„Læt ekki dýralækna um fjármálin mín“

Úlfur Kolka – Borgaraleg óhlýðni 
Vesturbær VSB001 (2014)
4 stjörnur
Úlfur Kolka - Borgaraleg óhlýðni

Úlfur Kolka – Borgaraleg óhlýðni

Íslenska rappsenan hefur fyrir löngu slitið barnsskónum og náði kannski hámarki sínum fyrir um fimmtán árum, þrátt fyrir að ýmsir hafi spáð henni stuttri ævi hefur enn ekki alveg fjarað undan henni og reyndar hefur hún lifað ágætu lífi á köflum.

Úlfur Kolka Freysson var einn þeirra sem tilheyrði stærstu rappholskeflunni upp úr aldamótum í kjölfar þess að 110 [XXX] Rottweiler hundarnir sigruðu Músíktilraunir. Þá var Úlfur Kolka (sem um það leyti gekk undir heitinu Ciphah) einn Kritikal Mazz liða sem var nokkuð áberandi í senunni og gaf út tvær plötur, hann dró sig í hlé frá tónlistinni um tíma meðan hann var í námi en birtist aftur eftir bankahrun, var mikið niðri fyrir og boðaði pólitíska plötu. Platan lét bíða nokkuð eftir sér og kom ekki út fyrr en fyrr á þessu ári, og bar þá heitið Borgaraleg óhlýðni sem vísar nokkuð efnisins en Úlfur Kolka er beittur í gagnrýni sinni og fá ýmsir á baukinn.

Og platan byrjar frábærlega, upphafslagið undir ræðu Peter Finch í hlutverki Howards Beale í Network (1976) er fullkomið intro að plötunni og í kjölfarið koma frábær lög eins Risinn er vaknaður, Dagur í lífi þínu?, Mótmælandi Íslands og lokalagið Við munum öll…, sem hefur að geyma lokaorð Rutgers Hauer sem Roy Batty í Blade runner, það lokar plötunni og rammar hana inn. Í því sama lagi er textaskírskotunin „Við munum öll, við munum öll, við munum öll – deyja, í Bubba Morthens og Utangarðsmenn en reyndar er platan öll full af slíkum skírskotunum eins og kvikmyndasenudæmin hér að ofan styðja.

Textarnir eru stór hluti rappsins og innihald þeirra skiptir miklu, og þeir eiga margir hverjir erindi við okkur enda segir hann sjálfur að hér sé á ferðinni fyrsta pólitíska rappplata Íslandssögunnar – hún er reyndar allt frá því að vera ádeila á neyslu- og doðasamfélagið upp í harða gagnrýni á stjórnmálamenn og ríkisvaldið, hér er sögu Helga Hóseasonar einnig gerð góð skil, minning hans heiðruð og það ekki í fyrsta skiptið.  Það er líka sérstakt að yrkisefnið er til þess að gera íslenskur veruleiki sem er til dæmis spirrtur saman við Dýrabæ Georges Orwell í laginu Svínin þagna, sbr. „læt ekki dýralækna um fjármálin mín“ o.s.frv. – uppgjör í kjölfar kreppu kemur hér í stað montbulls um eigið ágæti í blautlegum mansöngvum eða um byssur og glingur, sem oft vill heyrast í rapptextum – jafnvel íslenskum.  Og þar sem innihaldið er mikilvægara en bragformið í rapptextum skiptir ekki öllu þótt ekki sé fylgt reglum bragfræðinnar út í hörgul, s.s. ljóðstafi og rím sem oftar en ekki er hér eingöngu bundið við sérhljóðin (kjósa / stóla / klóna / tróna). Reyndar hefði ég vilja sjá textana útprentaða í plötuumslaginu, sem vel að merkja er vel heppnað.

Nú er ég ekki neinn sérfræðingur í rapptónlist en mér hefur leiðst sú þróun sem hefur átt sér stað í henni að byggja rappið ofan á takta mest eingöngu. Úlfur fer þá leið að byggja undir rappið með sterkum synthamottum sem fyrir vikið er mun betri grunnur undir textana en takturinn eingöngu. Plötuna vinnur Úlfur mestmegnis einn en þó með örlítilli aðstoð Gnúsa Yones og Introbeats.

Borgaraleg óhlýðni á semsé fullt erindi boðskapslega séð og er þar að auki vel áheyrileg öðrum hvort sem þeir eru pólitískt þenkjandi eða ekki.