Grísalappalísa – Rökrétt framhald
12T065, 2014

Grísalappalísa – Rökrétt framhald
Grísalappalísa er rétt að verða þriggja ára gömul sveit en hefur þegar þetta er skrifað þó gefið út tvær breiðskífur og tvær vínylsmáskífur (sjö tommur) með ábreiðulögum eftir Megas og Stuðmenn þannig að hún er afkastameiri en flestar aðrar, það eru e.t.v. bara fáeinar sveitir eins og Utangarðsmenn og Purrkur pillnikk sem hægt er að segja að hafi afkastað meiru á jafnskömmum tíma, og samlíkingin og tengingin við Purrkinn er jafnvel meiri en afköstin ein og sér. Lísan með sitt ferska saxapönk þykir líka kröftug og skemmtileg á sviði líkt og Purrkurinn var, sem og svo textarnir og söngstíllinn.
Fyrri breiðskífa Grísalappalísu, Ali hlaut fádæma góðar viðtökur og var meðal þeirra sem menn nefndu sem plötu ársins á síðasta ári og það var því ekki laust við að ég hlakkaði til að heyra nýju afurðina, Rökrétt framhald sem kom út fyrir skömmu.
Og það er skemmst frá því að segja að titill plötunnar stendur gjörsamlega undir sér, á fyrri plötunni var sveitinni mikið niðri fyrir en hér hafa þeir eins og komið meira skipulagi á aggressíva óreiðuna án þess að missa neitt, þeim er jafn niðri fyrir og áður en eru ja… fágaðri á einhvern hátt. Rökrétt framhald.
Söngvararnir Gunnar Ragnarsson og Baldur Baldursson hafa báðir skemmtilegan söngstíl/-áherslu (sem þeir nýta sér óspart á sviðinu), þeir eru ekki endilega bestu söngvarar í heimi en hafa eitthvert næmi fyrir því að koma textunum til skila og það án þess að nota of margar nótur enda eru þeir meira talaðir en sungnir, ekki ólíkt Einari Erni söngvara Purrks Pillnikk. Krafturinn í sveitinni skilar sér prýðilega á plötunni en þeir eiga sér líka sínar mýkri hliðar eins og í lokalaginu.
Lögin semur sveitin að mestu í sameiningu en Albert gítarleikari kemur reyndar mjög sterkur inn í tveimur lögum sem hann semur, sérstaklega í laginu Nýlendugata – Pálsbæjarvör – Grótta. Annars eru lögin Allt má (má út) II: Íslands er lag (sem er framhald af samnefndu lagi af fyrri plötunni), ABC og Flýja líka góð, sem og lokalagið Sá mig í spegli (Káinn), sem hefur einmitt að geyma ljóðlínur eftir Káin. Lokalagið klárast á strengjasveit og fjarar hljóðlega út. Vel gert.
Þó að Káinn sé einn um að fá vísu eftir sig á plötunni má sjá og heyra skírskotanir til bæði Megasar og Súkkat ef vel er gáð – og e.t.v. fleiri. Og talandi um textana, margt er virkilega gott í mis torræðum ljóðum Baldurs (og Gunnars) en það þarf að rýna í ljóðin og þá kemur dýrmætt textablaðið til sögunnar, textablaðið sem hvorki er með ólæsilegu letri né mengað af óskiljanlegri ofhönnun sem mér virðist grafískir hönnuðir oft þjakaðir af. Textarnir eru mikið í núinu, upplifun á augnablikinu, hraðir, samþjappaðir, lausir við formið en fullir af meiningu. Þeir félagar hafa líka valda á einhverjum kaldhæðnislegum realisma í t.d. myndlíkingum s.s. „þar sem þung rafmygluský tóna yfir borginni meðan akranes logar þægilega í fjarska“ og síðar í sama texta „þar sem gul&rauð steypujólatré risu upp þétt í eitís“ og Eiðsgrandinn birtist manni ljóslifandi í kvöldsólinni. Á bakhlið textablaðinu er síðan enn ein vísunin, Born in the USA cover Bruce Springsteen. Skemmtilegt.
Maður hefur á tilfinningunni að þegar þeir uppgötva formið og bragfræðina sem ég er reyndar ekki í nokkrum vafa um að þeir þekki nú þegar í þaula, jafnvel kommuna og önnur greinamerki, þá séu þeir komnir á alvöru textastall með Megasi (sem þeir hafa nú svosem starfað með) og fáum útvöldum en það er bara mitt mat. Þannig að maður bíður í ofvæni eftir áframhaldandi rökréttu framhaldi.