Ljósbrá [1] (1973-75)

engin mynd tiltækHljómsveitin Ljósbrá frá Akureyri starfaði um miðjan áttunda áratug tuttugustu aldarinnar, á árunum 1973-75. Á þeim tíma náði hún að gefa út eina litla plötu.

Flestir meðlima sveitarinnar höfðu verið í unglingasveitinni Bravó sem hafði vakið landsathygli áratug fyrr en þá höfðu meðlimir hennar verið mjög ungir að árum.

Meðlimir Ljósbrár voru Sævar Benediktsson bassaleikari, Þorleifur Jóhannsson trommuleikari, Brynleifur Hallsson söngvari og gítarleikari og Gunnar Ringsted gítarleikari og þannig skipuð kom hún út tveggja laga plötu sem Tónaútgáfan gaf út 1973. Til aðstoðar höfðu þeir félagar Ingimar Eydal og Þorstein Kjartansson.

Platan fékk fremur slaka dóma í Alþýðublaðinu, Vísi og Morgunblaðinu en sveitin starfaði þó eitthvað áfram, að öllum líkindum fram til vors 1975. Þá höfðu orðið þær breytingar á henni að Gunnar var farinn suður á vit ævintýra en Kristján Þ. Guðmundsson (einnig fyrrum Bravó-meðlimir) hafði tekið sæti hans.

Þeir Þorleifur, Sævar og Kristján áttu síðar allir eftir að gera garðinn frægan með Hljómsveit Ingimars Eydal á Akureyri.

Ljósbrá hefur komið saman nokkrum sinnum á síðustu árum og spilað opinberlega, einkum norðanlands.

Efni á plötum