Sogblettir (1984-91)

Sogblettir1

Sogblettir

Hljómsveitin Sogblettir var áberandi um miðjan níunda áratuginn en sveitin var einn fulltrúa síðpönks á Íslandi ásamt Bleiku böstunum og fleiri sveitum.

Þótt sveitin hafi ekki komið fram á sjónarsviðið fyrr en snemma vors 1987 hafði hún verið starfandi í nokkurn tíma (sumir segja jafnvel þrjú ár), þeir Arnar Sævarsson gítarleikari (hálfbróðir Bjarkar Guðmundsdóttur), Ari Eldon bassaleikari (bróðir Þórs Eldon) og Gunnar Sæmundsson trommuleikari voru upphaflegir meðlimir sveitarinnar en Jón Júlíus Filippusson söngvari kom síðar inn sem söngvari. Og þannig skipuð fór hún að koma fram opinberlega.

Vorið 1987 keppti sveitin í Músíktilraunum Tónabæjar en hafði þar ekki erindi sem erfiði, enda hávaðasöm og kraftmikil pönksveit að berjast í miðri gleðipoppsmenningunni. Sveitin komst semsagt ekki í úrslit keppninnar.

Um sumarið komu út nokkur lög með sveitinni á safnspólunum Snarl og Snarl 2 og síðar sama ár kom út þriggja laga plata. Lag þeirra Sogbletta, 5. gír vakti einna mesta athygli en í því var deilt á Bubba Morthens auk annarra þjóðþekktra manna. Skáldkonan Didda mun hafa verið sveitinni nokkuð innan handar við textasmíðarnar. Platan kom út í fimm hundruð eintökum sem öll eru löngu orðnir safngripir, hún hlaut ennfremur ágæta dóma í Morgunblaðinu og DV.

Sogblettir 1987

Þegar Jón söngvari hætti í sveitinni vorið 1988 tók Grétar [?] við sönghlutverkinu en margir vilja meina að þá þegar hafi verið komið að endalokum hennar, sveitin starfaði þó áfram fram á haustið en um svipað leyti og hún hætti störfum kom önnur plata hennar út, Fyrsti kossinn. Þetta var sex laga plata sem hlaut fremur neikvæðar viðtökur, hún fékk t.d. slaka dóma í Degi.

1991 kom út snælda með lögum sveitarinnar en ekki liggja fyrir upplýsingar um hana.

2002 kom síðan út efni með Sogblettum á safnplötunni Alltaf sama svínið, sem Smekkleysa stóð fyrir en útgáfufyrirtækið hafði gefið út plötur sveitarinnar.

Efni á plötum