Flo´ (1993-97)

Flo´

Dúóið Flo´ (einnig ritað einfaldlega Flo) vakti nokkra athygli vorið 1996 þegar það var meðal keppenda í Músíktilraunum Tónabæjar en þeir munu hafa verið fyrsta technosveitin sem birtist þar, léku það sem var skilgreint sem ambient skotið techno. Það voru þeir Jóhannes Árnason og Björn Ófeigsson sem skipuðu Flo´ en þeir höfðu byrjað að vinna tónlist saman síðla árs 1993, ekki liggur þó fyrir hvenær þeir tóku upp þetta nafn.

Flo´ komst í úrslit Músíktilraunanna án þess þó að skipa sér þar á pall, í framhaldinu spilaði sveitin eitthvað opinberlega og m.a. léku þeir ásamt fleirum það sem kallað var „umhverfistónlist“ undir kvikmyndasýningum í Tjarnarbíói á listahátíðinni Unglist um sumarið.

Um haustið 1996 átti sveitin lag á tvöföldu safnplötunni Icelandic dance sampler en annað mun ekki hafa komið út með dúóinu, þeir félagar störfuðu eitthvað fram eftir árinu 1997 en síðan virðast þeir hafa hætt störfum undir þessu nafni.