Foxes (1966-68)

Foxes

Bítlahljómsveitin Foxes var starfrækt í Héraðsskólanum að Laugum í Reykjadal í Þingeyjasýslu um tveggja vetra skeið árin 1966-68, sveitin sem var skólahljómsveit starfaði einnig utan skólans og lék m.a. á þorrablótum og annars konar samkomum og dansleikjum.

Það voru þeir Friðrik Friðriksson trommuleikari, Sæmundur Harðarson gítarleikari, Sigfús Illugason bassaleikari og Pálmi Gunnarsson sem spilaði á gítar og hljómborð sem skipuðu sveitina annan veturinn sem hún starfaði en ekki er alveg ljóst hverjir skipuðu hana hinn veturinn, Gylfi Gunnarsson gítarleikari (Þokkabót o.fl.) og Friðrik Jónsson harmonikkuleikari munu þó hafa komið fram með sveitinni hvort sem þeir voru meðlimir Foxes eða ekki.

Foxes kom saman sumarið 2005 og lék þá á Vopnfirðingahátíð á Vopnafirði, Pálmi var meðal meðlima sveitarinnar þá en ekki liggja fyrir upplýsingar um aðra.