Flakkarar [1] (1969)

Flakkarar

Hljómsveitin Flakkarar kom frá Akureyri og var skipuð meðlimum á unglingsaldri, hún starfaði í nokkra mánuði árið 1969.

Sveitin var stofnuð líklega í upphafi árs 1969 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Árni Viðar Friðriksson gítarleikari, Grímur Sigurðsson bassaleikari, Árni Ketill Friðriksson trommuleikari, Gunnar Ringsted gítarleikari og Freysteinn Sigurðsson gítarleikari og söngvari, um mitt sumar tók Egill Eðvarðsson hljómborðsleikari við af Árna Viðari.

Flakkarar voru á nokkuð þyngri línu en flestar þeirra sveita sem þá störfuðu norðanlands en þeir félagar pældu mikið í tónlist heilmikið þrátt fyrir ungan aldur, og voru í blús- og hipparokkshugleiðingum á meðan aðrar sveitir á Akureyri voru enn í Bítlunum. Sveitin spilaði nokkuð opinberlega þá mánuði sem hún starfaði, t.d. á bindindismóti í Vaglaskógi um verslunarmannahelgina.

Sveitin hætti störfum að öllum líkindum öðru hvorum megin áramóta 1969-70.