Óvissa (1968-71)

Óvissa

Óvissa var ballsveit ættuð frá Akureyri, starfandi í kringum 1970.

Sveitin var að öllum líkindum stofnuð 1968 og voru meðlimir hennar Sævar Benediktsson bassaleikari, Kristján Guðmundsson orgel- og gítarleikari, Gunnar Ringsted gítarleikari, Freysteinn Sigurðsson söngvari og Árni Friðriksson trommuleikari. Einnig gæti Þorleifur Jóhannsson hafa komið við sögu hennar.

Óvissa lék nokkuð opinberlega á Akureyri en þegar Árni trommuleikari hætti og gekk til liðs við Hljómsveit Ingimars Eydal íhuguðu hinir meðlimir sveitarinnar að hætta, úr því varð þó ekki og Jón Sigurðsson tók við trommunum. Þannig skipuð starfaði sveitin um tíma en þegar Freysteinn söngvari hætti líka var ljóst að framtíð sveitarinnar væri í óvissu. Fjórmenningarnir sem eftir voru héldu þó áfram í nokkrar vikur en hættu síðan störfum, í byrjun árs 1971.