Ævintýri (1969-72)

Ævintýri

Ævintýri

Hljómsveitin Ævintýri var stofnuð 1969 af Arnari Sigurbjörnssyni gítarleikara, Sigurjóni Sighvatssyni bassaleikara og Björgvini Halldórssyni söngvara en Björgvin hafði þá þegar vakið nokkra athygli á söngsviðinu. Þremenningarnir höfðu verið í Flowers sem lagði upp laupana með stofnun Trúbrots og fljótlega bættust í hópinn trommuleikarinn Sveinn Larsson og Birgir Hrafnsson gítarleikari.

Sveitin átti upphaflega að heita Lindberg en Ævintýri varð síðan ofan á.

Tónlist sveitarinnar þótti í byrjun vera nokkuð á skjön við annað sem þá var í gangi en flestar hljómsveitir spiluðu mun þyngra efni en Ævintýri, enda stílaði sveitin fremur inn á yngra fólkið með tónlistarvalið.

Hljómsveitin sló strax í gegn og var m.a. kjörin vinsælasta hljómsveitin á tónlistarhátíðinni Pop-festival ´69 síðla árs, auk þess sem Björgvin var kjörinn vinsælasta poppstjarna ársins við sama tækifæri.

Um þetta leyti kom út tveggja laga smáskífa með sveitinni hjá Tónaútgáfunni en Pétur Steingrímsson tók hana upp í Ríkisútvarpinu. Annars vegar var um að ræða lagið Frelsarinn, sem var útfærsla Þóris Baldurssonar á Pílagrímakórnum úr Tannhäuser eftir Wagner en slíkt var þá í tísku, m.a. var hljómsveitin Trúbrot í svipuðum tilraunum um þær mundir. Nokkuð var lagt í Frelsarann og komu t.a.m. félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands að laginu. Útgáfur beggja sveitanna áttu það sameiginlegt að vera bannaðar í Ríkisútvarpinu.

Hins vegar var það lagið Ævintýri á b-hlið plötunnar sem sló í gegn og er löngu sígilt. Plötunni var einnig vel tekið af gagnrýnendum fjölmiðla og var kjörin smáskífa ársins af blaðamönnum Morgunblaðsins og Tímans. Sveitin naut í kjölfarið mikilla vinsælda og spilaði mikið.

Hljómsveitin Ævintýri

Tónlist Ævintýris tók svo miklum breytingum þegar Sigurður Karlsson tók við trommunum af Sveini en þá þyngdist hún til muna, sveitin fór í pásu og hélt til Lundúna þar sem hún tók upp tvö lög í þungum hippastíl. Þau lög voru gefin út árið eftir (1970) á annarri tveggja laga plötu en hún fékk ekki eins góðar viðtökur enda virtist tónlistin ekki höfða til markhópsins sem sveitin stílaði inn á, unga fólkið. Platan fékk þó mjög góða dóma í Vikunni. Sveitin spilaði mikið áfram og vann að stórri plötu en sú plata kom aldrei út. Sveitin hætti síðan störfum snemma árs 1972.

Sigurður og Birgir áttu í kjölfarið þátt í stofnun hljómsveitarinnar Svanfríðar en Björgvin, Arnar og Sigurjón stofnuðu síðan Brimkló.

Ævintýri kom saman árið 1982 í tilefni af 50 ára afmælis FÍH og var upptaka frá þeirri hátíð gefin út á tvöfalda albúminu FÍH 50 ára, sem kom út af því tilefni. Aðeins voru þó Björgvin og Arnar einu meðlimirnir úr upprunalegu sveitinni á þeim upptökum.

Sveitarinnar verður fyrst og fremst minnst fyrir lagið Ævintýri (e. Time is on my side) sem verður eins konar minnisvarði um hana en það hefur ratað á fjölmargar safnplötur í gegnum tíðina eins og Óskastundin 3, Aftur til fortíðar 60-70 II, Óskalögin 3 og Útileguplata pylsuparsins. Einnig hefur lagið lent á safnplötum Björgvins Halldórssonar, Þó líði ár og öld (1994) og Ár og öld (2005). Einnig hafa nokkrar aðrar hljómsveitir og flytjendur endurvakið þetta fræga lag nokkrum sinnum, s.s. Sixties, BSG, Todmobile og SSSól, Rokklingarnir o.fl.

Efni á plötum