Frá Heims um ból til stórtónleika Bó: ágrip af sögu jólaplatna á Íslandi

Jólaplötur skipa stóran sess í tónlistarlífi Íslendinga. Árlega kemur út fjöldinn allur af slíkum plötum og eru sjálfsagt mun fleiri en fólk gerir sér grein fyrir, ástæðan fyrir því er það mikla magn jólasafnplatna sem fyrirtæki gefa út og senda viðskiptavinum sínum og velunnurum, og rata ekki endilega í plöturekkana. Útgefnar jólaplötur á Íslandi skipta því hundruðum í gegnum tíðina, sjálfsagt tugum á ári hverju. Jólaplötur með frumsömdu efni eru sjaldséðar, algengasta form þeirra er safnplötur fullar af áður útgefnum „slögurum“ sem oft hafa litið dagsins ljós í svipuðum útgáfum, gjarnan skreyttar með barnakór og eða í syrpuformi, jafnvel með jólasvein sem kemur í heimsókn.

Á síðustu árum hefur þó orðið nokkur breyting á jólalagatískunni, sem fyrr segir voru þetta áður fyrr oftast öllu hefðbundnari jólalög, áðurnefndir slagarar, sálmar og þess konar lagasmíðar en í seinni tíð hefur það færst nokkuð í vöxt að taka erlend dægurlög (oftast evrópsk) og setja á þau íslenska jólatexta (og jólabjöllur á viðeigandi staði) og þannig verða þau vinsæl í flutningi okkar vinsælustu söngvara. Þessi aðferð hefur reyndar sætt nokkurri gagnrýni, ekki síst vegna þess að nýjar kynslóðir taka við þessum lögum og halda að þau séu upprunalega jólalög, reka síðan í rogastans þegar þær heyra upprunalegu útgáfuna. Það var þó ekkert einsdæmi áður fyrr að erlent lög fengju upplyftingu, á jólaplötum Ómars Ragnarssonar má t.d. heyra nokkur slík dæmi.

Hið ómissandi Heims um ból

Eggert Stefánsson (2)

Eggert Stefánsson

Það þarf líklega ekki að koma á óvart að jólalag allra tíma Heims um ból (Silent night), hafi orðið fyrst til að koma út á plötu á Íslandi enda hefur það komið út oftast allra laga í íslenskri tónlistarsögu, á yfir eitt hundrað plötum.

Eggert Stefánsson óperusöngvari gaf lagið út árið 1926 á tveggja laga 78 sn. plötu en hin hliðin hafði að geyma Í Betlehem er barn oss fætt. Sigurður Skagfield og Pétur Á. Jónsson fylgdu í kjölfarið þremur árum síðar, Sigurður með Heims um ból og Pétur með Í Betlehem er barn oss fætt þannig að þetta voru án efa þau jólalög sem mest voru sungin, Hreinn Pálsson söng svo bæði lögin inn á plötu 1930.

Heims um ból var enn á dagskránni þegar Dómkirkjukórinn undir stjórn Páls Ísólfssonar söng það fyrstur kóra inn á plötu 1933 (ásamt Í dag er glatt í döprum hjörtum) og Elsa Sigfúss varð fyrst kvenna til að syngja jólalag inn á plötu 1945, og enn varð Heims um ból fyrir valinu. Nokkur þáttaskil urðu einnig þegar Anný Ólafsdóttir, þá aðeins ellefu ára gömul, söng lagið á plötu 1952, fyrsta barnastjarnan.

Hefðbundið form jólaplötunnar verður til

Nokkur tímamót urðu þegar platan Jólasálmar með Þuríði Pálsdóttur kom út hjá Fálkanum 1958 en það var í fyrsta skiptið sem stór jólaplata kom út, hún hafði að geyma hefðbundna jólasálma eins og titillinn ber með sér.

Haukur Morthens - Hátíð í bæ

Haukur Morthens – Hátíð í bæ

Haukur Morthens var hins vegar fyrstur til að senda frá sér stóra plötu með léttum jólalögum, það var árið 1964 og Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur gaf plötuna út. Hún bar heitið Hátíð í bæ: 20 jóla- og barnasöngvar, og hefur sú plata fyrir margt löngu orðið í hópi vinsælustu jólaplatna íslenskrar tónlistarsögu. Hún var endurútgefin fyrir fáeinum árum í vinylformi, en því miður ekki með upphaflega plötuumslaginu. Með þessari plötu birtust margs konar nýjungar sem urðu síðan að hefðbundnu formi slíkra platna, t.d. jólasyrpan sem inniheldur nokkur sígild barnalög á borð við Þyrnirós var besta barn, Göngum við í kringum o.fl. (sem varla teljast þó raunveruleg jólalög), og það að setja Heims um ból sem síðasta lag plötunnar en í dag eru a.m.k. fjörutíu plötur sem komið hafa út með það sem lokalag.

Sprellijól

Ómar Ragnarsson - Gáttaþefur í glöðum hóp [rauð]

Ómar Ragnarsson – Gáttaþefur í glöðum hópi

Í kjölfar plötu Hauks varð Svavar Gests duglegur að gefa út jólaplötur, bæði litlar og stórar, undir merkjum SG-hljómplatna, og urðu einkum plötur Ómars Ragnarssonar þekktar en hann naut dyggrar aðstoðar Gáttaþefs við gerð platna sinna. Plöturnar urðu alls þrjár með Ómari og Gáttaþefi á árunum 1966-71 en á þessum plötum hófst hin eiginlega sprellijólatíð sem svo mætti nefna.

SG-hljómplötur gáfu reyndar út alls átján jólaplötur á þeim tveimur áratugm sem útgáfan starfaði. Það má því segja að Svavar hafi verið einráður á markaðnum um árabil en þegar Ýmis-útgáfan (í eigu Gunnars Þórðarsonar) gaf út plötuna Jólastjörnur 1976 varð fyrsta eiginlega jólasafnplatan til.

Gunnar fékk þá til liðs við sig þá bræður Halla og Ladda, Ríó tríó og sjálfan Björgvin Halldórsson auk fleiri en þetta upphaf markaði um leið upphaf jólalagaferils Björgvins en hann átti eftir að verða konungur jólalaga á Íslandi. Á Jólastjörnum heyrðust bæði jólasveinar, barnakór og félagarnir Glámur og Skrámur og nutu þeir nú mikilla vinsælda fyrir sprell sitt, sem dró reyndar dilk á eftir sér þar eð þeir bræður, Halli og Laddi sem léku kvikindin, áttu ekki höfundaréttinn af Glámi og Skrámi. Það er þó önnur saga.

Flestar léttari jólaplötur sem fylgdu á eftir voru í sama dúr, söngvarar, barnakórar og sprell í bland. Ómar, Laddi og félagarnir Magnús Ólafsson og Þorgeir Ástvaldsson (í gervi Hurðaskellis og Stúfs) komu við sögu á ýmsum plötum, og jafnvel Bryndís Schram. Í seinni tíð hafa Strumparnir, Latabæjargengið og aðrir þekktir barnavinir birst á slíkum plötum á jólaplötumarkaðnum.

Þáttur einstaklinga og kóra

Diddú - Jólastjarna

Diddú – Jólastjarna

Lengi vel heyrði til undantekninga að einstaklingar gæfu út jólaplötur, áðurnefndar plötur Þuríðar Pálsdóttur og Hauks Morthens voru plötútgefendum ekki endilega hvatning til að gefa fleiri slíkar út, Vilhjálmur og Elly Vilhjálms sungu jólalög snemma á áttunda áratugnum sem og Svanhildur Jakobsdóttir og einhverjar kóraplötur höfðu þá þegar haft að geyma jólalög, en að öðru leyti gerðist lítið í þeim málum.

Það er í raun ekki fyrr en á síðari áratugum sem útgáfa jólaplatna einstaklinga (og dúetta) hefur færst í vöxt, Stefán Hilmarsson, Helga Möller, Sigurður Guðmundsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Sigríður Beinteinsdóttir, Friðrik Ómar, Hera Björk, Kristjana Stefáns og nokkrir fleiri hafa þó látið vaða og þrátt fyrir að ávinningur sé e.t.v. ekki mikill og salan bundin við eins og hálfs mánaðar tímabil á ári, þá getur slík plata selst í mörg ár. Enn sjaldgæfara er að jólaplötur hljómsveita líti dagsins ljós, þó má nefna Sixties, Baggalút, Bogomil Font ásamt Stórsveit Reykjavíkur og Þrjú á palli. Hitt er mun algengara að hljómsveitir gefi út eitt og eitt lag sem rata oft á safnplötur, s.s. Land og synir, Dikta, Stuðkompaníið, Greifarnir, Í svörtum fötum og svo ekki sé minnst á Sniglabandið með sitt ódrepandi Jólahjól.

Hinir og þessir kórar gefa ennþá reglulega út jólaplötur, þær eru ófáar en ná fæstar útvarpshylli. Það er helst að minni söngflokkar hafi slegið í gegn, Borgardætur, Brooklyn fæv, Rúdolf og þess háttar.

Jólatónleikar og tengd plötuútgáfa

Björgvin Halldórsson - Allir fá þá eitthvað fallegt

Björgvin Halldórsson – Allir fá þá eitthvað fallegt…

Björgvin Halldórsson hefur eins og segir hér að framan orðið með tímanum stærstur jólasöngvara á landinu og heldur orðið árlega risatónleika undir yfirskriftinni Jólagestir Björgvins en samnefndar plötur hafa einnig komið út með honum. Frostrósir, hópur stórsöngdíva, hefur einnig um árabil tekið þátt í samkeppninni um jólatónleika, systkinin KK og Ellen, Baggalútur og fleiri. Þróunin hefur því orðið sú hin síðustu ár að helstu tónleikahús landsins, Harpan, Laugardalshöllin, Háskólabíó, Hof og Salurinn hafa verið undirlögð af slíkum jólatónleikum og færri komast að en vilja, og borga meira fyrir miðann en nokkru sinni fyrr. Ýmist hefur þá tónlistarfólkið gefið út jólaplötu sem fylgt er eftir með slíku tónleikahaldi eða að tónleikarnir eru síðar gefnir út á plötum.

Sé þetta dregið saman má segja að í gegnum tíðina hafi safnplöturnar notið hvað mestra vinsælda, sprelligosarnir Ómar Ragnarsson og félagarnir Glámur og Skrámur voru framan af stór hluti þeirra sem og hinir og þessir söngvarar. Hin síðari ár hafa stórtónleikar og plötuútgáfa þeim tengd bæst í flóruna sem ómissandi atburður á aðventunni og hafa að einhverju leyti e.t.v. tekið við af jólaglögginu og –hlaðborðunum sem virðast vera á undanhaldi. Björgvin Halldórsson er líkast til sá einstaklingur hérlendis sem ber höfuð og herðar yfir aðra í jólalagabransanum í dag.

Jólasafnplötur með blönduðu efni og sprelli eru samt sem áður mest einkennandi við jólavertíðina og plötur með kórum koma alltaf út þótt ekki sé það alltaf líklegt til vinsælda, flestar eiga þessar plötur það þó sammerkt að innihalda jólalagið sem kom fyrst út allra á Íslandi, Heims um ból, og mætti því segja að mikil þróun hafi átt sér stað í jólalögum landans þótt menn haldi alltaf í upprunann.