Vísnakvöld [tónlistarviðburður] (1976-94)

Frá Vísnakvöldi

Félagsskapurinn Vísnavinir stóðu fyrir samkomum á sínum tíma sem gengu undir heitinu Vísnakvöld. Slík kvöld voru haldin mánaðarlega yfir vetrartímann þegar starfsemi félagsins var sem öflugust, það var á árunum 1976 til u.þ.b. 1987 en síðan fjaraði undan félaginu smám saman og síðasta Vísnakvöldið var líklega haldið 1994 þótt félagið starfaði vissulega eitthvað áfram.

Vísnakvöldin voru yfirleitt haldin á Hótel Borg eða Þjóðleikhúskjallaranum en fleiri staðir komu einnig til sögunnar, mestmegnis voru það tónlistarmenn innan félagsins, trúbadorar og hljómsveitir sem héldu uppi dagskránni en einnig gafst tónleikagestum kostur á að troða upp með tónlistaratriði, um tíma voru jafnvel haldin opin kvöld sem voru eingöngu fyrir fólk í salnum, þ.e. í raun engin fyrirfram auglýst dagskrá. Ljóðalestur og fleira kom einnig við sögu Vísnakvölda.

Vísnakvöldin voru stundum hljóðrituð af Ríkisútvarpinu og á stofnunin í fórum sínum nokkuð af upptökum frá slíkum kvöldum, þær hafa stundum verið spilaðar í útvarpsþáttum sem eru þá helgaðir þessari tegund tónlistar. Einnig gáfu Vísnavinir út tvær kassettur með efni frá Vísnakvöldum, þær báru titlana Vísnakvöld I: Sept. – Des. 1979 og Vísnakvöld II: 1980, og komu út árið 1980. Kassetturnar voru seldar á samkomum Vísnavina en eru nú löngu ófáanlegar.

Efni á plötum