Weghevyll (1994-95)

Weghevyll

Hljómsveitin Weghevyll (ýmis konar ritháttur fylgdi nafni sveitarinnar s.s. Weghefill, Veghevyll, Weghefyll o.s.frv.) starfaði á árunum 1994 og 95 er hún keppti í tvígang í Músíktilraunum Tónbæjar, sveitin var af höfuðborgarsvæðinu.

Vorið 1994 voru meðlimir sveitarinnar þeir Birkir Rúnar Gunnarsson trommuleikari, Ólafur Páll Jónsson bassaleikari, Þór Marteinsson gítarleikari, Ágúst Arnar Einarsson gítarleikari og Gunnar Ingi Björnsson söngvari. Það vakti nokkra athygli að Birkir trymbill sveitarinnar var blindur en það háði hvorki honum né sveitinni.

Ári síðar mætti Weghevyll aftur til leiks í tilraunirnar en þá hafði Gunnar söngvari sagt skilið við sveitina og Guðmundur H. Jónsson tekið við sönghlutverkinu. Sveitin komst nú í úrslit keppninnar en þeim áfanga höfðu þeir Weghevyls-liðar ekki náð í fyrra skiptið.

1994 var sveitin sögð leika Seattle rokk en ári síðar var tónlist hennar skilgreind sem eins konar þjóðlagapopp.