Er breiðskífan liðin undir lok? – Hugleiðing um útgáfuformið

Oft er sagt að sagan fari í hringi, ekkert nýtt sé undir sólinni og þar fram eftir götunum. Tónlistin er þar engin undantekning og tilraunir manna á síðustu áratugum til að gera tónlist sem hljómar eins og eitthvað alveg nýtt hafa þynnst út í eitthvað kunnuglegt. Margir kunna hins vegar að segja að með aukinni tækniþekkingu verði útgáfuform tónlistarinnar sífellt þróaðra og um leið betra, þar fari sagan ekki í hringi og við njótum tónlistarinnar sjálfrar æ betur vegna þess. Það er vissulega rétt í því að við njótum tónlistarinnar í betri græjum og aðgengi hennar er þægilegra að öllu leyti, nú þarf í dag ekki annað en að sækja tónlistina á netið, borga örfáar krónur fyrir hana og njóta en það er auðvitað bara hluti málsins. Hljómgæðin þurfa til dæmis ekki að vera betri en áður, tónlistin er samanþjappaðri á stafrænu formi og því í lélegri gæðum þótt græjurnar séu betri. En það er útgáfuformið sjálft sem hér er hugleitt aðeins – að nú getum við senn gefið út dánarvottorð á breiðskífuna, þar sé sagan komin í hring og það er sannarlega neikvæð þróun að mínu mati.

Megas og Spilverk þjóðanna - Á bleikum náttkjólum

Megas & Spilverk þjóðanna – Á bleikum náttkjólum

Í stuttu máli, þegar tónlist fór að koma fyrst út í upphafi síðustu aldar á vaxhólkum, stálþræði og síðan smáskífum (glerplötum og síðar vínyl, sjálfsagt fleiri efnum sem ég kann ekki að nefna) þá komu út stök lög, þ.e. 78 snúninga plöturnar höfðu venjulega að geyma tvö lög, stundum bara jafnvel eitt og stundum þrjú. Þegar tæknin þróaðist enn fremur komu út 45 snúninga plötur (fyrsta íslenska 45 snúninga platan kom út um miðjan sjötta áratuginn) sem höfðu að geyma allt upp í fjögur lög eða fleiri, og þegar fyrsta breiðskífan kom út  (um svipað leyti og 45 snúninga platan) jukust möguleikarnir á að heyra frá átta og upp í tólf lög á einni plötu. Það sem mestu skipti þarna máli var að kaupandinn gat nú keypt heila plötu með listamanninum/mönnunum, eina heild sem hann gat hlustað á, metið tónlistina og tónlistarmanninn út frá henni og kynnst raunverulega því sem listamaðurinn hafði fram að færa. Hver kannast ekki við að ræða um plötur sem heild, Sgt. Peppers, Pet sounds, Á bleikum náttkjólum, Ísbjarnarblús o.s.frv? Hvað þá klassísk verk sem ekki verða metin án heildarsýnarinnar. Smáskífan (45 snúninga platan) varð fyrst og fremst sölutrikk þar sem lögum líklegum til vinsælda var skellt á eins konar kynningarskífu áður en sjálf breiðskífan kæmi út, sem agn. Auðvitað var þetta ekki eingöngu á þann veg og margir tónlistarmenn á Íslandi gáfu út smáskífur án þess að nokkuð meira kæmi frá þeim. En allavega, þarna var komið form sem hélst óbreytt um árabil, í áratugi. Formið varð hefðbundið, fólk keypti breiðskífur á vínylformi og þegar geisladiskurinn kom til sögunnar á níunda áratugnum (fyrstu íslensku geisladiskarnir komu eftir miðjan áratuginn) hélst breiðskífuformið í föstum skorðum, fólk hlustaði á plötur sem höfðu að geyma jú jafnvel fleiri lög en áður, allt upp í sextán eða fleiri, en það var ekki endilega söluvænlegra og tónlistarmennirnir fundu að tólf til fjórtán laga plötur væri hæfilegur skammtur.

Þegar hér var komið sögu voru útvarpsstöðvarnar, sem fjölgaði mjög eftir afnám einokunar ríkisútvarps, farnar að gera svokallaða playlista eða lagalista þar sem ýtt var undir að einungis fá lög fengu spilun, það breytti því ekki að þenkjandi tónlistaráhugafólk spilaði áfram sínar tólf til fjórtán laga plötur, mat þær að gæðum eftir heild og fékk þannig vitræna og heildstæða eigin mynd af listamanninum án þess að láta spilastokka útvarpsstöðva hafa áhrif á skoðun sína, þannig gat honum fundist besta lag plötunnar vera lag sem fáir aðrir höfðu heyrt. Frábært mál, og hinir gátu áfram látið mata sig.

itunes-logo

Tónlistarveitur ýta undir sölu á stökum lögum

Svo leið að aldamótum og fram yfir þau og þá fóru að berast stafrænir tónar a la mp3 og fleira í auknum mæli, jújú – frábært og flestir fundu að þetta var þægilegt, þar til gerðir tónlistarspilarar gátu geymt þúsundir lagatitla og tónlistaráhugamenn kættust með fjölbreytta tónlistina í eyrunum án þess að þurfa að skipta um disk eða kassettu (man fólk ekki ennþá eftir vasadiskóinu?) Samhliða þessari aukinni tækni var einnig hægt að kaupa tónlistina á netinu góða og auðvitað var ekkert nema gott um það að segja – að vísu ýtti það undir að tónlistarmennirnir sjálfir fengju minna í sinn hlut en fólk hafði auðvitað fram að því rippað tónlist inn á tölvurnar og tekið upp á spólur án þess að mikið væri amast við því. Vendipunkturinn hér að mínu mati er hins vegar að með því að útgáfa og sala tónlistar færðist frá efnislegri útgáfu í plötubúðum yfir í stafræna útgáfu á tónlistarveitum á netinu, þá glataðist sú heildarsýn neytandans á tónlistarmanninn sem lýst er hér að ofan – þá hætti neytandinn að kaupa plötur en kaupir þess í stað stök lög á þar til gerðum tónlistarveitum. Og þar liggur kjarninn að mínu mati, við erum komin í hring og erum aftur farin að kaupa eitt og eitt lag eins og þegar fyrstu 78 snúninga plöturnar voru að koma út. Frjálsi síbyljuútvarpsreksturinn á ekki síður sök á því með því að ýta undir vinsældir einstakra laga, og hjörðin fylgir eftir og kaupir nú á tónlistarveitunum eitt til tvö lög með hverjum flytjanda.

Og nú væri hægt að spyrja – hvað er svona slæmt við þetta? Jú það styður ekki beint listrænan metnað tónlistarfólks ef fólk hættir að kaupa plöturnar þeirra og kaupir þess í stað bara stök lög, kannski tvö. Öll vinnan við að gera metnaðarfulla breiðskífu verður að engu og einskis metin og verður aðeins til þess að nýtt tónlistarfólk sem kemur inn á markaðinn, tekur upp eitt lag og kynnir á Youtube og selur á netinu – eða selur ekki. Þá er bara að hræra í næsta lag og gefa út, jafnvel undir öðru nafni. Og þegar sami tónlistarmaður hefur gefið út tíu eða tuttugu lög með þessum hætti, verður úr einhver samsuða tónlistar sem viðkomandi gefur e.t.v. út á efnislegu formi, en sem gefur enga heildstæða mynd af honum. Þetta lítur svolítið út eins og húsasmiður sem er ófær um að byggja hús en er rosalega góður í að byggja herbergi.

Með öðrum orðum – með tilkomu aukinnar tækniþekkingu, nettónlistarveitna og með góðri hjálp síbyljustöðvanna hefur orðið til eins konar onehitwonder-vænt umhverfi sem letur tónlistarmenn til metnaðargjarnra heildstæðra verka en hvetur aftur á móti til að fólk sendi frá sér stök lög, jafnvel hálfkláruð í ljósi þess að upptökutæknin hefur einnig orðið aðgengilegri fólki sem hefur lítt kynnst tónlist fram að þessu. Í versta falli sé ég fyrir mér að eftir fáein ár þegar útgáfan verður orðin alstafræn og alóefnisleg eins og allt bendir til, að þá verði erfitt að finna ungt tónlistarfólk  sem hefur fram að færa tónlist sem hefur heildarmynd eða –svip, aðeins ómarkviss pússl sem engin leið er að henda reiður á. Þá verða menn hættir að ræða hluti eins og Sgt. Peppers, Pet sounds, Á bleikum náttkjólum og Ísbjarnarblús. Ljósið í myrkrinu er vínylvakningin sem er vonandi eitthvað meira en skammtíma tískufyrirbæri. En sagan hefur farið í hring, við erum aftur komin á upphafspunkt þótt ekki sé um að ræða vaxhólka eða glerplötur í þetta skiptið.