Synir Raspútíns (1991-94 / 2010-14)

Synir Raspútíns

Margir muna eftir hljómsveitinni Sonum Raspútíns en hún var töluvert áberandi í spilamennsku sinni á fyrri hluta tíunda áratugarins og sendi þá frá sér lag sem naut vinsælda en kom aldrei út á plötu. Nokkrar mannabreytingar voru innan sveitarinnar og sumir meðlima hennar urðu síðar þekktir tónlistarmenn og reyndar einnig á öðrum sviðum mannlífsins.

Synir Raspútíns komu fyrst fram í tengslum við framlag Menntaskólans í Kópavogi í Söngkeppni framhaldsskólanna en sú keppni var haldin í annað sinn snemma vors 1991. Sveitin hafði verið stofnuð í febrúar og þrír meðlimir sveitarinnar, Þeir Kolbeinn Óttarsson Proppé (síðar blaðamaður og alþingismaður), Hafþór Ragnarsson og Kristinn Helgi Schram fluttu eigið lag í keppninni fyrir hönd MK en þá tíðkaðist almennt ekki að flytjendurnir kæmu fram með frumsamið efni. Kolbeinn lék á gítar í atriðinu en þeir Hafþór og Kristinn sungu en Kristinn var þá hljómborðsleikari sveitarinnar. Í þessu keppnisatriði sem er mörgum eftirminnilegt sungu þeir lagið Ánægður (en það hlaut síðar lagið Fjötrar) og fóru þeir söngvarar mikinn í túlkun sinni og stálu í raun senunni í keppninni þrátt fyrir að lúta í lægra haldi fyrir söngkonunni Margréti Eir sem sigraði. Fullskipuð hljómsveit flutti lagið að hluta til með þeim í keppninni en ekki liggur fyrir hvort þar var um að ræða afganginn af Sonum Raspútíns en þessi fyrsta útgáfa hennar skipuðu auk þremenninganna Birgir Jónsson trommuleikari, Jón Ómar Erlingsson bassaleikari og Þröstur Elvar Óskarsson gítarleikari.

Synir Raspútíns voru komnir af stað og héldu á spilamennskumið um sumarið, um það leyti var í hávegum haft afturhvarf til hippatímanna bæði í tónlist og tísku og þeir félagar söfnuðu flestir hári og klæddust mussum í þeim anda en margir muna eftir sveitum eins og Sálinni hans Jóns míns, SSSól og Nýdanskri síðhærðum um það leyti svo ekki sé minnst á Jet Black Joe sem tók tónlistina alla leið í þeim efnum og þar voru Synir Raspútíns að einhverju leyti líka – framsamdar lagasmíðar þeirra voru svolítið í hippaandanum og ábreiðurnar í lagavali þeirra einnig. Sveitin lék á höfuðborgarsvæðinu en einnig úti á landi s.s. á Siglufirði þaðan sem Kolbeinn hafði komið og um verslunarmannahelgina var sveitin á meðal keppnissveita í hljómsveitakeppni í Húnaveri, þá lék sveitin síðsumars á Rykkrokk-hátíðinni í Breiðholti.

Synir Raspútíns 1993

Þeir félagar voru ekki eins áberandi veturinn eftir enda voru þeir á fullu í námi, sveitin starfaði þó áfram þótt þeir léku lítið opinberlega og sumarið 1992 voru þeir meðal þátttökusveita á rokktónleikum í Héðinshúsinu á vegum Óháðu listahátíðarinnar, þá hafði Valur Einarsson tekið við gítarnum af Þresti en Þröstur átti síðar eftir að vera nokkuð áberandi í allt annars konar tónlist með hljómsveit sinni Súrefni.

Í framhaldinu fór aftur minna fyrir Sonum Raspútíns og það var í raun ekki fyrr en vorið 1993 sem að sveitin fór á fullt við spilamennsku á nýjan leik, þá lék hún aftur á tónleikum í Faxaskála á vegum óháðu listahátíðarinnar sem nú bar nafnið Ólétt ´93 og í kjölfarið lék sveitin víða næstu mánuðina, t.a.m. lék hún oft á Gauki á Stöng og svo um fyrstu helgina í júlí á stórum tónleikum í Þjórsárdal sem báru yfirskriftina Íslensk tónlist 1993 og kom út samnefnd safnplata samhliða því. Af einhverjum ástæðum var nafn sveitarinnar ekki að finna á þeirri plötu en sveitin hafði þá hljóðritað lagið úr söngvakeppninni, sem þá hafði hlotið titilinn Fjötrar. Lagið var hins vegar sent á einhverjar útvarpsstöðvar og hlaut nokkra spilun enda mundu margir eftir því frá því í söngkeppninni tveimur árum fyrr, myndband var þá einnig gert við lagið. Líklega voru fleiri lög hljóðrituð á þessum tíma með sveitinni.

Meiri mannabreytingar höfðu þarna orðið á Sonum Raspútíns, Birgir trommuleikari hafði þá yfirgefið sveitina og í hans stað var kominn Baldvin A.B. Aalen en Birgir átti eftir að leika með fjölmörgum þekktum sveitum eftir það og varð reyndar einnig þekktur sem forstjóri ýmissa stórfyrirtækja. Þá hafði Ólafur Þór Kristjánsson bassaleikari komið inn í sveitina fyrir Jón Ómar en sá átti síðar eftir að birtast í Sóldögg og fleiri sveitum (reyndar með Baldvini o.fl.).

Synir Raspútíns 1994

Synir Raspútíns léku nokkuð samfleytt um veturinn 1993-94 og um vorið 1994 var sveitin fulltrúi Íslands á norrænni rokktónlistarhátíð í Svíþjóð, í kjölfarið lék hljómsveitin nokkuð um sumarið hér heima en virðist svo hafa hætt störfum síðsumars. Þeir félagar birtust á nýjan leik vorið 1997 eftir nokkurt hlé og var þá skipuð sömu meðlimum og þremur árum fyrr. Svo virðist sem þá hafi sveitin leikið aðeins einu sinni en horfið að því búnu aftur.

Mörg ár liðu uns Synir Raspútíns vöknuðu aftur af þyrnirósasvefni sínum, það var árið 2010 og svo ári síðar komu þeir fram á nýjan leik eftir langt hlé en sveitin var þá meðal þátttökusveita á afmælishátíð Unglistar. Sveitin starfaði þá áfram í fáein ár, líklega til 2014 og hljóðritaði þá eitthvað af lögum en líklega liggur nokkur fjöldi hljóðritaðra laga tilbúinn með sveitinni þótt óljóst sé hvort það efni muni nokkurn tímann líta opinberlega dagsins ljós. Þó sveitin sé ekki starfandi sem stendur er líklega ótímabært að segja hana hætta störfum, hún heldur úti Facebook-síðu og þar er stöku sinnum að sjá einhvers konar líf.

Þess má geta að lokum að um tíma var eins konar hliðarsveit starfandi innan hljómsveitarinnar undir nafninu Eftirlætissynir Raspútíns og var þar líklega um að ræða minni útgáfu (partíútgáfu?) af sveitinni.