Karlakórinn Vísir (1923-83)

Karlakórinn Vísir 1934

Karlakórinn Vísir 1934

Karlakórinn Vísir á Siglufirði átti sér langa og merkilega sögu en eftir hann liggja fjölmargar útgáfur sem ná yfir sjötíu ára tímabil. Tónlistarhefðin á Siglufirði hafði til þessa miðast við þjóðlagasöfnun sr. Bjarna Þorsteinssonar sem var kunnur um land allt fyrir starf sitt, hann kom einmitt að stofnun kórsins og var síðar gerður að heiðursfélaga hans.

Haustið 1923 byrjaði kórinn starfsemina með æfingum og á öðrum degi jóla söng hann fyrst opinberlega, stofnmeðlimir voru um tuttugu talsins. Það var þó ekki fyrr en eftir áramótin 1923-24 að kórinn var stofnaður formlega og því er opinbert upphafsár kórsins 1924.

Það var Halldór Hávarðarson sem hafði hvatt til stofnunar Vísis en hann var frá Bolungarvík og hafði m.a. stjórnað karlakór þar vestra, það var því eðlilegt að hann yrði fyrsti stjórnandi kórsins. Halldórs naut þó ekki lengi við því hann lést vorið 1924, aðeins fáeinum mánuðum eftir að kórinn byrjaði.

Þeir Vísisfélagar voru þó ekki á því að láta þetta áfall stöðva sig og um haustið 1924 tók Tryggvi Kristinsson organisti við keflinu. Hann átti eftir að gegna starfinu til 1929.

Enn um sinn voru meðlimir rétt um tveir tugir en þeim átti eftir að fjölga smám saman samhliða því sem kórnum óx ásmegin í söngnum. Því má ekki gleyma að yfir vetrarmánuðina má segja að Siglufjörður hafi verið nánast alveg einangraður frá umheiminum, landfræði- og veðurfarslega séð, og því hefði annað hvort getað gerst að einangrunin yrði til að tónlistarlegir straumar og stefnur næðu ekki til bæjarbúa eða hitt, að einungrunin myndi þjappa kórmeðlimum til stífra æfinga og betri kórs.

Hið síðarnefnda virðist hafa verið raunin og 1928 gekk kórinn í Samband íslenskra karlakóra, tók þátt í söngmótum þess og 1930 var kórinn einn þeirra sem stóð að Landskórinu svokallaða, kór sem hafði það hlutverk að syngja á Alþingishátíðinni á Þingvöllum sumarið 1930.

Þormóður Eyjólfsson kaupmaður og síðar ræðismaður, hafði tekið við söngstjórninni haustið 1929 og hann var stjórnandi Vísis allt til 1952.

Árið 1930 höfðu upptökumenn frá Columbia útgáfunni komið til landsins með upptökutæki, og tekið upp fjöldann allan af plötum sem síðan voru gefnar út. Landskórið var meðal þeirra sem þá komu út á plötu en Karlakórinn Vísir ekki, ástæðan var samkomulag sem Karlakór K.F.U.M. hafði gert við Columbia um að þeir réðu hvaða kórar fengju að taka upp og það tryggði þeim nánast einkarétt á upptökunum.

Karlakórinn Vísir 1944

Vísir 1944

Sá samningur var hins vegar ekki í gildi þegar þeir Columbia menn komu aftur til landsins tveim árum síðar (1933) með upptökutækin sín og því kom Karlakórinn Vísir heldur betur við sögu í þeim upptökum. Þær upptökur sem kórinn snerti voru gerðar á Akureyri og varð afraksturinn þrjár 78 snúninga plötur – ein tveggja laga plata með kórnum einum, önnur plata ásamt Karlakór Akureyrar og á þeirri þriðju söng blandaður kór með Vísi. Sá kór söng undir stjórn Sigurðar Þórðarsonar en ekki liggur fyrir hvaða kór þetta var.

Hvort sem þetta var söngmönnum á Siglufirði hvatning eða eitthvað annað, þá er ljóst að næsta áratuginn fjölgaði verulega í kórnum og metnaðurinn jókst að sama skapi þótt ýmis ljón yrðu í veginum s.s. kórstjórnendaskortur.

Haukur Guðlaugsson tók við Vísi haustið 1952 og um það leyti átti mikil endurnýjun sér stað í kórnum, yngri söngmenn komu inn og mikil tónlistarvakning varð á Siglufirði, einkum þegar stofnaður var tónlistarskóli í bænum sem Karlakórinn Vísir kom að. Haukur varð skólastjóri þess tónlistarskóla.

Ekki var þó blómlegt starf alla vetur, og þegar Haukur fór utan til frekara náms hlupu Sigursveinn D. Kristinsson og Róbert A. Ottósson undir bagga áður en Páll Erlendsson tók við keflinu.

Ríkisútvarpið hafði tekið upp heilmikið efni með kórnum nokkru fyrr, líklega 1941 og voru þær upptökur spilaðar reglulega í útvarpinu. Búið var að gera samning við plötuútgáfuna Íslenzka tóna um útgáfu hluta þess efnis, þrjár tveggja laga plötur sem koma áttu út. Ef til vill var það stopulu söngstarfi á Siglufirði á þessum árum að kenna að aðeins ein platnanna kom út (1954), hinar tvær höfðu fengið útgáfunúmer en komu aldrei út.

Sömu sögu er að segja af plötu þar sem Vísir, Karlakór Reykjavíkur og Guðmundur Jónsson leiddu saman hesta sína,  hins vegar kom út fimm laga 45 snúninga plata árið 1959 sem hafði að geyma Sigurð Ólafsson söngvara, Tígulkvartettinn og Karlakórinn Vísi, á vegum Íslenzkra tóna. Sú upptaka var frá tímum stjórnartíðar Þormóðs.

Gerhard Schmidt t.v.

Gerhard Schmidt og Sigurjón Sæmundsson formaður Vísir með viðurkenninguna frá MIDEM ráðstefnunni

Sönglistin lifði því fremur daufu lífi í bænum á árunum 1956-63 en haustið 1963 kom til sögunnar Þjóðverji að nafni Gerhard (Walter) Schmidt sem hafði þá starfað við tónlistarskólann í bænum um tíma, síðast sem skólastjóri. Gerhard Schmidt fékk síðar (1967) íslenskan ríkisborgararétt og tók sér þá nafnið Geirharður Valtýsson.

Nú tók við alveg nýtt skeið í sögu Vísis. Kórinn hafði til þessa farið reglulega í tónleikaferðir um landið, bæði norðanlands og sunnan en Geirharður setti markið hærra og vorið 1966 fór kórinn í vikulanga söngferð til Danmerkur þar sem hann söng á þrennum tónleikum. Þess ber að geta að það var ekki á hverjum degi sem kórar fóru í þess konar ferðalög, einkum landsbyggðarkórar.

Skyndilega var karlakórinn orðinn stolt Siglufjarðar og landsþekktur fyrir gæði, talinn meðal bestu karlakóra Íslands. Geirharður var ennfremur óhræddur við að fara nýjar leiðir í nálgun sinni, undir hans stjórn fór kórinn í samstarf við „bítlasveitina“ Gauta sem starfaði á Siglufirði sem Geirharður lék reyndar sjálfur með um tíma. Það samstarf átti eftir að vara í nokkur ár.

Árið 1966 var á margan hátt hápunkturinn í sögu Karlakórsins Vísis þess utan. Tvær plötur komu út með kórnum, lítil fjögurra laga jólaplata kom út á vegum Fálkans og einnig breiðskífan Þótt þú langförull legðir: 14 innlend og erlend lög. Sú plata hlaut heldur betur góðar viðtökur, seldist í um þrjú þúsund og fimm hundruð eintökum sem var einsdæmi með kórtónlist og var síðan endurútgefin 1974. Og í lok ársins (1967) spurðist út að kórnum hefði verið boðið að syngja á MIDEM tónlistarráðstefnunni sem haldin yrði í Cannes 1968, tilefnið var að platan hefði orðið sú söluhæsta á Íslandi á tilteknu tímabili.

Kórinn þekktist að sjálfsögðu þetta góða boð og fór til Frakklands til að veita viðurkenningu viðtöku, silfurskildi með áletruðu nafni kórsins. Sagan segir að runnið hefðu tvær grímur á andlit stjórnenda hátíðarinnar þegar kórinn mætti á svæðið því þeir hefðu ekki haft hugmynd um að um væri að ræða fimmtíu manna karlakór sem kórinn var þá.

En Vísir hlaut ágæta auglýsingu þegar kórinn söng á hátíðinni fyrir fullu húsi, en söng kórsins var útvarpað víða og sjónvarpað reyndar einnig – í lit.

1969 kom út önnur breiðskífa á vegum Fálkans. Sú fékk heitið Okkar glaða söngvamál og hlaut ágæta dóma í Tímanum og Morgunblaðinu en þá var ekki sjálfgefið að kóraplötur fengju gagnrýni í fjölmiðlum. Platan var tekin upp í sal Ríkisútvarpsins vorið 1969 þegar kórinn var á söngferðalagi sunnanlands, tuttugu lög voru tekin upp í þessari upptökulotu og fimmtán þeirra enduðu á plötunni.

Á umslagi plötunnar segir að „hljómsveit Vísis“ leiki á henni, líklegt er að þar sé um að ræða hljómsveitina Gauta. Laust textablað fylgdi með breiðskífunni en slíkt var ekki algengt á þeim tíma.

Sem fyrr segir naut Karlakórinn Vísir almennrar hylli og vinsælda og söng kórinn m.a. á útihátíð sem haldin var í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1970. Þar var kórinn innan um poppsveitir eins og Trúbrot, Náttúru, Ævintýri og Óðmenn svo dæmi séu nefnd.

Karlakórinn Vísir og Gautar

Eftir þessa hápunkta fór heldur að fjara undan Karlakórnum Vísi, kórinn fór reglulega í stór söngferðalög um landið, stundum voru Gautar í för og jafnvel félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands en eftir að Geirharður hætti störfum 1974 fór gæðum kórsins að hraka, samhliða þreytu og áhugaleysis sem fylgdi eðlilega í kjölfarið. Stjórnendur stöldruðu styttra við og starfið lagðist jafnvel niður á löngum köflum.

Kórinn starfaði þó 1977 undir stjórn Elíasar Þorvaldssonar en það ár tók hann þátt í kóramóti Heklu sem haldið var um sumarið. Guðjón Pálsson organisti stjórnaði kórnum 1981 og 82, og Andrew Hurel 1983, eftir það heyrðist ekkert af kórnum og lauk þar með sextíu ára sögu Karlakórsins Vísis á Siglufirði.

Það var svo árið 1988 að út kom tvöföld plata sem bar titilinn Hér við íshaf en hún hafði að geyma úrval upptaka af fyrri plötum kórins. Ekkert lífsmark var þó með kórnum sjálfum og sextán ár liðu áður en önnur tvöföld plata með gömlum upptökum birtist. Það var einnig eins konar safnplata með Vísi, gefin út fyrir frumkvæði Leós R. Ólasonar á Siglufirði, og hét hún Karlakórinn Vísir – Siglufjörður: 40 lög frá liðinni öld. Efnið, sem spannaði yfir fjörutíu ára tímabil, höfðu þeir Leó og Hreinn Valdimarsson unnið en undirbúningur útgáfunnar hafði staðið í áratug.

Karlakórinn Vísir á Siglufirði var einstakur kór í sinni röð, naut fádæma vinsælda á sínum tíma og útgáfusaga kórsins er ennfremur lengri en flestra annarra kóra fyrr og síðar. Lög kórsins hafa einnig komið út á safnplötum í gegnum tíðina og má þar nefna plöturnar Óskastundin (2002), Svona var 1969 (2008), Á jólum (1972 og Óskalögin (1997).

Efni á plötum