Eiríkur Bjarnason (1909-81)

Eiríkur frá Bóli2

Eiríkur frá Bóli

Eiríkur Bjarnason frá Bóli í Biskupstungum (f. 1909) var kunnur harmonikkuleikari og lék á árum áður á böllum um allt land, einkum þó í Árnes- og Rangárvallasýslu. Það sem var þó sérstæðast við þennan harmonikkusnilling var að hann var blindur eftir erfið veikindi sem hann glímdi við á unglingsárum.

Eiríkur eignaðist sína fyrstu harmonikku níu ára gamall og naut tilsagnar Erlends Björnssonar á orgel en ekki gekkst hann undir annað tónlistarnám, tónlistin var honum í blóð borin.

Snemma var hann farinn að leika fyrir dansi á skemmtunum í sveitinni, líklega á orgel til að byrja með en þegar hann veiktist af berklum á þrettánda ára hætti hann tónlistariðkun um tíma. Hann var rúmfastur í nokkur ár, fékk í kjölfarið kíghósta og varð að endingu blindur af lyfjum sem hann fékk vegna hans.
Eiríkur lét ekki fötlun sína stöðva sig heldur hóf að æfa á harmonikkuna á fullu, eignaðist gott hljóðfæri og hóf að spila á böllum á Suðurlandi, oft einn en einnig með Erlendi. Síðar hóf hann árið 1933 samstarf með æskuvini sínum Einari Sigvaldasyni sem fyrst um sinn lék á munnhörpu en síðar einnig á harmonikku og saman léku þeir dúetta á skemmtunum víða um land, fyrst í Reykjavík en svo víðar. Þeir urðu landsþekktir undir nafninu Eiríkur og Einar og barst hróður þeirra víða, sérstaklega þegar þeir spiluðu í útvarpi. Eftir að Einar hélt utan til náms lék Eiríkur oft með Jóni Kjartanssyni á böllum.

Eftir 1940 fór minna fyrir harmonikkuspili, hann gifti sig og að lokinni heimsstyrjöldinni síðari keyptu þau hjónin samkomuhús í Hveragerði sem þau breyttu í gistihús og nefndu Hótel Hveragerði, þar voru oft haldin böll og lék Eiríkur stundum fyrir dansi þótt ekki væri í jafn miklum mæli og áður. Hótelið ráku þau hjónin allt til dánardags Eiríks 1981 og lét hann aldrei blindu sína stöðva sig, hann mun t.d. ekki hafa hikað við viðgerðir á bíl þeirra hjóna jafnvel þótt hann þyrfti að færa bílinn til sjálfur.

Eiríkur á Bóli samdi tónlist sjálfur og kunnast er líkast til lagið Ljósbrá (Ég minnist þín) sem Karlakórinn Fóstbræður, Álftagerðisbræður, Karl Jónatansson og fleiri hafa flutt á plötum, og svo má nefna Kvöld í Gúttó (með Gretti Björnssyni), Þá má nefna að 1998 kom út platan Liðnar stundir sem hefur að geyma lög Eiríks og Bjarna Sigurðssonar frá Geysi í flutningi ýmissa þekktra listamanna.

Efni á plötum