
Stjörnumessu lógóið
Hin svokallaða Stjörnumessa var eins konar uppskeruhátíð poppbransans sem Dagblaðið og tímaritið Vikan stóðu fyrir um nokkurra ára skeið í kringum 1980, segja má að Stjörnumessan hafi verið undanfari Íslensku tónlistarverðlaunanna sem voru sett á laggirnar um tíu árum síðar.
Það voru blaðamenn Dagblaðsins og Vikunnar sem höfðu veg og vanda af Stjörnumessunni en meðal þeirra má nefna Ásgeir Tómasson, Helga Pétursson og Ómar Valdimarsson. Um var að ræða hátíð þar sem tónlistarmenn skyldu heiðraðir fyrir það sem vel var gert árið á undan en úrslitin fengust með kosningu lesenda blaðanna tveggja, atkvæðaseðlar fylgdu blöðunum og höfðu að geyma nöfn þeirra sem tilnefndir voru. Kosningin átti síðar eftir að þróast lítillega, t.a.m. voru flokkar eins og Útvarpsþáttur og Sjónvarpsþáttur ársins, erlendir flytjendur ársins og erlenda plata ársins sem áttu eftir að detta út.
Á fyrstu Stjörnumessunni sem haldin var með pomp og prakt á Hótel Sögu í ársbyrjun 1978 vann Spilverk þjóðanna til flestra verðlaunanna, m.a. fyrir besta lagið, bestu plötuna, bestu hljómsveitina og bestu söngkonuna. Það vakti þó athygli að Spilverksmaðurinn Sigurður Bjóla þverneitaði að láta sjá sig á Stjörnumessunni og gaf þannig e.t.v. tóninn fyrir það sem síðar varð.
Ári síðar (1979) voru Spilverks söngvararnir Egill og Diddú sigursæl en einnig má nefna Brunaliðið með plötu og lag ársins (Ég er á leiðinni) og Þursaflokkinn en þeir hlutu titilinn hljómsveit ársins, það ár var svokallaður heiðursgestur Stjörnumessunnar í fyrsta sinn á dagskrá en það var Ómar Ragnarsson sem hlaut þá tilnefningu – Haukur Morthens, Ragnar Bjarnason, Þuríður Sigurðardóttir og Mezzoforte áttu síðan eftir að hljóta þann heiður.
1980 höfðu þær breytingar verið gerðar á fyrirkomulagi kosninganna að dómnefnd hafði verið skipuð sem hafði 50% vægi á móti atkvæðaseðlunum. Gunnar Þórðarson var fyrirferðamikill á þeirri hátíð sem tónlistarmaður ársins (sem hann hafði reyndar unnið áður) en hann var líka maðurinn á bak við plötu ársins með Þú og ég – Ljúfa líf. Brimkló var þarna kjörin hljómsveit ársins og Nína og Geiri lag ársins sem söngvarar ársins, Björgvin Halldórsson og Diddú sungu.
Árið 1980 urðu mikil þáttaskil í íslenskri popptónlist en pönkbylgjan svokallaða náði þá hámarki og Bubbi Morthens kom fram á sjónarsviðið með látum eins og þekkt er, með þeim þáttaskilum klofnaði tónlistarheimurinn á Íslandi eftirminnilega enda voru eins konar kynslóðaskipti á ferð einnig þar sem „gömlu“ poppararnir fengu nokkuð á baukinn hjá þeim ungu og róttæku. Þetta þýddi að Bubbi og hljómsveit hans, Utangarðsmenn hlutu yfirburðakosningu í atkvæðagreiðslunni og fengu flest öll verðlaunin sem í boði voru á Stjörnumessunni í febrúar 1981 – þeir hunsuðu verðlaunahátíðina hins vegar en sendu umboðsmann sinn, hinn 19 ára gamla Einar Örn Benediktsson sem veitti verðlaununum viðtöku og yfirgaf svæðið með verðlaunagripina í netapoka sem hann bar á bakinu. Með því má segja að glansinn hafi að nokkru leyti farið af Stjörnumessunni það árið en meðal annarra verðlaunahafa má nefna Helgu Möller sem söngkona ársins og Áhöfnin á Halastjörnunni átti söluhæstu plötuna.
Bubbi lét sig hafa það að mæta á næstu Stjörnumessu (1982) en hún var þá haldin á veitingastaðnum Broadway í Mjóddinni, hann gat þó ekki stillt sig um að flytja gagnrýni á hátíðina í ljóðaformi þegar hann veitti verðlaunum viðtöku sem besta textaskáldið. Aðal verðlunahafi kvöldsins, Jóhann Helgason sem var kjörinn besti söngvarinn og lagahöfundurinn auk þess að eiga bestu plötuna, hvarf því nokkuð í skuggann. Stjörnumessan var þarna í fyrsta sinn haldin á vegum DV en Dagblaðið og Vísir höfðu þá sameinast í eitt dagblað, Vikan kom ekki að hátíðinni aftur.
Stjörnumessan var í síðasta sinn haldin árið 1983 en hátíðin fór þá aftur fram á Broadway, Stuðmenn og Grýlurnar voru þar sigursælust enda hafði kvikmyndin Með allt á hreinu verið sýnd við mikla aðsókn árið á undan. Enn og aftur var Bubbi senuþjófurinn án þess þó að vera á staðnum, hann hafði hlotið tvenn verðlaun sem tónlistarmaður ársins og textahöfundur ársins og hafði lofað að mæta en lét þó hvergi sjá sig. Í blaðaviðtali gagnrýndi hann enn hátíðina og nú einnig fyrir verðlaunagripina sem voru úr áli, Stuðmenn tóku í sama streng í ræðum sínum á Stjörnumessunni og gagnrýndu álverðlaunagripina. Hvort sem það var þetta eða eitthvað annað þá var Stjörnumessan ekki haldin aftur eftir þetta og tíu ár liðu þar til ámóta uppskeruhátíð var aftur haldin hérlendis, Stjörnumessan var þó klárlega hátíð sem framan af naut virðingar en hún náði þó aldrei almennilega að festa sig í sessi.