Þingvallakórinn (1928-30)

Frá Alþingishátíðinni 1930

Þingvallakórinn var lengi stærsti blandaði kór sem starfað hafði á Íslandi en hann var settur saman fyrir Alþingishátíðina sem haldin var í tilefni þúsund ára afmælis alþingis árið 1930.

Kórinn var stofnaður 1928 og var sérstaklega til hans stofnað til að flytja kantötur þær sem sigruðu í samkeppni sem haldin var í tilefni hátíðarinnar.

Það voru þeir Sigurður Þórðarson stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur, Jón Halldórsson stjórnandi Karlakórs K.F.U.M. og Sigurður Birkis síðar söngmálastjóri sem önnuðust eins konar hæfnispróf fyrir áhugasamt söngfólk en hugmyndin var að kórinn innihéldi um hundrað söngfólk. Af um hundrað og fimmtíu konum sem tóku hæfnisprófið fengu sextíu og fimm þeirra inngöngu en aðeins þrjár karlaraddir af þeim sextíu og fimm sem sóttu um þóttu nógu hæfir. Fyrir vikið var leitað til karlakóranna sem voru starfandi á höfuðborgarsvæðinu til að manna karlaraddirnar en enginn þeirra hafði áhuga á verkefninu nema Karlakór K.F.U.M. og þá gegn einhvers konar greiðslu. Skýringuna má e.t.v. leita til þess að karlakóramenningin hafði öðlast fastan sess hérlendis og karlmennirnir hafi því haft litla trú á blönduðum kór.

Hópurinn sem fór til Danmerkur 1929

Æfingar hófust af fullum krafti 1929 undir stjórn Sigfúss Einarssonar og um sumarið fór um helmingur kórsins á norrænt kóramót sem haldið var í Danmörku. Þar var eftir því tekið hversu vel æfður og samhæfður kórinn var og var það sjálfsagt mörgum frekari hvatning en í kjölfarið voru fjölmargir blandaðir kórar stofnaðir og má því segja að Þingvallakórinn hafi verið upphafið að sögu blandaðra kóra hérlendis.

En Þingvallakórinn var stofnaður sérstaklega til að syngja á Alþingishátíðinni á Þingvöllum í júní 1930 og þar kom hann fram m.a. við upphaf hátíðarinnar og söng þjóðsönginn. Aðal hlutverk hans var hins vegar að syngja kantötur þær sem sigruðu keppnina sem áður er minnst á. Kórinn starfaði að öllum líkindum ekki lengur en fram yfir Alþingishátíðina.

Margar upptökur voru gerðar 1930 þegar upptökumenn frá Columbia komu hingað á vegum Fálkans, ýmsir kórar og einstaklingar fengu þá tækifæri til að syngja inn á plötur en af einhverjum ástæðum var Þingvallakórinn ekki í þeim hópi, því eru engar upptökur varðveittar með kórnum.