, Sigfús Halldórsson, Róbert Arnfinnsson, Hörður Torfa, Árni Johnsen og jafnvel Atli Heimir Sveinsson, svo fjölbreytnin var mikil. Hér má einnig nefna söngkonuna Andreu Gylfadóttur sem kom fram sem fiðluleikari í þjóðlagasveitinni Brotnum bogum frá Akranesi og Rannveigu Fríðu Bragadóttur (síðar óperusöngkona) sem söng eigin lög og ljóð á Vísnakvöldi. Einstaklingar, litlir og stærri sönghópar og hljómsveitir, og jafnvel kórar tróðu upp á þessum kvöldum. Þá bauðst gestum Vísnakvöldanna að koma upp á svið og troða upp, og gerðist það oft að fólk utan úr sal sté á stokk með hljóðfæri meðferðis og flutti frumsamið efni utan auglýstrar dagskrár.

Frá Vísnakvöldi Vísnavina

Erlendir gestir voru jafnframt tíðir á Vísnakvöldum, einkum frá hinum Norðurlöndunum en einnig voru haldnir sérstakir tónleikar með slíkum gestum, jafnvel vísnahátíðir. Vísnavinir héldu t.a.m. utan um slíka norræna hátíð, Vísland ´85 sem haldin var á Laugarvatni en síðar voru norræna hátíðir haldnar hér á vegum félagsins í samstarfi við Norræna húsið og Norræna félagið árin 1992, 94 og 96, þá var haldin hér á landi frönsk vísnahátíð í samstarfi við Alliance Francaise árið 1994. Á þeim tíma hafði þó önnur starfsemi á vegum félagsins að mestu lagst niður.

Vísnavinir héldu aukinheldur tónleika og vísnahátíðir víða um land til að kynna starfsemi sína, félagið var nátengt vinstri hreyfingunni og herstöðvarandstæðingum þótt það væri langt frá því að vera pólitískt, og sumarið 1981 fór t.d. sex manna hópur Vísnavina í samstarfi við Menningar- og fræðslusamband alþýðu um landsbyggðina og skemmti með tónlistarflutningi á fundum sem haldnir voru á vinnustöðum, tónleikahald var svo á kvöldin. Þeir Vísnavinir sem þar voru á ferð höfðu starfað með Texas tríóinu og Tríó túkall en bæði tríóin höfðu skemmt á Vísnakvöldum í höfuðborginni, þarna sameinuðust sveitirnar undir Vísnavina-nafninu en tóku síðar upp nafnið Hálft í hvoru. Þessi ferð var langt frá því að vera eina landsbyggðarferðin sem Vísnavinir stóðu fyrir, t.d. höfðu þeir farið um austanvert landið 1978 og svo miklu oftar bæði fyrr og síðar. Vísnavinir fóru jafnvel út fyrir landsteinana til að kynna sig og tónlist sína, og t.d. fór um tuttugu manna hópur á vegum félagsins á vísnasöngvamót í Svíþjóð til þess.

Vísnavinir stóðu í margs konar samstarfi þann tíma sem félagið starfaði og árið 1981 stofnaði það ásamt Jazzvakningu, SATT og Félagsstofnun stúdenta, félagasamstarf sem gekk undir nafninu N.E.F.S. (Ný (og) efld félagsstofnun stúdenta) en það starfaði einungis í fáeina mánuði. Vísnavinir stóðu einnig að því ásamt fleirum að kaupa húsnæði við Vitastíg sem síðan gegndi ýmis konar hlutverkum, allt frá því að vera félagsheimili tónlistarmanna upp í það að vera tónleikastaður. Þá voru Vísnavinir ennfremur í samstarfi um útgáfu tímritsins TT (Tónlistartímaritið) sem kom út í fáein skipti árin 1981 og 82.

Einhverjar tilraunir voru gerðar til að stofna Vísnavina-deildir úti á landi en afar litlar heimildir er að finna um þær. Svo virðist sem slík deild hafi verið starfandi á Ísafirði 1988 og önnur á Bíldudal 1990, sú síðarnefnda gæti þá hafa verið starfandi um nokkurn tíma og eins gæti verið um sama félagið að ræða á Ísafirði og Bíldudal þótt það hljóti að teljast ólíklegt. Þá mun hafa verið félag á Egilsstöðum á níunda og tíunda áratugnum sem gekk undir nafninu Héraðsvísnavinir og starfað hafði með hléum frá 1986, sú deild var enn starfandi 1998 en gæti þess vegna hafa verið alveg óháð starfandi Vísnavinunum á höfuðborgarsvæðinu, á Austfjörðum voru einnig starfandi Fjarðarvísnavinir. Að lokum finnast heimildir um Vísnavini, hóp söng-, leik- og ljóðaunnenda á Djúpavogi seint á öldinni. Allar frekari upplýsingar um landsbyggðarfélögin má senda Glatkistunni.

Vísnakvöldin voru margoft hljóðrituð og vorið 1980 sendu Vísnavinir frá sér kassettuna Vísnakvöld I: Sept. – Des. 1979 en hún hafði, eins og titillinn gefur til kynna að geyma upptökur frá haustinu 1979. Þar voru meðal flytjenda Bubbi Morthens, Ási í Bæ, Bergþóra Árnadóttir og fleiri en þetta mun hafa verið frumraun Bubba á útgáfusviðinu, fáeinum vikum síðar kom sólóplata hans, Ísbjarnarblús út. Kassettan fór ekki hátt en hún hlaut þokkalega dóma í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar.

Vísnavinir

Síðar það sama ár, haustið 1980 kom út önnur snælda, Vísnakvöld II: 1980 og hafði hún sömu forskrift og hin fyrri, upptökur frá Hótel Borg með ýmsum flytjendum s.s. Jóhannesi Hilmissyni, Kjartani Ragnarssyni, Wilmu Young, Agli Ólafssyni og mörgum fleirum, hún fékk slakari dóma í Poppbók Jens.

Kassetturnar voru síðan seldar á Vísnakvöldunum en þær eru löngu ófáanlegar og ganga kaupum og sölum meðal safnara. Ekki varð meira úr kassettuútgáfu að sinni en um svipað leyti voru uppi áform um að gefa út söngbók, ekki liggur þó fyrir hvort af þeim áformum varð.

Útgáfusögu Vísnavina var þó hvergi nærri lokið, hópurinn sem farið hafði um landsbyggðina með Menningar- og fræðslusambandi alþýðu hafði tekið upp nafnið Vísnavinir í ferðinni, og það samstarf leiddi af sér plötuna Heyrðu: lög með Vísnavinum sem tekin var upp snemma vors 1981 í Stúdíó Stemmu af Sigurði Rúnari Jónssyni og Guðmundi Árnasyni (sem hafði verið öflugur í starfi Vísnavinanna), og gefin út um sumarið. Þar voru á ferðinni sexmenningarnir Bergþóra Árnadóttir, Eyjólfur Kristjánsson, Ingi Gunnar Jóhannsson, Gísli Helgason, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Örvar Aðalsteinsson sem fluttu eigið efni með aðstoð annarra Vísnavina o.fl. Platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og fyrrgreindri Poppbók.

Árið 1986 kom út önnur plata undir merkjum Vísnavina undir titlinum Að vísu…., hún kom út í tilefni af tíu ára afmæli félagsins og hafði að geyma lög úr ýmsum áttum. Vísnavinir höfðu auglýst samkeppni í tilefni afmælisins þar sem fólki gafst kostur á að senda inn lög og texta og var síðan ætlunin að gefa út plötu með afrakstrinum. Lítil fjölmiðlaumfjöllun var um þessa keppni en hana sigraði Guðbergur Ísleifsson og er lag hans, Elsku póstur, að finna á plötunni og virðist sem þar sé um sigurlag keppninnar að ræða. Um önnur lög plötunnar liggja engar upplýsingar, s.s. hvort þau koma úr sömu samkeppni en flest nafnanna á plötunni eru kunn úr Vísnavina-hópnum. Fyrsta lag plötunnar, Breytir borg um svip (sem flutt er og samið af Kristínu Lilliendadl) hafði lent í öðru sæti í samkeppni um Reykjavíkurlag í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkur-borgar en engar skýringar er að finna á því hvernig það lag lenti á plötu Vísnavina. Lagið naut hins vegar töluverðra vinsælda og heyrist ennþá reglulega leikið í útvarpi. Upptökur fóru fram víða um borg og margir komu að þeim, Eyjólfur Kristjánsson og Aðalsteinn Ásberg önnuðust upptökustjórn og fékk platan ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Á tíu ára afmælinu árið 1986 var Jónas Árnason gerður að heiðursfélaga í félaginu, áður höfðu Ási í Bæ (Ástgeir Ólafsson) og Ásgeir Ingvarsson verið gerðir að sams konar heiðursfélögum en ekki liggja fyrir upplýsingar um fleiri slíka. Fleira var gert í tilefni af tíu ára afmælinu, gefið var út afmælisrit og þrennir tónleikar voru haldnir í Norræna húsinu og var platan nýútkomna seld við þau tækifæri einnig.

Þó svo að Vísnavinir gæfu ekki út fleiri plötur undir því nafni komu út tveir titlar undir merkjum Vísnavina-plötuútgáfunnar, platan Áfram með Hálfu í hvoru hafði komið út 1983 en einnig kom út áðurnefnd kassetta með Ása í Bæ 1986. Þá hafði félagið opnað það sem þeir kölluðu Afurðasölu Vísnavina í JL-húsinu svokallaða að Hringbraut 119, en þar seldu þau útgefnar plötur sínar auk annars varnings.

Segja má að eftir stórafmæli Vísnavina árið 1986 hafi starfsemin smátt og smátt verið farin að dofna, félagið var að vísu nokkuð virkt það árið, það var t.d. með útvarpsþætti um tíma í Ríkisútvarpinu þar sem vísnatónlist fékk að njóta sín, og reyndar hefur RÚV undir höndum heilmikið af efni sem tekið var upp á Vísnakvöldum og enn koma stöku sinnum fyrir þættir á dagskrá útvarpsins þar sem upptökur eru leiknar frá slíkum samkomum.

1987 stóðu Vísnavinir fyrir eins konar söngvakeppni í framhaldsskólum landsins og má segja að hún hafi verið undanfari Söngkeppni framhaldsskólanna sem varð að veruleika þremur árum síðar. Fyrst voru haldnar undankeppnir í skólunum sjálfum en úrslitakvöld var síðan haldið í apríl í Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem Tindur Hafsteinsson úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ sigraði. Um það leyti voru Vísnakvöldin að mestu hætt en Vísnavinir stóðu þó fyrir opnum kvöldum þar sem hver og einn gat troðið upp – áhuginn hafði þá minnkað nokkuð fyrir þess konar samkomum.

Segja má að starfsemi Vísnavina hafi legið að miklu leyti niðri næstu þrjú árin, að vísu kom út kassetta á vegum þeirra með Ása í Bæ, Ó fylgdu mér í Eyjar út, um vorið 1989 en Ási hefði orðið 75 ára gamall í febrúar það ár. Að öðru leyti var ekkert að gerast fyrr en 1991 að ákveðið var að blása krafti í félagið á nýjan leik, það sumar voru Vísnavinir t.d. á ferð í Atlavík um verslunamannahelgina og veturinn á eftir var efnt til Vísnakvölda á nýjan leik, það var þó með veikum mætti enda var áhuginn fyrir Vísnakvöldunum í upphafi tíunda áratugarins enginn í líkingu við það sem verið hafði áratug áður.

Starfsemin var einhver næstu árin, það sem bar hæst voru norrænar vísnavikur 1992, 94 og 96 sem áður eru nefndar en tilraunir til að endurvekja Vísnakvöldin báru takmarkaðan árangur þrátt fyrir nokkrar tilraunir. 1993 voru Vísnavinir í samstarfi við Leikfélag Reykjavíkur um afmælisdagskrá í tilefni af 70 ára afmæli Jónasar Árnason en smám saman fjaraði endanlega undan félagsskapnum og líklega lagðist starfsemin alveg niður í kringum 1997. Vísnavinir hafa þó líklega aldrei verið formlega lagðir niður.

Enginn skal efast um það sem Vísnavinir áorkuðu á sínum tíma, líflegt tónleikastarf, útgáfa, útbreiðsla vísna- og þjóðlagatónlistar, auk hvatningar til ungra tónlistarmanna ól af sér blómlegt starf og margt af því tónlistarfólki sem sté sín fyrstu spor á tónlistarbrautinni á þessum árum gerðu það fyrir áeggjan og tilstilli Vísnavina, sumir þeirra hafa orðið að stórum nöfnum í íslensku tónlistarlífi og margir eru enn að.

Efni á plötum