Jólatónlist (1926-)

Þuríður Pálsdóttir - JólasálmarJólaplötur er stærri partur af tónlistarútgáfu Íslendinga en margir gera sér grein fyrir. Ennþá kemur árlega út fjöldinn allur af slíkum plötum og eru sjálfsagt mun fleiri en fólk sér í almennum plötuverslunum, ástæðan fyrir því er hið mikla magn jólasafnplatna sem fyrirtæki hafa gefið út og sent viðskiptavinum sínum og velunnurum. Útgefnar jólaplötur á Íslandi skipta því hundruðum í gegnum tíðina, sjálfsagt tugum á ári hverju lengi vel.

Jólaplötur með frumsömdu efni eru sjaldséðari, algengasta form þeirra er safnplötur fullar af áður útgefnum „slögurum“ sem oft hafa litið dagsins ljós í svipuðum útgáfum, gjarnan skreyttar með barnakór og eða í syrpuformi, jafnvel með jólasvein sem kemur í heimsókn.

Síðustu þrjá áratugina hefur þó orðið nokkur breyting á jólalagatískunni, áður fyrr voru þetta öllu hefðbundnari jólalög, áðurnefndir slagarar, sálmar og þess konar lagasmíðar en í seinni tíð hefur það færst nokkuð í vöxt að taka erlend dægurlög (oftast evrópsk, ítölsk) og setja á þau íslenska jólatexta (og jólabjöllur á viðeigandi staði) og þannig verða þau vinsæl í flutningi okkar vinsælustu söngvara. Þessi aðferð hefur reyndar sætt nokkurri gagnrýni, ekki síst vegna þess að nýjar kynslóðir taka við þessum lögum og halda að þau séu upprunalega jólalög, reka síðan í rogastans þegar þær heyra upprunalegu útgáfuna.

Það þarf líklega ekki að koma á óvart að jólalag allra tíma, Heims um ból (Silent night) hafi orðið fyrst til að koma út á plötu á Íslandi enda hefur það komið út oftast allra laga í íslenskri tónlistarsögu, á yfir eitt hundrað plötum.

Eggert Stefánsson óperusöngvari gaf lagið út árið 1926 á tveggja laga 78 snúninga plötu en hin hliðin hafði að geyma Í Betlehem er barn oss fætt. Sigurður Skagfield og Pétur Á. Jónsson fylgdu í kjölfarið þremur árum síðar, Sigurður með Heims um ból og Pétur með Í Betlehem er barn oss fætt þannig að þetta voru án efa þau jólalög sem mest voru sungin á þeim tíma, Hreinn Pálsson söng svo bæði lögin inn á plötu 1930 en það var í fyrsta skiptið sem upptökur voru gerðar hérlendis, fyrri upptökur voru gerðar erlendis.

Heims um ból var enn á dagskránni þegar Dómkirkjukórinn undir stjórn Páls Ísólfssonar söng það fyrstur kóra inn á plötu 1933 (ásamt Í dag er glatt í döprum hjörtum) og Elsa Sigfúss varð fyrst kvenna til að syngja jólalag inn á plötu 1945, og enn varð Heims um ból fyrir valinu. Nokkur þáttaskil urðu einnig þegar Anný Ólafsdóttir, þá aðeins ellefu ára gömul, söng lagið á plötu 1952, fyrsta barnastjarnan.

Ingibjörg Þorbergs varð aftur á móti fyrst til að gefa út eigið jólalag, Hin fyrstu jól, á tveggja laga plötu 1954, það var jafnframt fyrsta jólalagið hérlendis á plötu sem ekki var sálmur.

Ingibjörg Þorbergs - Hin fyrstu jól oflNokkur tímamót urðu þegar platan Jólasálmar með Þuríði Pálsdóttur kom út hjá Fálkanum 1958 en það var í fyrsta skiptið sem stór jólaplata kom út, hún hafði að geyma hefðbundna jólasálma eins og titillinn ber með sér.

Haukur Morthens var hins vegar fyrstur til að senda frá sér stóra plötu með léttum jólalögum, það var árið 1964 og Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur gaf plötuna út. Hún bar heitið Hátíð í bæ: 20 jóla- og barnasöngvar og hefur sú plata fyrir margt löngu orðið í hópi vinsælustu jólaplatna íslenskrar tónlistarsögu.

Með plötu Hauks komu margs konar nýjungar, t.d. jólasyrpan sem inniheldur nokkur sígild barnalög á við Þyrnirós var besta barn, Göngum við í kringum, Litlu andarungarnir o.fl. (sem varla teljast þó raunveruleg jólalög), og það að setja Heims um ból sem síðasta lag plötunnar en í dag eru a.m.k. fjörtíu plötur sem komið hafa út með það síðast laga.

Á sjöunda og áttunda áratugnum var Svavar Gests duglegur að gefa út jólaplötur, bæði litlar og stórar undir merkjum SG-hljómplatna, og urðu einkum plötur Ómars Ragnarssonar þekktar en hann naut dyggrar aðstoðar Gáttaþefs við gerð platna sinna. Plöturnar urðu alls þrjár með Ómari og Gáttaþefi á árunum 1966-71 en einnig má í þessu samhengi nefna plötur Ellyjar og Vilhjálms Vilhjálmssonar, Svanhildar Jakobsdóttur og Guðmundar Jónssonar og Guðrúnar Á. Símonar.

SG-hljómplötur gáfu reyndar út alls átján jólaplötur (þar af sextán stórar) á þeim tuttugu árum sem útgáfan starfaði. Það má því segja að Svavar hafi verið einráður á markaðnum um árabil en þegar Ýmis-útgáfan (í eigu Gunnars Þórðarsonar) gaf út plötuna Jólastjörnur 1976 varð fyrsta eiginlega jólasafnplatan til.

Gunnar fékk til liðs við sig þá bræður Halla og Ladda, Ríó tríó og Björgvin Halldórsson auk annarra en þetta upphaf markaði um leið upphaf Björgvins Halldórssonar að jólalagaferlinum en hann átti eftir að verða konungur jólalaganna á Íslandi. Á Jólastjörnum heyrðust bæði jólasveinar, barnakór og félagarnir Glámur og Skrámur og nutu þeir nú mikilla vinsælda fyrir sprell sitt, sem dró reyndar dilk á eftir sér þar eð þeir bræður, Halli og Laddi sem léku kvikindin, áttu ekki höfundaréttinn af Glámi og Skrámi. Það er þó önnur saga.

Bo1Flestar léttari jólaplötur sem fylgdu á eftir urðu í sama dúr, barnakór og sprell í bland. Ómar, Laddi og félagarnir Magnús Ólafsson og Þorgeir Ástvaldsson (í gervi Hurðaskellis og Stúfs) komu við sögu á ýmsum plötum, og jafnvel Bryndís Schram, en einnig öllu hefðbundnari skemmtikraftar og söngvarar eins og Haukur Morthens, Ragnar Bjarnason, Helga Möller (sem varð ókrýnd drottning jólalaganna um árabil) o.fl. Ekki má heldur gleyma sjálfri Ingibjörgu Þorbergs en plata með jólalögum hennar kom út í flutningi margs af okkar þekktasta tónlistarfólki.

Þess á milli birtust hinir og þessir kórar með hátíðlegri jólaplötur en þær nutu engan veginn jafn mikilla vinsælda þótt þær séu yfirleitt taldar eigulegri en þær fyrrtöldu. Einnig reyndu stöku einstaklingar fyrir sér í jólaplötuútgáfunni, sem og hljómsveitir en það hefur aldrei þótt fjárhagslega hagkvæmt. Þróunin hefur því orðið sú í seinni tíð að flestar jólaplötuútgáfur eru í formi safnplatna sem innihalda áður útgefið efni, þannig koma lög Ómars og Gáttaþefs annars vegar og Gláms og Skráms hins vegar reglulega út.

Björgvin Halldórsson hefur eins og segir hér að framan orðið með tímanum stærstur jólasöngvara á landinu eins og jólatónleikaröðin Jólagestir Björgvins staðfestir en samnefndar plötur hafa einnig komið út með honum. Diddú (Sigrúnu Hjálmtýsdóttur) má einnig nefna sem fastagest á jólunum en hún hefur gefið út jólaplötur og verið gestur á jólaplötum annarra reyndar eins og Sigríður Beinteindóttir, Stefán Hilmarsson, Hera Björk Þórhallsdóttir og fleiri.

Einstaka tónlistarmenn senda frá sér eitt og eitt jólalag sem hafa orðið að sígildum perlum þótt viðkomandi hafi aldrei gefið út heila plötu, er í því samhengi rétt að nefna hið ódrepandi jólalag Sniglabandsins, Jólahjól en einnig hafa sveitir eins og Skítamórall, Dikta, Land og synir og Stuðkompaníið sett sitt mark á jólahátíðina með þeim hætti.

Sjaldséðara er að hljómsveitir gefi út jólaplötur en þó má nefna Sixties og áður fyrr Savanna tríóið og Þrjú á palli.

Sixties - JólaæðiNokkrir hafa fylgt í fótspor Björgvins Halldórssonar síðustu árin með árlegu jólatónleikahaldi og plötuútgáfu í kjölfarið, þannig hafa Baggalútur, Sigurður Guðmundsson, Stefán Hilmarsson, Frostrósir, Sigríður Thorlacius, KK & Ellen, Ragnheiður Gröndal, Svavar Knútur og Kristjana Stefánsdóttir auk fleiri tekið þátt í tónleikahaldi aðventunnar og selt grimmt, bæði tónleikamiða og plötur.

Sé þetta dregið saman má segja að Björgvin Halldórsson sé sá einstaklingur hérlendis sem ber höfuð og herðar yfir aðra í jólalagabransanum í dag, aðrir hafa farið í hjólför hans á síðustu árum með ágætum árangri, jólasafnplötur með blönduðu efni og sprelli eru ennþá einkennandi og plötur með kórum koma alltaf út þótt ekki sé það alltaf líklegt til vinsælda, flestar eiga þessar plötur það þó sammerkt að innihalda jólalagið sem kom fyrst út allra á Íslandi, Heims um ból, og mætti því segja að mikil þróun hafi átt sér stað í jólalagaflóru landans þótt menn haldi alltaf í upprunann.

Sé íslenskum jólaplötum skipt í flokka mætti setja þá flokkun með eftirfarandi hætti:

Einsöngvarar og kórar

Einstaklingar og hljómsveitir

Jólasafnplötur með nýju og óútgefnu efni

Jólasafnplötur með áður útgefnu efni