Tíu öðruvísi jólaplötur

Heimili flestra hafa að geyma einhverjar jólaplötur, þær eru sjálfsagt flestar einhvers konar safnplötur enda kemur ógrynni slíka platna út á hverju ári, aðrar eru sykursætar og hátíðlegar jólaplötur einstaklinga og kóra, og á allan hátt hefðbundnar. Hér er hins vegar litið til öðruvísi og óvenjulegra jólaplatna, platna sem sjást alla jafna ekki í plötuhillum venjulegra heimila enda yfirleitt gefnar út í litlu upplagi, illfáanlegar, fást ekki í hefðbundnum plötubúðum, og eru því aðeins í kaupfæri þeirra sem virkilega eru að leita þeirra. Þessi listi er að sjálfsögðu langt frá því að vera tæmandi og margar plötur ættu e.t.v. tilkall til listans s.s. bassajólaplötur Jakobs Smára Magnússonar, Majónesjólaplata Bogomils Fonts, Svarthvít jól Teina o.s.frv. en hér kemur hann – tíu platna listi Glatkistunnar yfir öðruvísi íslenskar jólaplötur (í aldursröð).

Bifhjólasamtök lýðveldisins – Jólahjól / Þríhjól [ep] (1984)
Bifhjólasamtök lýðveldisins - Jólahjól þríhjól

Bifhjólasamtök lýðveldisins – Jólahjól / Þríhjól [ep]

Allir þekkja lagið Jólahjól flutt af Stefáni Hilmarssyni og Sniglabandinu en fæstir hafa heyrt upprunalegu útgáfuna sem kom út á tveggja laga plötu sem skráð er á Bifhjólasamtök lýðveldisins (síðar Sniglabandið) árið 1984, þetta var þó eitthvað tengt afmæli Skúla Gautasonar söngvara. Útgáfan er óvenjuleg að því leyti að þar syngur Skúli höfundur Jólahjóls lagið við flautu- og gítarundirleik – fremur illa og hægt. Ekki var haft fyrir því að hanna plötuumslag utan um hana og því var það bara haft hvítt, platan er stór (12 tomma) þrátt fyrir að vera bara tveggja laga en ástæðan er sú að plötupressan Alfa sem annaðist pressu á plötunni var með vélarnar stilltar á stórar plötur og því hefði hún þurft að bíða pressunar í nokkurn tíma þar sem fleiri stórar plötur biðu pressunar. Hitt lagið á plötunni heitir Þríhjól og það hefur enginn heyrt.

F – Pakkaþukl [ep] (1985)
F - Pakkaþukl2

F – Pakkaþukl [ep]

Platan Pakkaþukl með hljómsveitinni F var þriggja laga plata (stór líkt og sú með Jólahjóli) en á henni koma við sögu nokkrir tónlistarmenn sem voru fremur tengdir rokki og róli en jólatónlist, þarna voru Þórður Bogason söngvari (Foringjarnir, Þrek o.fl.), Georg Ólafsson gítarleikari (iðulega kenndur við Papa), Gústaf Guðmundsson trymbill (Start o.fl.), Guðmundur Kr. Höskuldsson gítarleikari (Carnival, Fríða sársauki o.fl.) og Kjartan Guðnason bassaleikari sem léku rokkjólalög. Tvö þeirra, Stungið í stúf og Jólagrautur fengu einhverja spilun í útvarpi og er síðarnefnda lagið einkar athyglisvert en þar er nokkrum þekktum jólatextum skellt í syrpu nýrra fumsaminna laga sem eru tengd saman með nokkrum eldri stefjum. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fjarar grauturinn (og platan) út í tveggja mínútna lágt blístur.

Kósý – Kósý jól  (1995)
Kósý - Kósý jól

Kósý – Kósý jól

Margir muna eftir jólaplötunni Kósý jól með hljómsveitinni Kósý, platan þótti óvenju óvenjuleg þá þótt hún þætti það sjálfsagt ekki í dag. En það sem var öðruvísi við þessa plötu var hrá spilamennska og söngur þar sem feilnótur þóttu ekki skipta máli, og ungæðislegur menntaskólahúmorinn sem gladdi alla þá, og gerir enn því ennþá eru spiluð lög af plötunni í útvarpi. Hljómsveitin Kósý var skipuð skólapiltum úr Menntaskólanum í Reykjavík, sem í dag eru þekktir þjóðfélagsþegnar. Þar á meðal eru Ragnar Kjartansson myndlistamaður, Úlfur Eldjárn tónlistarmaður og Markús Þór Andrésson listsýningastjóri sem margir muna eftir úr sjónvarpi. Ragnar og Úlfur gerðu reyndar garðinn frægan í hljómsveitinni Kanada. Á plötunni nutu þeir aðstoðar Heiðu í Unun (Ragnheiðar Eiríksdóttur). Lagið Jólastelpa (sem hafði upphaflega verið á jólaplötu með Ómari Ragnarssyni) naut nokkurra vinsælda sem og Jólagjöf, sem margir höfðu áður þekkt í flutningi Kötlu Maríu.

Sólstrandargæjarnir – Uglujól (1995)
Sólstrandargæjarnir - Uglujól

Sólstrandargæjarnir – Uglujól

Þeir félagar Jónas Sigurðsson og Unnsteinn Guðjónsson gáfu út fjórar illa sungnar og illa spilaðar plötur á sínum tíma og náðu á þeim að gera nokkur lög tiltölulega vinsæl, þar á meðal hið ógleymanlega Rangur maður. Þeir léku og sungu á skemmtunum við nokkrar vinsældir þar sem keyrt var á vitleysunni og plöturnar voru aldrei hugsaðar sem einhver meistarastykki, síst Uglujól sem kom út 1995. Á Uglujólum var mestmegnis keyrt á erlendum jólalögum, hljóðfæraleikur í lágmarki, allt tekið upp læv og fyrsta taka sjálfsagt oftar en ekki látin standa. Líklega. Eftirminnilegustu lögin á plötunni eru Last Christmas sem reyndar heitir þarna Last X-mas og titillagið Uglujól, sem er reyndar afbökun á Blue Christmas. Svo má geta þess að lagið Rangur maður er þarna í eins konar dansútgáfu með enskum texta (að mestu) undir heitinu Wrong man (X-maX-miX) – og er náttúrulega ekki vitund jólalegt.

Spírabræður – Jólaglöggir (1998)
Spírabræður - Jólaglöggir

Spírabræður – Jólaglöggir

Þeir félagar í dúettnum Spírabræður vilja án efa gleyma þessu „bernskubreki“ sínu en fyrir jólin 1998 gáfu þeir Hans Steinar Bjarnason núverandi íþróttafréttamaður á RÚV og Gissur Örn Gunnarsson pírati út jólaplötuna Jólaglöggir. Þeir félagar voru þá viðloðandi útvarpsstöðina X-ið og voru lög af plötunni spiluð þar sem og á þeim útvarpsstöðvum sem þau voru ekki bönnuð. Lagið 12 dagar jóla var t.d. afbökun á hinu þekkta Þrettán dagar jóla og í stað þess að Jónas færði ljóðmælanda hinar ýmsu gjafir var það kærastan sem færði honum bjór og annað áfengi. Platan var reyndar sjö laga en önnur lög fengu aldrei neina spilun enda var um að ræða húmor sem hæfði stað og stund, fyrrgreint 12 dagar jóla er t.d. þarna í þremur mismunandi útgáfum. Bíræfið, óheflað, ódannað og óó.

Jóli Björn og Úlfur skemmtari –  Jólalög framtíðarinnar (1999)
Jóli Björn og Úlfur skemmtari - Jólalög framtíðarinnar

Jóli Björn og Úlfur skemmtari – Jólalög framtíðarinnar

Jólaplatan Jólalög framtíðarinnar var gefin út í litlu upplagi, um hundrað eintökum, af þeim Óla Birni Ólafssyni og Úlfi Eldjárn sem þarna kölluðu sig Jólabjörn og Úlf skemmtara. Platan er öðruvísi og líkast til sú ójólalegasta af þeim sem á listanum eru, reyndar byrjar hún nokkuð jólalega með stefjum úr laginu Jólasveinafylkingin sem margir muna eftir í flutningi Hurðaskellis og Stúfs, og í næsta lagi má líka heyra í leikkonunni Guðrúnu Stephensen (af plötunni Jólin hennar ömmu) í bland við ýmis raftónlistarhljóð sem þeir félagar gera tilraunir með á plötunni. Lengst af eiga þessar tilraunir litlar tengingar við jólin en inni á milli má þó heyra „jólaleg“ hljóð eins og sleðabjöllur og hreindýramurr. Þessi plata hljómar svolítið eins og jóladraumur á sýru, er líklega ekki nema fyrir þá allra hörðustu í bransanum og hentar klárlega ekki sem tónlist við smákökubakstur eða til að skapa jólastemmingu á Þorláksmessu. Kannski var það rétt sem þeir félagar Óli og Úlfur vildu meina, að svona yrðu jólalögin í framtíðinni. Verst að sú framtíð skuli ekki vera komin ennþá.

Gylfi og Gerður – gleðilega jólahátíð (2000)
Gylfi Ægisson - Gleðilega jólahátíð með Gylfa og Gerði

Gylfi og Gerður – Gleðilega jólahátíð með Gylfa og Gerði

Þessi óvenjulega jólaplata er eiginlega ómissandi á hverju heimili en á henni fara þau Gylfi Ægisson og Gerður Gunnarsdóttir þáverandi unnusta hans á kostum í þekktum og frumsömdum jólalögum við undirleik skemmtara. Þessi plata grípur alla frá fyrstu sekúndu og fá orð geta í raun lýst þeim gullmolum sem þarna er að finna. Þarna er t.a.m. að finna lagið Í skóginum stóð kofi einn, með báðum erindunum en þetta er hugsanlega eina platan sem hefur að geyma þau bæði. Félagarnir Valli og jökulnornin út Valla og snæálfunum koma líka við sögu á plötunni þannig að þarna er um að ræða alls herjar partí og samfellda skemmtun. Og plötunni lýkur á lokalagi flestra jólaplatna, Heims um ból, þarna í instrumental flutningi Gylfa. En þetta verður fólk auðvitað bara að heyra þó ekki til annars en að heyra Gylfa mjálma í gervi kattar.

Rúnk – jólin eru… (2001  )
Rúnk - Jólin eru...

Rúnk – Jólin eru…

Hljómsveitin Rúnk var upphafsreitur nokkurra þeirra tónlistarmanna sem í dag skipa framvarðarsveit íslensks tónlistarlífs, í sveitinni voru m.a. Benni Hemm Hemm, Prins Póló, Borko og múm-gengið. Fyrsta plata Rúnk var jólaplatan Jólin eru… og er jú öðruvísi. Þrátt fyrir það er platan afar jólaleg, full af frumsömdum jólalögum sem eru kúffull af jólaanda án þess að innihalda jólasveina, jólapakka eða annars konar jólavæmni. Þ.á m. er lag um mann sem vaknar á bar og áttar sig á að það eru komin jól, og hann sé búinn að eyða megninu af árinu á barnum. Þetta er létt og þægilegt kassagítarjólapopp fyrir þá sem vilja þægilega jólatónlist án þess að það sé búið að jóla um of yfir hana. Þrátt fyrir að platan sé eins konar bernskuflipp þeirra Rúnkliða, full af hæfilega vel sungnum og hæfilega vel spiluðum lögum ætti hún að henta öllum sem ekki vilja of mikil jól en vilja þó upplifa stemminguna, hér er sérstaklega mælt með laginu Jólin er‘ að koma. Plötuumslagið er afar jólalegt, jólapappír sem er límdur utan um hvítt pappaumslag.

Helgi og hljóðfæraleikararnir – Ég veit hvað þú gerðir um síðustu jól (2004)
Helgi og hljóðfæraleikararnir - Ég veit hvað þú gerðir um síðustu jól

Helgi og hljóðfæraleikararnir – Ég veit hvað þú gerðir um síðustu jól

Helgi Þórsson listamaður í Kristnesi í Eyjafirði hefur um árabil starfrækt hljómsveitina Helga og hljóðfæraleikarana, gefið út fjöldann allan af plötum og þar á meðal er að finna jólaplötuna Ég veit hvað þú gerðir um síðustu jól, sem er eins og nafnið gefur til kynna, óvenjuleg jólaplata enda er Helgi óvenjulegur tónlistarmaður með sérkennilega söngrödd og sérstaka nálgun á viðfangsefnið þar sem hæfileg vandvirkni og pönkhugsjónin verða öðrum þáttum tónlistarinnar yfirsterkari. Á plötunni er að finna sextán „sígild“ jólalög og þeirra á meðal eru lögin Alkar falla (Snjókorn falla), Skreytum tréð í einum grænum og Barist er í Betlehem, sem hefur t.d. að geyma eftirfarandi vísukorn: „Barist er í Betlehem / enginn er þar bjórinn / sprengjan mín og sprengjan þín / enginn er þar snjórinn. / Lalalalalalala / réttu mér nú bjórinn / lalalalalalala / réttu mér nú bjórinn. Ómissandi plata í safnið.

Stafrænn Hákon – Glussajól (2010)
Stafrænn Hákon - Glussajól

Stafrænn Hákon – Glussajól

Stafrænn Hákon (Ólafur Örn Jósepsson) hefur gefið út hátt í tuttugu plötur, misáhugaverðar eins og gengur og gerist. Jólaplatan Glussajól hefur að geyma þekkt íslensk og erlend jólalög í óvenjulegum raftónlistar búningum, bæði með original textum (Last Christmas, Do they know it‘s christmas o.fl.) og svokölluðum glussatextum (við íslensk jólalög) sem eru einmitt rauði þráðurinn á plötunni. Þarna eru lög á borð við Glussajól, Glussabarn, Glussahátíð o.s.frv. Hver vill ekki heyra línur á borð við þessar á aðventunni: „teipa þig við skrifborðsstól / við höldum glussajól“ eða „með lítinn glussageislabaug / hann lýsir desember“ eða „Glussi, glussi allsstaðar / það gleður mínar slagæðar / jólaljósin glussagljáð / sem glitrar jólagreinum á“? Semsagt glussajól!

Þetta eru semsagt tíu öðruvísi jólaplötur sem Glatkistan mælir með fyrir þá sem ekki vilja eingöngu heyra hefðbundna og venjulega jólatónlist á aðventunni. Vandamálið er hins vegar hversu erfitt er að nálgast þessa tónlist.