Mánar [3] (1965-)

Mánar

Mánar frá Selfossi var ein stærsta bítla- og hipparokkssveit Íslands á sínum tíma, líklega fór þó nokkuð minna fyrir sveitinni en ella þar sem hún var utan af landi og kom sér þ.a.l. minna á framfæri á höfuðborgarsvæðinu. Vígi sveitarinnar var Suðurland, og oftast er talað um að stærstu og frægustu hljómsveitir landsins hefðu ekki vogað sér að leika á sveitaballi í landsfjórðungnum væru Mánar að spila þar sama kvöld – svo öflug var sveitin fyrir austan fjall. Mánar sendu frá sér tvær smáskífur og eina breiðskífu í kringum 1970 þegar hún var upp á sitt besta en sveitin var endurvakin eftir aldamótin og sendi frá sér plötu fyrir ekki svo löngu. Svo ótrúlegt sem það hljómar eru þekktustu lög Mána langt frá því að vera í anda tónlistarinnar sem sveitin lék á sínum tíma.

Gítarleikararnir Guðmundur Benediktsson og Ólafur Þórarinsson (Labbi) höfðu starfað um nokkurra ára skeið við þriðja mann í Bimbó tríóinu sem var unglingaband á Selfossi, rétt eins og Ólafur Bachmann trommuleikari og Björn Gíslason bassaleikari sem voru í hljómsveit með áþekktu nafni, Limbó ásamt fleirum. Vorið 1965 runnu sveitirnar tvær saman í eitt og urðu að Mánum, og var jómfrúargigg hinnar nýju sveitar á Laugarvatni en þar var haldið landsmót ungmennafélaganna um sumarið. Einnig gæti Stefán Ásgrímsson hafa komið lítillega við sögu sveitarinnar í blábyrjun.

Næstu mánuðina hófu Mánar að skapa sér nafn og varð fljótlega þekkt, það þekkt að samnefnd sveit fyrir norðan tók upp nýtt nafn til að koma í veg fyrir rugling. Sveitin mun m.a. hafa hitað upp fyrir hina sunnlensku Hljómsveit Óskars Guðmundssonar sem þá var stærsta sveitaballabandið á svæðinu og um haustið lék sveitin á stórdansleik á Flúðum ásamt Hljómum og Töktum en Hljómar voru þá á hátindi frægðar sinnar.

Mánar 1966

Um tíma söng Haraldur Sigurðsson (HLH-flokkurinn, Halli og Laddi o.fl.) með sveitinni árið 1966 en þeir Labbi, Guðmundur og Ólafur trommuleikari skiptu annars með sér söngnum. Þeir léku sem fyrr segir mestmegnis til að byrja með á heimaslóðum í Árnessýslunni en síðan fóru þeir að fikra sig lengra um Suðurlandið og jafnvel á höfuðborgarsvæðið en þeir léku í fyrsta sinn í Glaumbæ haustið 1966. Mánar urðu því smám saman stærra nafn og eins og segir hér að framan veigruðu stærri bönd sér við að leika á dansleikjum á Suðurlandi ef sveitin var að spila, það var þó að mestu bundið við Suðurlandið en hún fór sjaldan langt út fyrir landsfjórðunginn, þeir léku þó á stórum tónleikum í Austurbæjarbíói snemma árs 1967.

Mannabreytingar urðu nokkrar í Mánum og haustið 1967 hafði Björn bassaleikari sagt skilið við sveitina en sæti hans tók Smári Kristjánsson, um það leyti hafði sveitin verið auglýst sem Mánar og Arnór en engar upplýsingar liggja fyrir um hann. Í blaðaviðtali sögðust þeir félagar vera farnir að huga að plötuútgáfu en þá voru enn tvö ár í þeirra fyrstu plötu.

Árið 1968 voru Mána-liðar þeir Ólafur (Labbi) gítarleikari, Guðmundur gítar- og nú einnig orgelleikari, Ólafur trommuleikari og Smári bassaleikari, þeir félagar styrktu enn stöðu sína á Suðurlandi og árið eftir gerðust þeir einnig svo frægir að leika á frægri popphátíð þar sem Björgvin Halldórsson var kjörin „popstjarna ársins“. Þá lék sveitin í fyrsta sinn í sjónvarpsþætti sem var í umsjá Svavars Gests en Svavar átti eftir að gefa út plötur þeirra undir merkjum SG-hljómplatna. Um þetta leyti hætti Guðmundur í Mánum og kom Björn Þórarinsson bróðir Labba í stað hans inn í sveitina sem orgelleikari. Þannig skipuð höfðu Mánar farið í upptökusal Ríkisútvarpsins um haustið 1969 og tekið upp tvö lög (sem þeir höfðu einmitt flutt í sjónvarpsþættinum) sem komu út á smáskífu fljótlega á nýju ári (1970). Lögin hétu Einn, tveir, þrír og Útlegð og voru sungin af Ólafi (Labba) og Ólafi trommuleikara en Labbi hafði samið bæði lögin.

Bítlasveitin Mánar

Um það leyti sem platan var að koma út hætti Ólafur trommuleikari í Mánum og tók Pétur Pétursson sæti hans, hann hafði leyst Ólaf af í fáein skipti sumarið á undan en staldraði sjálfur stutt við í sveitinni og kom nú Skagamaðurinn Ragnar Sigurjónsson til sögunnar en hann hafði þá leikið með Dúmbó og Steina um tíma.

Tónlistin Mána breyttist nokkuð og lá hippaandinn yfir vötnum enda voru þá helstu áhrifavaldar sveitir á borð við Deep Purple, Led Zeppelin, Uriah Heep og Jethro Tull, Labbi var t.a.m. einnig farinn að leika á flautu auk gítarsins, og þegar Mánar fóru aftur til Péturs Steingrímssonar í hljóðver Ríkisútvarpsins síðsumars var tónlistin töluvert þyngri en á plötunni á undan en þá hafði einn gagnrýnenda líkt tónlist þeirra við Creedence Clearwater Revival. Nýja platan var tveggja laga eins og hin fyrri (Þú horfin ert / Frelsi) og fékk hún mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Vísi, og þokkalega í Vikunni. Labbi samdi bæði lögin auk þess að syngja þau.

Haustið 1970 fóru Mánar til Færeyja og spiluðu þar en að öðru leyti gekk allt sinn vanagang, sveitin lék á sveitaböllum hér heima og átti sinn tryggasta aðdáendahóp á heimaslóðum. Bandaríska söngkonan Mary McDowell gekk til liðs við sveitina og söng með henni í nokkra mánuði, m.a. í sjónvarpsþætti í febrúar 1971 og hinni frægu Saltstokk hátíð í Saltvík um hvítasunnuhelgina. Þeim félögum fannst hún þó ekki passa alveg við heildarmyndina hjá sér og þegar hún hætti í sveitinni um sumarið kom Guðmundur Benediktsson aftur inn í Mána sem píanóleikari og söngvari, þar með hafði sveitin á að skipa bæði orgelleikara og píanóleikara líkt og Trúbrot um svipað leyti. Þess má geta að þeir bræður, Labbi og Björn starfræktu um þetta leyti verkstæði þar sem þeir smíðuðu yfirbyggingar yfir bíla og starfaði Smári hjá þeim á verkstæðinu þannig að segja má að þeir þrír hafi verið saman öllum stundum.

Mánar 1967

Svavar Gests hjá SG-hljómplötum kostaði Mána nú til plötuupptöku í Metronome og Rosenberg hljóðverunum í Kaupmannahöfn undir stjórn Gunnars Þórðarsonar en þangað lá leiðin um haustið 1971. Ellefu laga plata kom síðan út fyrir jólin 1971 og bar nafn sveitarinnar en lítið fór fyrir henni af einhverjum sökum, líklega sá Svavar ekki ástæðu til að leggja út í auglýsingakostnað. Pressa plötunnar þótti ennfremur takast illa og e.t.v. var henni lítið haldið á lofti af þeirri ástæðu, Svavar hafði verið að spara þegar hann lét pressa plötuna hjá norsku „þriðja flokks“ fyrirtæki, eins og meðlimir Mána létu löngu síðar hafa eftir sér. Breiðskífan varð fljótt illfáanleg en var síðan gefin út á geisladisk árið 1992 af Steinum og aftur 2004 af Íslenskum tónum, þá var skífan endurútgefin ólöglega á vínyl af Breeder Backtrack útgáfufyrirtækinu en ártal þeirrar útgáfu liggur ekki fyrir.

Nokkur laganna á plötunni heyrast reglulega enn spiluð en lagið Leikur að vonum þó sýnu mest, það lag var þó léttasta lag plötunnar og svolítið á skjön við önnur lög hennar. Labbi samdi flest laganna en Guðmundur og Björn komu þar einnig við sögu, textarnir komu úr ýmsum áttum en Ómar Halldórsson og Jónas Friðrik voru þar fremstir í flokki. Þess má geta að eina instrumental lagið á plötunni, Prelúdía í A moll var síðar notuð í lagi XXX rottweiler hunda, Stígið upp (á plötu samnefndri sveitinni frá 2001), og naut þannig töluverðra vinsælda.

Á sveitaballi sumarið 1972

Um þetta leyti var eins konar vitundarvakning í gangi tengt kristni og áhuga á trúarbrögðum almennt, rokkóperan Jesus Christ superstar hafði verið frumsýnd 1971 og hér á landi birtist þessi vakning m.a. í aukinni kirkjusókn, þegar páskavaka var haldin í Selfosskirkju vorið 1972 fluttu Mánar þar þriggja laga frumsamda lagasyrpu sem þeir kölluðu Páskaóratoríu, að viðstöddum um fimm hundruð manns en fullskipuð kirkjan tók þá um þrjú hundruð í sæti. Annars spilaði sveitin mikið þetta sumar, þeir félagar urðu reyndar fyrir blóðtöku um haustið þegar Ragnar trommuleikari hætti í sveitinni til að ganga til liðs við nýstofnaða Brimkló en sæti hans tók enginn annar en Gunnar Jökull Hákonarson, sem þá hafði gert garðinn frægan með Trúbrot. Jökullinn staldraði reyndar stutt við og þegar hann hætti kom gamli trommarinn Ólafur Bachmann inn í Mána að nýju.

Um haustið var gert opinbert að Jesus Christ superstar yrði sett á fjalirnar í Iðnó eftir áramótin og var Guðmundur ráðinn í hlutverk Jesú Krists, auk þess var Labbi í sýningunni. Sökum þess var sveitin lítið á ferðinni á fyrri hluta árs 1973, reyndar var Ólafur trommuleikari nokkuð í sviðsljósinu það árið en hann söng þá lagið Minning um mann með hljómsveitinni Logum en gefin var út tveggja laga plata til styrktar Vestmannaeyingum sem þá höfðu þurft að flýja Heimaey vegna eldgoss þar. Lagið varð feikivinsælt og er reyndar fyrir löngu síðan orðið sígilt. Mánar léku á útihátíðinni Vor í dal sem haldin var um hvítasunnuhelgina en öðru leyti fór lítið fyrir sveitinni um sumarið og svo fór að fréttir bárust um haustið að sveitin væri að hætta.

Mánar 1974

Það fór þó ekki svo að þeir félagar færu í sína hverja áttina því þeir Smári, Labbi og Guðmundur fóru strax að vinna að nýrri sveit um haustið ásamt Sigurjóni Skúlasyni, nýjum trommuleikara, og hlaut hún nafnið Blóðberg, sú sveit eða öllu heldur nafn hennar varð fremur skammlíft því fljótlega eftir áramótin 1973-74 breyttu þeir nafni sveitarinnar á nýjan leik í Mána. Í kjölfarið breyttust áherslurnar í tónlistinni hjá sveitinni og ballprógrammið varð töluvert léttara.

Sumarið 1974 hætti Smári bassaleikari í Mánum og Pálmi Gunnarsson sem einmitt hafði starfað með Labba og  Guðmundi í Jesus Christ superstar tók sæti hans. Um haustið tók sveitin um tvö lög sem síðan rötuðu á safnplötuna Hrif og náði annað þeirra nokkrum vinsældum, það var lagið Á kránni sem var töluvert langt frá hipparokkinu sem einkennt hafði Mána um 1970.

Smám saman fjaraði á nýjan leik undan Mánum, sveitin kom lítið við sögu sveitaballa árið 1975, lék eitthvað á böllum um sumarið en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort liðsskipan hennar var eitthvað breytt. Í ágúst sögðust þeir félagar ætla að draga sig í hlé án þess þó að hætta en þeir stefndu þá á að gera nýja plötu. Sú plata leit ekki dagsins ljós en í byrjun árs 1976 hætti sveitin og um haustið gekk Labbi til liðs við Björn bróður sinn sem hafði þá starfrækt hljómsveitina Kaktus um skeið, Smári Kristjánsson bættist síðar í þá sveit einnig.

Tíminn leið og þótt Mánar væru liðnir undir lok var þó alltaf smá neisti milli þeirra félaga, og þeir komu saman í nokkur skipti svo erfitt er að segja að sveitin hefði hætt endanlega störfum. Árið 1978 léku þeir á einum dansleik um sumarið, þá voru í bandinu Labbi, Björn, Guðmundur, Ragnar og Smári sem höfðu verið í sveitinni á blómatíma hennar. Þess má geta að Labbi er sá eini sem hefur verið í sveitinni allt frá upphafi.

Mánar í baði

1980 lék sveitin á styrktartónleikum og tveimur árum síðar einnig á afmælistónleikum tengdum hálfrar aldar afmæli FÍH þar sem þeir fluttu m.a. Uriah heep slagarann July morning, og kom lagið út á plötu sem gefin var út af sama tilefni. Sumarið 1984 var nokkurt lífsmark með sveitinni og lék hún á nokkrum dansleikjum, Pálmi Gunnarsson starfaði þá með þeim sem og ung söngkona sem sungið hafði með Kaktusi en hún var kaupakona hjá Labba sem þá var fluttur á jörðina Glóru í Hraungerðishreppi, söngkonan hét Björk Guðmundsdóttir – aðrir meðlimir sveitarinnar voru þá Labbi, Ragnar og Guðmundur. Mánar komu einnig við sögu á tónlistardagskránni Leitin að týndu kynslóðinni árið 1987 og í kjölfarið lék hún á svokölluðum Mánakvöldum í Inghóli á Selfossi en um eins konar söngdagskrá var að ræða, þar söng Kristjana Stefánsdóttir með Mánum.

Mánar komu lítið við sögu áratuginn eftir þetta en árið 2000 kom sveitin saman í tilefni af því að Labbi varð fimmtugur en alvöru endurkoma var árið 2004 þegar sveitin hitaði upp fyrir bresku sveitina Deep purple í Laugardalshöll. Þar sló sveitin algjörlega í gegn svo aðalsveit kvöldsins féll reyndar nokkuð í skuggann. Mána-liðar hömruðu járnið meðan það var heitt og léku á nokkrum dansleikjum í framhaldinu. Í úttekt sem DV gerði á sveitinni um það leyti var áætlað að Mánar hefðu leikið um 550 sinnum síðan sveitin var stofnuð.

Mánar var þarna orðin að eins konar karlaklúbbi miðaldra tónlistarmanna og hefur starfað með hléum, kjarni sveitarinnar hefur verið Labbi, Björn, Ragnar, Guðmundur og Smári. Í tilefni af fjörutíu ára afmæli sveitarinnar 2005 hélt sveitin tónleika og sendi þá frá sér dvd-disk með upptökum frá tónleikunum í Laugardalshöll með Deep purple en þar var að finna eitt nýtt lag. Síðan hafa Mánar komið reglulega fram, 2015 átti sveitin tvö lög á safnplötunni Gleðilegt sumar! og var annað þeirra endurgerð af laginu Frelsi, og árið 2016 sendi sveitin frá sér plötuna Nú er öldin önnur en hún hafði verið nokkuð lengi í vinnslu. Platan var gefin út á geisladisk og vínyl en vakti ekki mikla athygli, meðal aukahljóðfæraleikara á plötunni má nefna börn þeirra bræðra, Labba og Björns, Bassa og Unni Birnu en einnig má geta að gamla Jethro tull goðsögnin Ian Anderson leikur á flautu á henni.

Mánar eru enn starfandi og hafa reyndar verið heiðraðir í tvígang síðustu árin í heimabyggð sinni Selfossi, þannig hlaut sveitin árið 2008 menningarverðlaun þorrablóts Selfoss, Selfoss-sprotann, og árið 2015 hlaut hún menningarverðlaun Árborgar.

Lög sveitarinnar má eins og nærri má geta finna á fjölmörgum safnplötum sem komið hafa út í gegnum árin, má þar nefna safnplötuseríur eins og Aftur til fortíðar, Svona var það…, Stóra bílakassettan og Óskalögin, en einnig á stökum safnplötum s.s. Rökkurtónar, Blóm og friður, Bítlar og blómabörn og Bítlalög, svo fáein dæmi séu tekin.

Efni á plötum