Jón Gústafsson (1963-)

Jón Gústafsson

Jón Gústafsson

Margir muna eftir fjölmiðlamanninum Jóni Gústafssyni en hann átti einnig tónlistarferil.

Jón fæddist 1963 og ólst upp á Seltjarnarnesinu, hann hafði verið með nokkrum félögum sínum í hljómsveit frá fjórtán ára aldri og um áramótin 1981-82 tók sveitin upp latneska heitið Sonus futurae.

Sonus futurae spilaði eins konar tölvupopp með fremur frumstæða hljóðgervla þess tíma og gaf út plötu haustið 1982 en Jón hætti í sveitinni sumarið eftir og sneri sér að tengdu efni, hljóðupptökum og stofnaði hljóðverið Mjöt ásamt nokkrum öðrum, aðeins nítján ára gamall.

Í framhaldinu gaf Jón upp sólóplötuna Frjáls undir merkjum Fálkans, platan fékk ágæt dóma í Morgunblaðinu og Tímanum en varla nema sæmilega í DV. Tónlistin var einkum lituð af tölvum og hljóðgervlum en vakti ekki mikla athygli. Þess ber að geta að Jón var þegar hér var komið sögu rétt um tvítugt.

Í Mjöt vann Jón við hljóðupptökur, m.a. með tónlistarmönnum og við auglýsingagerð en næst tók við það svið sem hann varð einna þekktastur fyrir, fjölmiðlaferillinn.

Jón hóf vinnu við fjölmiðla, fyrst hjá Ríkisútvarpinu bæði við útvarps- og sjónvarpsþáttagerð en hann stýrði m.a. sjónvarpsþáttunum Rokkarnir geta ekki þagnað, Unglingarnir í frumskóginum og Spurningakeppni framhaldsskólanna, sem þarna var að stíga sín upphafsspor. Síðar starfaði hann á Bylgjunni og annaðist t.a.m. spurningaþætti um popptónlist, auk Vinsældarlista Bylgjunnar, og til að kóróna þetta allt ritaði hann bók um Hólmfríði Karlsdóttur (Hófí) sem hafði orðið alheimsfegurðardrottning 1985. Sú bók kom út fyrir jólin 1986.

Jón var þó ekki alveg hættur í tónlistinni, 1986 var hann í tríóinu Afris sem gaf út samnefnda plötu í lok ársins, hann kom ennfremur við sögu sem framleiðandi á nokkrum plötum á næstu árum, kom að útgáfu safnplötunnar Vímulausrar æsku og lék á ýmis hljóðfæri á plötum Bergþóru Árnadóttur og Graham Smith, Bubba Morthens og Magnúsar og Jóhanns svo dæmi séu nefnd.

Jón fór til Bretlands og menntaði sig í kvikmyndagerð og síðan til Bandaríkjanna til að læra leikstjórn, síðan þá hefur hann mestmegnis búið erlendis og starfað við kvikmyndagerð af ýmsu tagi og framleiðslu þeirra.

Efni á plötum