Scope (1993-95)

scope

Scope

Hljómsveitin Scope gerði það ágætt þann tíma sem hún starfaði á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar en það er einkum stórsmellurinn Was that all it was, sem heldur minningu sveitarinnar á lofti.

Scope var stofnuð snemma á árinu 1993 þegar Grétar Ingi Gunnarsson, Sveinbjörn Bjarki Jónsson og Margeir Ingólfsson fóru að skapa danstónlist saman, Margeir (Dj Margeir) og Grétar (Dj Grétar) voru plötusnúðar en Bjarki lék á hljómborð og tölvur.

Svala Björgvinsdóttir söngkona, þá á menntaskólaaldri, bættist í hópinn um sumarið 1993 en hún hafði þá nokkrum árum áður slegið í gegn með jólasmellinum Ég hlakka svo til, fram að því hafði Scope verið instrumantal band. Birkir Björnsson var ennfremur í sveitinni um tíma en ekki liggur fyrir hvenær hann bættist við.

Með Svölu innanborðs fór boltinn að rúlla og sveitin sendi frá sér nokkur lög á safnplötum eins og Trans dans 2, Trans dans 3 og Heyrðu aftur ´94 á árunum 1994 og 95, þeirra á meðal var endurgerð af gamla diskósmellinum Was that all it was sem Jean Carne hafði gert vinsælt en lagið sló rækilega í gegn í meðförum Scope og varð einn af stórsmellum ársins 1994.

Studd og bókuð af umboðsmanni sínum, Björgvini Halldórssyni föður Svölu, fór Scope um víðan völl og spilaði á ýmsum böllum um land allt ásamt viðlíka sveitum, og hitaði einnig upp fyrir erlendar sveitir eins og St. Etienne og Prodigy sem heimsóttu landann á þessum árum.

Þegar Svala hætti í Scope snemma vors 1995 og gekk til liðs við Bubbleflies má segja að sveitin hafi lagt smám saman upp laupana.