Gógó (1974-)

Gógó – Guðrún Óla Jónsdóttir

Söngkonan Gógó (Guðrún Óla Jónsdóttir) á tvískiptan söngferil að baki en hún var ung að árum nokkuð áberandi í söngleikjavakningunni sem átti sér stað um miðjan tíunda áratug síðustu aldar áður en hún hvarf úr sviðsljósinu en birtist aftur á öðrum áratug nýrrar aldar.

Guðrún Óla er fædd 1974 og á skólaárum sínum í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti vakti hún fyrst athygli er hún var meðal leikara og söngvara í söngleik byggðum á kvikmyndinni The Commitments og í kjölfarið var sett á fót hljómsveitin Ðí Kommittments sem skemmti víða utan skólans. Þá fór Gógó með hlutverk Auðar í Litlu hryllingsbúðinni sem skólinn setti á svið, þar söng hún annað aðalhlutverkið á móti Sverri Þór Sverrissyni (Sveppa) og sumarið 1995 kom út lagið Þar sem allt grær í flutningi hennar úr sýningunni á safnplötunni Ís með dýfu, í dansvænni útgáfu sem fékk heilmikla útvarpsspilun.

Í kjölfar þessa var Gógó nokkuð í sviðsljósinu, hún tók þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á Súperstar og einnig í sýningunni Sumar á Sýrlandi í Loftkastalanum, jafnframt tók hún þátt í hæfileikakeppninni Stjörnur morgundagsins sem Gunnar Þórðarson hafði yfirumsjón með á Hótel Íslandi haustið 1996 og sigraði þá keppni, skaut þar meðal annars aftur fyrir sig keppendum eins og Birgittu Haukdal sem þá var aðeins sautján ára gömul. Gógó söng einnig eitthvað inn á plötur á þessum, t.d. á plötunni Sundin blá sem hafði að geyma lög Þormars Ingimarssonar við ljóð Tómasar Guðmundssonar, þá söng hún einnig á plötu hljómsveitarinnar Reggae on ice, auk auðvitað plötunnar með tónlistinni úr Súperstar.

Eftir þetta dró Gógó sig í hlé frá söng og leik til fjöldamargra ára, starfaði m.a. við blaðamennsku og fleira á þeim árum, það var svo ekki fyrr en um 2010 sem hún hóf að syngja á nýjan leik þegar hún gekk til liðs við Kór Lindakirkju í Kópavogi en hún hafði einmitt sungið einnig í Kór FB á sínum tíma. Í Kór Lindakirkju komst hún í kynni við gospelsöng og hóf samstarf við Óskar Einarsson sem átti eftir að spila með henni á einsöngstónleikum sem hún hefur haldið á síðustu árum. Hún keppti árið 2015 í hæfileikakeppninni The Voice og hefur heilmikið komið fram á söngsviðinu á nýjan leik.