Alfa beta [1] (1975-84)

Alfa beta 1976

Alfa beta

Hljómsveitin Alfa beta verður seint talin meðal sveita sem breyttu íslenskri tónlistarsögu en hún gerði einkum út á létta ábreiðutónlist fyrir ballgesti á síðari hluta áttunda áratugar síðustu aldar, hljómsveitin gerði þó betur en margar aðrar sveitir í því að hún gaf út plötu, þar sem uppistaðan var gömul erlend lög með íslenskum textum.

Alfa beta var stofnuð haustið 1975 og voru meðlimir í upphafi Guðmundur Haukur Jónsson (Roof tops o.fl.) söngvari og hljómborðsleikari, Atli Viðar Jónsson (Borgis) bassaleikari og Halldór Olgeirsson (Acropolis) trommuleikari.

Þremenningarnir höfðu þá sérstöðu frá upphafi að vera gítarleikaralausir og keyrðu á bassa, trommum og hljómborði en nýttu sér hins vegar söngraddirnar til uppfyllingar. Alfa beta fór af stað frá upphafi með það að markmiði að skemmta fólki og spilaði því nær eingöngu eldri slagara á böllum sínum, brennivínstónlist eins og það var gjarnan kallað á þeim tíma. Fyrsta misserið lék sveitin aðallega á öldurhúsum borgarinnar en það breyttist síðar og þeir fikruðu sig einnig út á landsbyggðina. Ágúst Atlason (Ríó tríó, Nútímabörn o.fl.) tók við bassaleiknum af Atla Viðari í byrjun árs 1977 og sveitin hélt uppteknum hætti í spilamennsku sinni.

Mörgum að óvörum gaf hún út hljómplötuna Velkomin í gleðskapinn, 1978 sem hafði að mestu að geyma sams konar lög og sveitin hafði leikið á böllum, þ.e. eldri erlend lög en nú með íslenskum textum, fjögur laganna voru þó íslensk. Platan hlaut fremur neikvæðar viðtökur gagnrýnenda og til að mynda fékk hún mjög slaka dóma í Morgunblaðinu. Alfa beta starfaði þó eitthvað áfram eftir útgáfu plötunnar en þar kom að þeir hættu í ársbyrjun 1980, sveitin birtist þó aftur á sjónarsviðið vorið 1982 og starfaði þá í tvö ár áður en hún hætti endanlega.

Þrátt fyrir útgáfu plötunnar Velkomin í gleðskapinn hafa lög sveitarinnar ekki náð fótfestu í heimi sígildra popplaga, til þess var innihaldið of klént. Að sama skapi hafa þremenningarnir ekki séð ástæðu til að endurútgefa hana á geislaplötu.

Efni á plötum