Halldór Laxness (1902-98)

Halldór Laxness

Halldór Laxness

Halldór Guðjónsson Laxness (f.1902 – d.1998) er líklega þekktasti rithöfundur Íslands fyrr og síðar. Eftir hann liggja fjölmörg rit s.s. skáldsögur, smásagna- og greinasöfn, leikrit og ljóð svo dæmi séu tekin. Þekktustu verk Halldórs eru án efa Sjálfstætt fólk, Heimsljós, Íslandsklukkan og Salka Valka. Halldór hlaut margs konar viðurkenningar fyrir verk sín en var um leið umdeildur. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 1955.

Halldór samdi mörg falleg ljóð sem samin hafa verið þekkt lög við, þar má nefna lag Jóns Ásgeirssonar við Maístjörnu Halldórs sem er t.d. löngu orðið sígilt og einnig má nefna ljóðin Hjá lygnri móðu (einnig eftir Jón), Bráðum kemur betri tíð (Atli Heimir Sveinsson), Vöggukvæði (Hvert örstutt spor) (Jón Nordal) og Únglíngurinn í skóginum (Jórunn Viðar, Ragnar Björnsson), sem öll hafa verið gefin út á plötum í mörgum útgáfum og útsetningum. Fleiri þekkt lög og ljóð mætti nefna, t.d. gáfu reggísveitin Hjálmar út lagið Veglig vefjan á plötu sinni Hjálmar (2005) en ljóðið er fengið úr skáldsögunni Sjálfstæðu fólki.

Líklega skipta lög við ljóð hans hundruðum fremur en tugum en erfitt er að henda reiður á fjölda þeirra, sum þeirra hafa verið gefin út á plötum en önnur ekki. Sum ljóð hafa þann heiður að hafa fleiri en eitt lag á bak við sig og lagahöfundar hafa gefið út heilar plötur með lögum við ljóð Halldórs, t.a.m. Árni Johnsen með Ég skal vaka…, sem kom út árið 1975. Þar er að finna m.a. lag við Maístjörnuna sem ekki hefur náð viðlíka útbreiðslu og áðurnefnt lag Jóns Ásgeirssonar. Hörður Torfa gaf einnig út plötu með ljóðum Halldórs, Söngvaskáld (2002) sem og Álafosskórinn, Ég bið að heilsa öllum sem ég unni (2002) en báðar voru þær plötur gefnar út á aldarafmæli skáldsins.

Minna þekkt lög við ljóð Halldórs eru mýmörg og má hér nefna nokkur eins og Frændi, þegar fiðlan þegir (eftir Sigvalda Kaldalóns), Óli fígúra (e. Halldór Gunnarsson), lög úr söngbók Garðars Hólm (e. Gunnar Reyni Sveinsson), Um hina heittelskuðu (e. Jakob Hallgrímsson), Kveðið eftir vin minn (e. Hörð Torfason), Þú ert draumur (e. Þorkel Sigurbjörnsson) og Kletturinn (e. Jónínu Guðrúnu Kristinsdóttur) en þetta er auðvitað einungis lítið brot þeirra laga. Erlendir höfundar hafa einnig ort lög við ljóð Halldórs.

Halldór hafði sjálfur mikinn áhuga á tónlist og voru ósjaldan haldnir tónleikar á heimili hans og Auðar eiginkonu hans, að Gljúfrasteini en Halldór lék sjálfur á píanó.

Ekki er eingöngu um að ræða tónlist þegar kemur að Halldóri Laxness og plötuútgáfu. Einnig hafa komið út plötur með upplestri hans á eigin verkum, má þar nefna Sagan af brauðinu dýra og plötuna Tveir þjóðskörungar íslenzkra bókmennta, þar sem þeir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi skipta á milli sín plötuhliðum, þar les Halldór brot úr Brekkukotsannáli. Leikritið Íslandsklukkan, sem byggir á skáldsögu Halldórs hefur einnig komið út í kassa sem innihélt fjórar plötur, einnig tónlist við leikritið Kristnihald undir jökli í flutningi hljómsveitarinnar Quarashi (2001).

Þótt það sé í raun málinu algjörlega óskyld má geta þess að hljómsveitin Mínus nefndi eina plötu sína Halldór Laxness, og einnig sótti norðlenska sveitin 200.000 naglbítar nafn sitt í Atómstöð Halldórs. Að lokum má geta að rapparinn Dóri DNA (Halldór Halldórsson) er barnabarn skáldsins.

Efni á plötum