Ragnheiður þriðja vinsælasta sýning Íslensku óperunnar frá upphafi

Ragnheiður2 - úr óperunni

Frá sýningu Íslensku óperunnar á Ragnheiði

Óperan Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson hefur nú skipað sér í þriðja sætið á lista yfir aðsóknarmestu óperusýningar Íslensku óperunnar frá stofnun hennar í upphafi 9. áratugarins. Hátt í 15.000 manns hafa nú séð sýninguna eða keypt miða á þær tvær aukasýningar sem verða á verkinu milli jóla og nýárs í Eldborg í Hörpu.

Ragnheiður var frumsýnd í Íslensku óperunni í Hörpu þann 1. mars síðastliðinn, eftir að hafa verið flutt í tónleikaformi í Skálholti sumarið 2013. Sýningin sló samstundis í gegn og spöruðu gestir og gagnrýnendur ekki hrósyrðin. Alls voru níu sýningar í vor og voru þær allar uppseldar. Sýningin hlaut síðan 10 tilnefningar til Grímunnar í ár og í kjölfarið þrenn verðlaun, þar á meðal Sýning ársins 2014. Þá voru tveir aðalsöngvarar sýningarinnar, Þóra Einarsdóttir í hlutverki Ragnheiðar og Elmar Gilbertsson í hlutverki Daða, nýverið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir hlutverk sín í sýningunni.

Aðeins óperurnar Sígaunabaróninn og Töfraflautan, sem báðar voru færðar upp á árinu 1982 í Gamla bíói, voru aðsóknarmeiri sýningar en Ragnheiður.

Tvær aukasýninsgar verða á Ragnheiði á milli jóla og nýárs, þann 27. desember og 28. desember, en það eru ennfremur allra síðustu sýningar á óperunni.