Limbó [2] (1991)

engin mynd tiltækLimbó (oft kallað Söngsveitin Limbó) var tríó sem varð til hjá nokkrum æskufélögum, sem ákváðu mörgum árum síðar að láta drauminn um að gefa út plötu, rætast.

Þeir Limbó-félagar, Helgi Indriðason, Guðjón Karl Reynisson og Atli Geir Jóhannesson höfðu á árum áður spilað knattspyrnu saman vestur á Ísafirði og þar höfðu ýmis lög orðið til við söng og gítarglamur, flest eftir Atla Geir.

Löngu síðar eða 1991, þegar þeir félagar voru komnir á fullorðins aldur, ákváðu þeir að láta verða að því að gefa plötu út með efninu og fengu þeir nokkra þjóðþekkta tónlistarmenn og -konur til að leika og syngja inn á plötuna í hljóðveri Sigurðar Rúnars Jónssonar, Stemmu. Afraksturinn varð platan Fyrstu sporin, …traðkað í margtroðinni slóð, sem út kom hjá útgáfufyrirtæki þeirra félaga, Nashyrningnum, á vínylformi og geisladiski sem þá var tiltölulega nýkomið til sögunnar. Veglegur bæklingur með textum fylgdi útgáfunni.

Engar upplýsingar er að finna um viðtökur á plötunni og ekki mun henni hafa verið fylgt eftir að neinu ráði með spilamennsku. Því er líklegast að upplag plötunnar hafi að mestu endað í hópi vina og ættingja Limbós.

Efni á plötum