Ðí Kommittments (1993-94)

Ðí Kommittments2

Ðí Kommittments

Vorið 1993 hélt nemendafélag Fjölbrautaskólans í Breiðholti árshátíð sína meðal annars með söngskemmtun eða söngleik sem byggð var á kvikmyndinni The Commitments og hafði notið mikilla vinsælda hérlendis sem annars staðar tveimur árum fyrr.

Uppfærsla FB var staðfærð yfir á Breiðholtið og fljótlega var ljóst að tónlistin myndi slá í gegn, þegar ellefu manna hljómsveit úr sýningunni flutti atriði úr henni á skemmtunum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið.

Hljómsveitin hlaut nafnið Ðí Kommittments (stundum einnig nefnd Hinir skuldbundnu) og meðlimir hópsins voru Bergsveinn Arilíusson söngvari, Guðrún Óla Jónsdóttir söngkona, Helena Sif Þórðardóttir söngkona, Hulda Rós Hákonardóttir söngkona, Albert Steinn Guðjónsson bassaleikari, Bjarki Friðriksson orgelleikari, Pétur Karlsson hljómborðsleikari, Ragnar Þór Ingólfsson trommuleikari, Sigurjón Alexandersson gítarleikari, Steinar Sigurðarson saxófónleikari og Snorri Sigurðarson trompetleikari.

Það var mikið áfall þegar Bjarki orgelleikari Ðí Kommittments lést sviplega úr heilahimnubólgu um vorið en hann var þá tæplega tvítugur að aldri, um svipað leyti hætti Pétur hljómborðsleikari og kom Finnur [?] inn í sveitina í framhaldinu.

Ðí Kommittments

Bergsveinn söngvari fremstur

Sveitin lék áfram við vinsældir á skemmtistöðum borgarinnar og einnig eitthvað á landsbyggðinni, og starfaði nokkuð fram á næsta ár, 1994.

Meðlimir Ðí Kommittments áttu sumir hverjir eftir að poppa upp í ýmsum þekktum hljómsveitum í kjölfarið og er skemmst að minnast Bergsveins söngvara í því samhengi, eða Begga í Sóldögg eins og hann er iðulega nefndur.