Niður (1992-97)

nidur-1993

Niður

Hljómsveitin Niður starfaði í nokkur ár á tíunda áratugnum en vakti ekki mikla athygli utan ákveðins hóps tónlistaráhugafólks.

Niður var lengi vel pönksveit, hún var stofnuð 1992 og voru meðlimir fyrstu útgáfu hennar Arnar Sævarsson gítarleikari og Jón Júlíus Filippusson söngvari (sem komu úr Sogblettum), Haraldur Ringsted trommuleikari (Rotþróin), Pétur Heiðar Þórðarson gítarleikari (Óþekkt andlit) og Össur Hafþórsson bassaleikari (Rauðir fletir).

Mannabreytingar einkenndu sögu sveitarinnar og 1993 hætti Pétur gítarleikari. Arnar hinn gítarleikarinn hætti reyndar líka það ár en hann átti eftir að koma síðar aftur inni í bandið ári síðar, líklega um svipað leyti og Össur bassaleikari hætti. Eggert Hilmarsson tók við bassanum og líklega var Ingólfur Júlíusson bassaleikari sveitarinnar um tíma en hann spilaði einnig á hljómborð. Ingólfur hætti 1994.

Breytingum á skipan sveitarinnar var þó ekki lokið því Jón söngvari hætti 1995 og við hans hlutverki tók Ólafur Egill Egilsson (Ólafssonar) síðar leikstjóri og leikari. Við söngvaraskiptin urðu nokkrar breytingar á tónlistinni og varð hún meira í ætt við þjóðlagarokk.

Þannig skipuð starfaði Niður til ársins 1997 þegar hún var lögð niður.

Niður tók upp heilmikið af efni og eitthvað af því var sett á plötu sem bar líklega nafn sveitarinnar og telst óopinber útgáfa. Lag með sveitinni kom svo út á safnplötunni Smekkleysa í hálfa öld (1994).

Efni á plötum