G.G. Gunn (1958-)

G.G. Gunn

Gísli Þór Gunnarsson (f. 1958) starfaði sem trúbador um tíma og kallaði sig G.G. Gunn, hann kom víða við á árunum í kringum 1980 – 95 og hafði um tíma annan fótinn í Bandaríkjunum þar sem hann bjó, en hann fæddist þar í landi og fluttist til Íslands þriggja ára.

G.G. Gunn gaf að minnsta kosti út þrjár plötur, fyrst má nefna Exquisite romance (1988) sem kom líklega eingöngu út á snælduformi en síðar sama ár kom út Hot romances sem mun hafa komið út í aðeins þrjú hundruð eintökum, bæði á snældu- sem og geisladiskaformi, sem þá var nýlunda.

1993 kom síðan út platan Letter from Lhasa. Ekki fór mikið fyrir þessum þremur titlum hér heima þó síðast nefnda platan hafi reyndar hlotið sæmilega gagnrýni í Pressunni, á henni var m.a. að finna lag eftir Bubba Morthens en Leonard Cohen hefur einnig verið honum hugleikinn.

Á þessum árum starfaði G.G. Gunn lítillega m.a. með Jet Black Joe, Ósk Óskarsdóttur og Exem og kom fram á plötum þeirra. Hann vann ennfremur við dagskrárgerð á útvarpsstöðvunum X-inu og Aðalstöðinni en síðar hefur lítið farið fyrir honum á tónlistarsviðinu enda er hann með mastersgráðu í sálfræði og hefur haft öðrum hnöppum að hneppa í seinni tíð.

Efni á plötum